Ég átti áhugavert samtal milli jóla og nýárs á Íslandi við ungan guðfræðing með BA-gráðu frá Guðfræðideild HÍ sem lýsti fyrir mér hvernig það hefði verið að stunda nám í deildinni. Viðkomandi þekkti engin deili á mér, að ég held, og útskýrði hvernig innan háskóladeildarinnar hefðu verið tvenns konar fólk. Annars vegar ungir strákar sem komu úr kirkjuumhverfinu og/eða KFUM&KFUK, með endalausa reynslu úr starfi kirkjunnar. Strákar sem segðu skemmtisögur af prestunum, vinum sínum, héldu úti korti með upplýsingum um laus prestaköll og hlunnindi og væru uppfullir af sjálfsöryggi og vissu um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Þær væru enda sumir með vinnu í kirkjunni með námi og hefðu sterkt tengslanet inn í kirkjustofnunina. Síðan væru það hinir.
Ég hef svo sem heyrt þessar lýsingar áður, bæði frá eldra fólki en mér og ég heyrði á tíðum svona athugasemdir um mig og félaga mína í deildinni.
Það sem hins vegar snerti mig á nýjan hátt að þessu sinni er að strákarnir (því mest eru þetta karlmenn) hafa allflestir snertiflöt við mig, verið á námskeiðum hjá mér, lesið handbækur sem ég hef skrifað, lesa annálinn minn reglulega og hafa spjallað við mig um heima og geima mörg kvöld og margar nætur í Vatnaskógi. Þannig varð samtal mitt og guðfræðingsins ekki einvörðungu áhugavert í ljósi þess að deildin hefur lítið breyst þrátt fyrir “nýja” guðfræði KFUM&KFUK strákanna, heldur hvernig orð guðfræðingsins voru í raun áfellisdómur yfir mér og þeirra starfa sem ég hef sinnt í leiðtogauppbyggingu hjá kirkjunni og KFUM&KFUK.
Einn þáttur þessa samtals var sér í lagi áhugaverður, en það var spurningin um aðgengi að kirkjunni fyrir guðfræðinema sem er ekki tilbúin til að vinna í barna- og/eða unglingastarfi. Býður kirkjan upp á leiðir fyrir ungt fólk til að mynda tengslanet ef þau hafa ekki áhuga á að vinna með börnum. Er hægt að eiga prest fyrir vin ef þú ert ekki virk/ur í barna- og unglingastarfi kirkjunnar?
Ef guðfræðingurinn hefði þekkt til mín hefði þessi umræða líklegast aldrei átt sér stað, enda var svo þegar ég spurði um nafngreinda einstaklinga og sagðist hafa tekið þátt í þjálfun þeirra og stýrt þeim m.a. í Vatnaskógi, að guðfræðingnum var nokkuð brugðið og taldi sig e.t.v. hafa gengið of langt í gagnrýni sinni enda væru þeir flestallir úrvalsmenn einir og sér, það væri andinn í hópnum sem væri vandamálið.
Ég held ég hafi ekki farið í vörn í umræðunni, þrátt fyrir að ég upplifði gagnrýnina mjög persónulega, sér í lagi í ljósi þess að viðmælandi minn vissi ekki hver ég var að öðru leiti en því að ég væri í framhaldsnámi í guðfræði. Því var ekki um ögrun að ræða hjá viðmælandanum til að kalla mig til rökræðna eins og ég hef oft á tíðum upplifað þessa gagnrýni. Þvert á móti, um var að ræða einlægar áhyggjur og allt að því sorg yfir því hvernig hlutum væri háttað.
Mikið fannst mér áhugavert að lesa þessa færslu, enda stendur efni hennar mér vissulega nærri – get varla undan því vikist að vera í hópi þessara 5-6 einstaklinga sem þú ræðir hér um, þó að ekki eigi allt í færslunni við um mig persónulega.
Þó verð ég að viðurkenna, að ég átta mig ekki alveg á efni færslunnar. Vil því spyrja þig, Halldór, eftirtalinna spurninga:
Hvað var það, sem viðmælandi þinn sagði, sem þú leist á sem „áfellisdóm“ yfir sjálfum þér og þínum störfum innan kirkjunnar?
Hvers vegna upplifir viðmælandi þinn „einlægar áhyggjur og allt að því sorg“ yfir því hvernig hlutum er háttað? Hvernig hvaða hlutum er háttað?
Á hvern hátt er „andinn í hópnum“ vandamálið?
Hvert er markmið þitt með því að skrifa þessa færslu, sem þú veist að umræddir guðfræðinemar – og margir fleiri – munu að líkindum lesa? Eingöngu að hugsa upphátt? Vekja til umhugsunar, og þá um hvað? Eða að ögra?
Hafir þú upplifað gagnrýni viðmælanda þíns persónulega, hvernig ætli við, þessir 5-6 strákar sem umfjöllun þín á við um, höfum þá upplifað greinina þína?
Þá kemur það mér mjög á óvart, að þú skulir þurfa að spyrja hvort kirkjan bjóði upp á möguleika fyrir ungt fólk til að mynda tengslanet, vilji það ekki starfa í barna- og unglingastarfi. Hér detta mér aðeins í svipinn í hug möguleikar á borð við messuhópa, söng í kirkjukórum, störf sem meðhjálpari eða kirkjuvörður, Alfa-námskeið, fræðslukvöld/-morgna, heimsóknarþjónustu, sjálfboðavinnu í félagsstarfi aldraðra og við að annast kirkjukaffi.
Bestu kveðjur, Þorgeir.
Sælir báðir!
Ég held að þú vitir nú alveg hvað Halldór er að fara, Þorgeir. Hann er að mínu mati að tala um togstreitu í deildinni milli þeirra sem fara í guðfræðina eftir að hafa tekið þátt í kirkju- og/eða kristilegu starfi frá barnæsku – og svo hinna sem koma þangað inn utan af götunni með akademiskan áhuga á náminu fyrst og fremst.
Ég heldur einnig, Þorgeir, að það sem við vorum að tala um í morgun, þetta siðferðilega dilemma sem kom upp vegna viðtals sem við ætluðum að hafa við prestana í einni sókninni hér á höfuðborgarsvæðinu, og sem varð ekki af vegna óvildar prestanna gagnvart einum í hópnum, sýni þetta vandamál í hnotskurn.
Ég upplifi þetta ástand þannig að það er eins og kirkjan sé klofin í tvennt. Þá rétttrúuðu annars vegar og hin óhreinu hins vegar – þá sem eru aldir upp í KFUM og K annars vegar og þá sem eru það ekki hinsvegar – þá sem fara í námið til að fá starfsréttindi og hina sem fara vegna námsins sjálfs.
Ég held að Halldór sé farinn að upplifa þennan klofning núna – eftir að hafa verið hluti af öðrum hópnum lengi en nú farinn að sjá hlutina með augu gestsins vegna námsins í útlöndum (m.a.).
Hann leiðréttir mig þá bara ef ég hef rangt fyrir mér.
Sæll Þorgeir og takk fyrir viðbrögðin. Ég skal leitast við að svara þér eins og ég best get.
Ég hef alla tíð haldið að þessir flokkadrættir byggðu á guðfræðilegum áherslum. Ég hélt að þessir flokkadrættir væru afleiðing sterkra áhrifa Bjarna Eyjólfssonar og aðskilnaðarstefnu hans og því trúði ég því sjálfur að með nýjum áherslum í boðun og auknum samgangi milli KFUM og kirkjunnar myndi draga úr þessum meinta flokkadrætti. Ég sem einn þeirra sem hef tekið þátt í að móta leiðtoga í KFUM&KFUK og kirkjunnar, hef því orðið fyrir vonbrigðum með að þessi aðskilnaður er enn til staðar, alla vega í huga þeirra sem standa fyrir utan. Með öðrum orðum neikvæð sýn mín á guðfræði Bjarna Eyjólfssonar og sjálfhverf andúð mín á Fjellhaug guðfræðinni sem einu sinni réð ríkjum í KFUM&KFUK kom og kemur í veg fyrir að ég sjái það sem raunverulega er að.
Ég átti samtal við manneskju sem gæti verið frábær þjónn í kirkju Krists, en upplifir sig á einhvern hátt secondary, upplifir að hafa ekki alveg nóg. Auðvitað er hér um upplifanir og túlkun mína á þeim að ræða, en mín tilfinning var að viðkomandi hefði ekki fundið sig velkomin, þar sem “kirkjulegar forsendur” hefði skort.
Ég er ekki í deildinni núna og það eru 11 ár síðan ég var þar. Þannig að ég get ekki svarað hvað viðmælandi minn átti nákvæmlega við. Það sem ég held að viðmælandi minn hafi verið að vísa til er ákveðinn andi sjálfsöryggis. Skilaboð sem hópurinn gefur ómeðvitað um að við séum kirkjan, ef þú ert ekki jafn “involveraður” og við þá ertu ekki alveg með.
Ég hef ekki hugmynd um hverjir lesa annálinn minn, en hef nokkra grunaða. Mér fannst þetta samtal sem ég átti eiga erindi við þá sem mig grunar að lesi annálinn þar sem þetta er raunveruleiki (alla vega í huga hinna) sem er til staðar og er mikilvægt að ávarpa. Í gamla daga voru þessir flokkadrættir tengdir við atvinnumöguleika innan kirkjunnar, til góðs eða ills. Það að einhverjir telji að þessi veruleiki sé til staðar í dag er þess vegna alvarlegt mál. Greinin er að hluta til tilraun til að hugsa upphátt. Vonandi vekur hún okkur til umhugsunar og það er augljóst að í orðunum felst einhver broddur, einhver ögrun en sú ögrun átti helst að vera gagnvart sjálfum mér. Hvort ég væri til í að viðurkenna veruleika (í huga einhverra alla vega) sem ég er sjálfur hluti af.
Ég þekki þess gagnrýni mjög vel og hef orðið fyrir henni víða. Bæði beint frá nemum í guðfræðideildinni og í einu tilfelli af hendi kennara við deildina, sem lýsti því hvernig þetta kom honum fyrir sjónir en hann tilheyrði ekki æskulýðsarminum. Ég hef þannig skilning á því að ég hef líklega ýtt aðeins of harkalega við einhverjum en bendi á að viðmælandi minn talaði um ykkur sem úrvalsmenn, það var ekki alltaf sagt um okkur sem vorum KFUM-arar þegar ég var í deildinni.
Þorgeir nú þekki ég ekki til í öllum kirkjum, en aðgengi að virkri þátttöku og ábyrgð á öðrum sviðum en í barna- og unglingastarfi er oftast nær ómótað og kallar á mun meira frumkvæði ungs fólks en leiðtogahlutverk í barna- og æskulýðsstarfi. Þetta er að breytast á allra síðustu árum með messuhópastarfi, en það breytir ekki gagnrýni minni.
Torfi, ég hef heyrt þessa gagnrýni oft og iðulega en líklega er auðveldara að sjá hana úr fjarlægð. Mér er illa við notkun þína á orðinu “óhrein”, þó ég viðurkenni að þið virðist hafa verið upplifun viðmælanda míns.
Ég dáist að skapstillingu þinni Halldór! Þorgeir lætur eins og sexmenningarnir, þeir sem hann telur að viðmælandi þinn hafi átt við, séu yfir sig viðkvæmar sálir sem hætt sé við að taki skrif sem þessi nærri sér.
Ég lenti nú í einum þeirra í fyrravor, vegna kæru áttmenninga innan prestastétta á hendur fríkirkjupresti, kærum sem ég leyfði mér að kommentera á hér á annálnum. Þessi viðkvæmi “strákur” réðist persónulega á mig fyrir komment mín – sem ekki voru persónuleg heldur almenn eðlis – og virtist vera vel sjóaður í tungumáli götunnar.
Ég vorkenni því ekkert “þessum 5-6 strákum” sem Þorgeir telur að átt sé við – og tel þá fullfæra um að svara fyrir sig sjálfir, ef þeir sjá þessa umræðu og telja ástæðu til að leggja orð í belg.
Halldór: Þú valdir gott orð, sjálfsöryggi, til að lýsa andrúmsloftinu.
Ég er þó á því að þetta sjálfsöryggi sé fölsk vörn gegn áskorun hins óþekkta sem birtist í framandleika aðkomumannsins. Vörnin felst í að viðhalda aðskilnaði. Það er þó mikill misskilningur að vörn sé besti mótleikurinn. Guð hvetur til gestrisni því þannig hafi margir óvitandi hýst engla. Og hvað er vitjun engla annað en opinberun anda guðs?
Kannski full ástæða til að vera á varðbergi því það er óttalegt að falla í hendur lifanda guðs! Það væri náttúrlega algjör bömmer ef Kristur vitjaði mín í þeim sem ég umber ekki. Þá er alveg sama hvoru megin borðs maður situr.
Torfi: Það er rétt að taka fram hér að þeir strákar sem ég þekki eru líkt og fjölmargir aðrir KFUM stimplaðir guðfræðinemar í gegnum tíðina úrvalsmenn og það er frábært að vinna með þeim, enda hæfileikamenn á fjölmörgum sviðum. Þeir eru án vafa menn sem geta svarað fyrir sig ef þörf krefur. Þannig ber ég mikla virðingu fyrir Þorgeiri Arasyni, enda er hann mjög vandaður einstaklingur og fráleitt af minni hálfu að bregðast harkalega við ábendingum hans og spurningum sem eru fullgildar og mikilvægar í þessari umræðu sem ég hef opnað.
Ólöf: Ég held að hér sé um tvíbent mál að ræða. Þeir af þessum strákum sem ég þekki eru ekki hræddir við að takast á við nýja hluti, eru opnir og tilbúnir til að takast á við lífið. Hræðslan er oft hinum megin við borðið, hjá þeim sem fyllast vanmætti þegar þeir mæta hópi fólks sem lítur út fyrir að hafa hlutina á hreinu.
Þorgeir er fínn drengur, það vita allir sem til hans þekkja!
En það er ástæðulaust hjá honum að láta sem þeir heimavönu í guðfræðideildinni séu yfir sig viðkvæmar sálir sem verði að fara mjög varlega að.
Þá kannast ég ekki við það að hafa gert lítið úr KFUM-hópnum sem persónum eða efast um hæfileika þeirra til starfa innan kirkjunnar, þótt mér finnst þeir sumir hverjir vera full aggressívir í málflutningi og íhaldssamir með afbrigðum.
Ég tók einungis undir þá tilfinningu viðmælanda þíns, sem þú virðist vera sammála, að deildin sé klofin í tvo hópa. Þá innvígðu annars vegar og þá utanaðkomandi hins vegar.
Þetta ástand hefur reyndar varað lengi og er því farið að einkenna kirkjuna sjálfa eins og sést m.a. á deilunum um vígslu samkynhneigðra. Þessi auknu áhrif KFUM og K á íslenska kirkju gerir það að verkum að hún verður mun íhaldssamari en áður – enda eru hin norsku áhrif frá Fjellhaug-guðfræðinni enn mjög sterk innan hreyfingarinnar.
Í umræðunni í fyrra um kæruna á hendur Hirti Magna leyfði ég mér að tala um KFUM sem sértrúarsöfnuð og um aggressívan málflutning þeirra. Þau ummæli áttu svo sannarlega eftir að draga dilk á eftir sér, svo enn er ég að gjalda þeirra.
Það styrkir mig enn betur í þeirri meiningu að KFUM og K hefur mörg einkenni sérstrúarsafnaðar, þar á meðal fanatisma.
Öll er þessi umræða hin skemmtilegasta og ég fagna henni mjög. Hún er ágætis tilbreyting frá grámusku hversdagsins.
Ég er vissulega félagsmaður í KFUM en hef því miður ekki sótt samkomur þess ágæta félags svo nokkru nemi í nokkur ár. Þegar ég kom inn í guðfræðideild hafði ég lítið sem ekkert starfað innan kirkjunnar og raunar hafa störf mín innan hennar að mestu takmarkast við fermingarfræðslu, jafnt í Vatnaskógi sem og Skálholti.
Þó er ég yfirleitt nefndur sem hluti af þessum íhaldssama “innvígða hópi” og er það yfirleitt gert eftir þeirri uppskrift að ég sé agressívur og íhaldssamur í mínum málflutningi. Ég harma mjög að fólk skuli sjá stöðu mála innan guðfræðideildar með svo svarthvítum hætti. Vissulega tekst fólk á um hugmyndir og sumir vilja ganga langt í ákveðnum málum og aðrir ekki. Hins vegar skynja ég aldrei ákveðnar víglínur innan deildarinnar, hið minnsta ekki með sama hætti og Torfi Hjaltalín og Ólöf I. Davíðsdóttir gera hér að ofan.
Ég vil benda fólki á þau ósannindi sem Torfi Hjaltalín ber á borð fyrir fólk er hann segist hafa fjallað um málefni fríkirkjuprestsins með “almennum” og “málefnalegum” hætti. Torfi er einmitt þekktur fyrir afar ómálefnalegar og agressívar athugasemdir hér á netið. Hefur sumum sviðið sú framganga hans!Sú mynd sem Ólöf dregur upp af hinum svokölluðu “sexmenningum” er ósanngjörn og villandi. Hún lætur eins og þeir aðilar haldi sig í fílabeinsturni kirkjunnar og óttist “aðkomumanninn” og þann sem er hjálpar þurfi. Nú veit ég að Ólöf hefur unnið gagnmerkt starf meðal þeirra sem eru minni máttar, en það hafa sexmenningarnir einnig gert á ýmsum vettvangi. “Sexmenningarnir” eru í sífellu að mæta framandi “aðkomumönnum”.
Ég nefndi það hér í upphafi athugasemdar minnar að þessi samræða öll væri hin skemmtilegasta. Það er hún svo sannarlega, ekki síst í ljósi þess hversu villt hún er á köflum.
Það er gott að heyra að Stefán Einar hefur eitthvað til að skemmta sér yfir.
Ef litið er á bloggsíðuna hans þá er ljóst að hann vill einmitt hafa umræðuna sem villtasta.
Hér má sjá ágætt dæmi um það hvernig hann meðhöndlar rit- og greinahöfundinn Þráinn Bertelsson: http://www.stefani.blog.is/blog/stefani/entry/411230/Takið sérstaklega eftir setningunni: “Þráinn Bertelsson ætti að þvo á sér munninn með sápu” og svo þessari: “að má vart sjá hvort sé sjúklegra, hugarfar það er hann opinberaði þarna eða það sem hann sakar saklausa menn um að hafa.”
Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að Stefán stundi aggressívan málflutning. Hins vegar er alls ekki gefið að aðrir í hinum innvígða hópi í guðfræðideildinni geri slíkt hið sama.
En, rétt eins og alkarnir koma óorði á brennivínið, þá kemur sá öfgafyllsti í hópi “innvígðra” óorði á alla hina.
Ég verð að undrast færslu Stefáns Einars hér á annálnum. Hann gerir lítið úr upplifun Ólafar, leitast við að niðurlægja Torfa og slær sjálfum sér á brjóst, kallar fram hugrenningartengsl við Lk 18.
Vissulega eru flokkanir og “sterótýpískar” myndir alltaf ófullnægjandi og í einhverjum skilningi villandi en markmið okkar hlýtur að vera að leitast við að læra af þeim, læra auðmýkt og skilja að réttlætið er ekki að finna í okkar atferli eða stöðu, heldur þvert á móti. Við gerum best þegar við náum að stíga til hliðar og leyfum Guði að vinna sitt verk.
Ég veit vel að ég var og er hluti af þeim hópi í guðfræðideildinni sem “vissi” hvað ég vildi. Ég veit líka að það liðu tæpir tveir mánuðir frá því að ég útskrifaðist þar til ég fékk draumastarfið (ég gat valið úr þremur mjög góðum störfum innan kristilega geirans þegar ég útskrifaðist). Ég veit líka að ég hef oftast nær verið kallaður til starfa án auglýsingar þegar ég hef tekið að mér verkefni. Ég veit að þegar ég kem til baka til Íslands er mjög sennilegt að ég þurfi ekki að eyða miklum tíma í að skrifa CV, einhver kemur til með að kalla mig í verkefni án auglýsingar.
Það er auðvelt fyrir mig að benda á IQ töluna mína til réttlætingar forréttinda minna, eða vísa til reynslu, eða frábærar frammistöðu í öllu sem ég hef gert fyrir kirkjuna, en ég veit hins vegar vel að það er ekki síður fyrir þá staðreynd að ég er tiltölulega ungur, hvítur, æskulýðsfrömuður, gagnkynhneigður karl, ágætur í viðkynningu, spila fótbolta með hinum prestunum og kann að segja skemmtilegar sögur á kaffistofunni sem ég nýt forréttinda umfram fjölmarga aðra hæfa einstaklinga. Ef ég gengst ekki við þessum veruleika, játa óréttlætið sem í honum felst og leitast við að finna leiðir til að ávarpa hann og breyta honum, þá ekki bara geng ég í myrkri, heldur stendur sjálfumgleði mín og fullvissa um eigið ágæti í vegi fyrir að Guð fái unnið sitt verk.
Færslan hér í upphafi var tilraun mín til að gangast við þessari stöðu sem ég óverðskuldað fékk í hendurnar í guðfræðideildinni og ég nýt svo sannarlega ennþá. Vandinn við færsluna er hins vegar að það eru fleiri í svipaðri stöðu og ég sem skiljanlega upplifa þetta sem persónulega gagnrýni á sig.
Þakka þér Halldór fyrir að taka athugasemd minni hér að ofan svo vel og svara spurningum mínum með greinargóðum hætti þegar í stað. Það er auðvitað umhugsunarefni hvort sumir fái allt upp í hendurnar í guðfræðideildinni – tengt aldri, kynferði, félagslegum tengslum o.s.frv. – en aðrir lendi út undan, upplifi sjálfa sig sem “aðkomumenn.” Væntanlega vill ekkert okkar sem störfum í kirkjunni að nokkur sé þar aðkomumaður, og það er gott að vekja athygli á því. Ég reyndi í fyrri athugasemd minni að tína til allmargar leiðir, aðrar en æskulýðsgeirann, fyrir guðfræðinema/ ungt fólk yfir höfuð, til að taka þátt í störfum kirkjunnar. Eflaust má betur ef duga skal. Þó verð ég að taka fram að persónuleg reynsla mín af t.d. unglingastarfi er mun minni en ýmissa samnemenda minna við deildina, sem alls ekki tengjast KFUM & KFUK (mér vitanlega). Þetta getur nú verið sitt á hvað og alls ekki svart/hvítt.
Hvað snertir upphaflegu færsluna hjá þér Halldór þá var vandinn hins vegar sá, að hin heiðarlega og virðingarverða sjálfsskoðun þín, sem sannarlega við fleiri þurfum á að halda að ganga í gegnum, reyndist dálítið klaufalega orðuð, með þeim afleiðingum að hana mátti auðveldlega lesa sem persónulega gagnrýni á “sexmenningana” sem svo hafa verið nefndir. Þú ræddir um ákveðna einstaklinga án nafngreiningar, en með þeim hætti að kunnugir áttu mjög auðvelt með að þekkja viðkomandi, og dróst upp heldur dökka mynd af þeim að mínum dómi: ótakmarkað sjálfsöryggi og jafnvel sjálfbirgingsskapur ásamt útilokun gagnvart öðrum er jú nokkuð sem ekkert okkar vill láta kenna sig við. Það er eins og það er, og þar sem ég er ekki borgarstjóri leyfi ég mér að vera dálítið hörundsár 😉 – Þakka fyrir mig í þessum umræðum. Kveðja, Þorgeir.
Ég hélt að guðfræðideild væri akademísk.
Annað mætti halda af þessum umræðum. Það væri hægt að draga þá ályktun að deildin sé þjálfunarbúðir fyrir Þjóðkirkjuna.
Segið mér að þetta sé ekki satt.
Auðvitað er guðfræðideildin “þjálfunarbúðir fyrir þjóðkirkjuna” og hefur alltaf verið. Kandidatsnáminu lýkur með embættisprófi, rétt eins og lögfræðin og læknisfræðin. Þú hefur rétt til að starfa sem prestur eftir námið og þarf í raun ekki að bæta neinu við þar, því starfsnámið er innbyggt í sjálft grunnnámið (rétt eins og hjá læknum).
Ég hef aldrei skilið af hverju þetta er ekki aðgreint, þ.e. hið akademíska nám um fyrirbærið trú, og starfsnámið, þ.e. réttindi til að starfa innan ákveðinnar stofnunar. Þetta er gert í Svíþjóð svo dæmi séu nefnd um svipað kirkjustofnunarfyrirkomulag og hér, þ.e. þjóðkirkju.
Reyndar má einnig spyrja sig af hverju laganámið fer ekki fram í sér stofnun, sem rekin er algjörlega fyrir fé úr einkageiranum. Það sama mætti segja um nám í viðskiptafræði sem er aðallega þjálfun starfmanna fyrir einkafyrirtækin en ekki þau opinberu.
En ég viðurkenni fúslega að trúmálin eru sér á parti. Kirkjan á sjálf að sjá um þjálfun sinna starfmanna, ekki háskólinn.
Hér þarf að greina á milli hlutverks námsins og námsins sjálfs. Ég er ekki sammála þér Torfi um skilning þinn á náminu. Námið er akademískt fyrst og fremst og lýtur ekki stjórn kirkjunnar.
Á hinn bóginn eru margir í þessu námi til að öðlast starfsréttindi hjá kirkjunni. Þannig veitir akademísk stofnun “út í bæ” réttindi til starfa hjá þjóðkirkjunni. Allir hljóta að sjá hveru fáránlegt það er, og er sjálfsagt að hluta til ástæða þess vanda sem rætt er um í þessari færslu.
Ég tek því undir það að kirkjan á að annast starfsréttindanám síns fólks.