Fyrir rúmum 20 árum var ég starfsmaður á almennu kristilegu móti í Vatnaskógi. Á þeim tíma vann sumarstarfsfólk í Vatnaskógi fjórar vikur í röð í júní og sá síðan um ýmis praktísk mál helgina sem almenna mótið var haldið áður en farið var í viku frí. Oftar en ekki vorum við dauðþreytt eftir 28 daga úthald þegar almennu mótin hófust, sem á stundum leiddi til mistaka og árekstra.
Eitt af fjölmörgum verkefnum sem við önnuðumst var að sjá um að vekja mótsgesti á laugardags- og sunnudagsmorgun. Við sem önnuðumst verkefnið töldum að það að nota lúður til að vekja fólk væri einfaldlega ómannúðleg aðferð, enda hafði hún verið lögð af í drengjaflokkum einhverjum árum áður. Þess í stað gengum við um svæðið með gjallarhorn, buðum góðan dag á tjaldsvæðunum og tilkynntum að það væri komið að fótaferðatíma.
Við í sakleysi og þreytu héldum að við hefðum fært standardinn á vakningum upp um áratugi og vorum stoltir af því að hafa fært almennu mótin inn í framtíðina.
Við hefðum ekki getað haft vitlausara fyrir okkur. Ánægjan með fegurð radda okkar var enginn, kærleiksrík nálgun okkar og vinaleg heit voru vægast sagt illa séð. Hefðin gerði ekki ráð fyrir þessu.
En þegar söfnuðurinn skal koma saman skuluð þið þeyta lúðrana en ekki hvellt.
Mér flaug þetta í hug þegar ég les um lúðrana sem Móse lét smíða. Hefðin fyrir lúðrablæstrinum var eldri en við áttuðum okkur á. Lúðrarnir í Vatnaskógi eru meðvitað eða ómeðvitað vísun í 4. Mósebók 10. kafla.
Gjallarhornið með fögru og vinalegu röddunum var þannig merki um afhelgun, brotthvarf frá sögu Ísraelsþjóðarinnar, merki um að ungu starfsmennirnir væru ekki læsir á ritninguna, skyldu ekki samhengi sitt.
Á gleðidögum ykkar og hátíðum og við upphaf mánaða skuluð þið þeyta lúðrana, einnig við brennifórnir og heillafórnir. Þeir munu minna á ykkur frammi fyrir augliti Guðs ykkar. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
—
Annars er áhugavert í seinnihluta kaflans, hvernig Móse leggur áherslu á það við tengdaföður sinn, Hóbab, að hann yfirgefi ekki tjaldbúðina. Ástæðan sem Móse gefur fyrir því að Hóbab þurfi að fylgja hópnum er:
Yfirgefðu okkur ekki. Vegna þess að þú veist hvar við getum tjaldað í eyðimörkinni getur þú vísað okkur veginn.
En þessi orð kallast skemmtilega á við lýsingar á því hvernig það er ský Drottins sem segir þeim hvar skuli tjalda.