Í dag var mér bent á auglýsingu frá Kristilegu skólahreyfingunni þar sem leitað er eftir einstaklingi með djákna- eða guðfræðimenntun til starfa sem starfsmaður Kristilegu skólahreyfingarinnar, KSH, í 50% starf. Þegar ég fékk vígslu sem djákni fyrir 17 árum þá var þetta draumaframtíðarstarfið mitt.
Í umræðu um atvinnuhorfur og framtíðarstarfsmöguleika í kirkjunni, þá er áhugavert að skoða hvernig þetta starf virðist hafa opnað tækifæri fyrir starfsmenn til frama á vettvangi kirkju og kristni á Íslandi. Hér á eftir er listi yfir þá starfsmenn sem ég man eftir að hafi starfað sem skólaprestar/framkvæmdastjórar skólahreyfingarinnar frá upphafi. Listinn er ekki nauðsynlega í réttri röð.
- Jón Dalbú Hróbjartsson, fyrrv. prófastur og sóknarprestur í Hallgrímskirkju.
- Gísli Jónasson, prófastur og sóknarprestur í Breiðholtskirkju.
- Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju.
- Guðni Gunnarsson (látinn).
- Hildur Sigurðardóttir, prestur.
- Hildur var ársmaður KSH og leysti Guðna af í veikindum hans.
- Hildur Sigurðardóttir, prestur.
- Gyða Karlsdóttir, fyrrv. framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi.
- Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Hins íslenska Biblíufélags.
- Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra Kristniboðsfélaga.
- Guðmundur Karl Brynjarsson, sóknarprestur í Lindakirkju.
- Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju.
- Jón Ómar Gunnarsson, prestur í Glerárkirkju.
- Magnea Sverrisdóttir, djákni og kennari, fulltrúi Íslands í stjórn Lútherska Heimssambandsins.
Þegar horft er yfir listann virðist starfið nýtast sem stökkpallur til metorða í kirkjunni. Ef við lítum svo á að verkefni prófasta, sóknarprestsstörf, þjónusta í stórum prestaköllum eða framkvæmdastjórastöður í virtum félagasamtökum séu mælikvarði á árangur í starfi.
Þegar ég var ríflega tvítugur þá sá ég þetta fyrir mér sem framtíðarstarf, enda á þeim tíma fátítt að geta unnið með fólki á aldrinum 16-25 ára á vettvangi kirkju og kristni.
En hvort sem umsækendur telja þetta mögulegt framtíðarstarf eða 3-5 ára millileik, þá er óhætt að segja að tækifærið sé frábært.