Ofurtrú á vinstri sinnuðum aðgerðasinnum

Þegar ég sá frétt í Morgunblaðinu um að ráðherrar ætluðu að þiggja boð um að fara í laxveiði til að bæta ímynd laxveiða, hélt ég að um væri að ræða úthugsað plott vinstri sinnaðra aðgerðasinna til að gera grín að forsætis- og fjármálaráðherra.

Þeir hefðu fengið í lið með sér umsjónarmann laxveiðiár til að senda út fréttatilkynningu og einhvern veginn náð að blekkja blaðamann Morgunblaðsins til að birta fréttina. Mér fannst í fullri alvöru að það væri líklegasti uppruni þessarar fréttar. Þegar ég las greinina þá hló ég upphátt og hugsaði að aumingja blaðamaðurinn sem skrifaði þetta myndi fá að heyra það, þegar plottið kæmi í ljós. Ég sagði meira að segja við konuna mína að mbl.is hefðu látið gabba sig til að birta ruglfrétt um Sigmund Davíð og Bjarna Ben.

Mér einfaldlega datt ekki í hug að þetta gæti verið satt og ég hef samt ekkert endilega mikla trú á skynsemi Sigmundar og Bjarna. Þegar svo Jóhanna Sigurðardóttir fór að tala um siðleysi, þá staldraði ég við, og hugsaði að varla væri hún hluti af plottinu.

Þegar Bjarni birti mynd af veiðiflugu á Facebook, var mér verulega brugðið og nú eru komnar myndir af þeim félögum út í á að veiða. Fréttamaðurinn virðist sem sé ekki hafa verið blekktur. Ég er nefnilega viss um að snilld vinstrisinnaðra aðgerðasinna sé ekki nægilega mikil til að sannfæra Bjarna og Sigmund um þátttöku.

En ég lifi í voninni, kannski er atriðið ekki búið. Ég lifi í voninni um að allt í einu birtist Aston Kutcher, horfi í augun á þjóðinni og hrópi Punk’d, snúi sér síðan að Sigmundi Davíð, Bjarna og Jóhönnu og þakki þeim fyrir aðstoðina við besta djók ever.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.