4. Mósebók 6. kafli

Það er ekki óvenjulegt að einstaklingar kjósi að draga sig út úr daglegri rútínu um lengri eða skemmri tíma, hvort sem er til íhugunar eða ævintýra. Hér í 4. Mósebók eru skilgreindar reglur fyrir einstaklinga sem kjósa að draga sig til hliðar, svokallaðir nasírear. Einhver gæti jafnvel freistast til að tengja nasíreahugtakið við borgina Nasaret, og sjá fyrir sér Jesú sem nasírea. 

Þau hugrenningatengsl eru þó vart gild, enda leggja frásögur guðspjallanna áherslu á þætti í lífi og starfi Jesú, sem væru óhugsandi í ljósi þeirra þriggja reglna sem nasírear þurfa að fylgja.

 1. Nasírear skulu skv. textanum forðast vín og sterka drykki, sem Jesús virðist ekki hafa gert, sbr. t.d. Lúkasarguðspjall 7.34. Fræðimenn hafa bent á að ásakanir um víndrykkju í garð Jesú, sem hafa náð alla leið í guðspjöllin bendi mjög skýrt til þess að Jesús hafi drukkið áfengi, enda væri skammaryrðið vínsvelgur algjörlega marklaust að öðrum kosti.
 2. Við vitum svo sem ekkert um hárvöxt Jesú, en það er skýrt að nasírear máttu ekki skera hár sitt.
 3. Þriðja reglan snýr svo að umgengni um lík. Nasíreum var bönnuð öll umgengni við látna. Það er hins vegar ljóst af frásögnum guðspjallanna að Jesús hræddist ekki umgengni við látna eða þá sem sagðir voru óhreinir á einhvern hátt.

Góður Gamla testamentisfræðingur og kennari sem ég hafði eitt sinn, minnti okkur á að það væri hægt að lesa Gamla testamentið eitt og sér, án þess sífellt að lesa það í ljósi Jesú eða í samhengi við Jesúspurningar.

Það virðist þörf á því í tengslum við umfjöllun 4. Mósebókar um nasírea. Hér virðist enda fyrst og fremst um að ræða stofnanavæðingu þarfar einstaklinga til að draga sig út úr daglegri rútínu.

Umfjöllunin um nasírea virðist ekki endilega passa inn hér í textann, en í lok hennar eða að umfjölluninni lokinni, kemur síðan eins og úr samhengi við allt, bæn Arons, einhver elsta skráða bæn Biblíunnar.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

2 thoughts on “4. Mósebók 6. kafli”

 1. Jesús heitir því reyndar að drekka ekki framar vín á einum stað í guðspjöllunum (nenni ekki að leita upp í hverjum þeirra hann gerir það).

  Svo trúi ég reyndar þeirri sérstöku söguskýringu að Jesús hafi upphaflega verið kallaður nasírei og frá því var hann seinna tengdur við Nasaret. 🙂 (ef maður skoðar t.d. Mk 1:24 er “nasarei” og “heilagur guðs” tengt saman, en “heilagur guðs” var notað í grísku þýðingunni á “nasírei”)

  1. Takk fyrir ágæta ábendingu með Mk 1.24 og tenginguna milli Heilagur Guðs og nasírei. Þetta eru ágæt rök fyrir þeim hugmyndum að Jesús hafi e.t.v. verið nasírei, þó að ég telji að svo hafi ekki verið.

   Varðandi fyrri hlutann þá segir hann lærisveinunum í lok kvöldmáltíðarinnar að hann muni næst drekka með lærisveinunum í ríki föður míns í Mt 26.29, en það er yfirleitt skilið í tengslum við yfirvofandi dauða hans og erfitt að útskýra þau orð á þeim tíma sem vísun til hlíðni við nasíreaboð Mósebókanna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.