Fagmennska sem kemur á óvart

Ég held að flestir séu sammála um að ákvörðun frú Agnesar M. Sigurðardóttur í tengslum við ráðningu sóknarprests í Seljakirkju hafi komið á óvart. Það að fallast ekki á rökstuðning valnefndar er óvenjulegt. Þegar litið er til þess frábæra starfs sem unnið er í Seljakirkju verður undrunin jafnvel meiri.

Eftir að hafa velt þessu fyrir mér, enda eru stjórnun og kirkjumál mér verulega hugleikinn, þá verð ég að segja að ákvörðun Agnesar er óvenjufagleg og merkilega djörf, þegar við lítum til sögunnar í kirkjunni. Það hefði verið miklu auðveldara fyrir hana að horfa í gegnum fingur sér og vona að enginn myndi kippa sér upp við það þó kirkjan gengi gegn eigin innri samþykktum og landslögum. Síðan væru borgaðar málamyndabætur fyrir brot á jafnréttislögum og málið hyrfi.

Það er staðreynd að margir umsækendur höfðu meiri menntun, meiri stjórnunarreynslu og/eða lengri starfsaldur í kirkjunni en sá sem valnefndin valdi. Það að a.m.k. einn umsækandinn hafði framhaldsmenntun, stjórnunarreynslu, tvöfalt lengri starfsaldur og var auk þess kona, olli því að ákvörðun valnefndar var mjög líklega brot á jafnréttislögum sem kirkjunni ber að fylgja.

Með þessum skrifum er ég ekki að varpa rýrð á þann sem valnefnd í Seljakirkju valdi. Viðkomandi er einstaklega hæfur, hefur staðið sig mjög vel sem prestur og nýtur mikilla vinsælda innan sóknar og langt út fyrir sóknarmörk.

Þjóðkirkjusöfnuðir eru einfaldlega bundnir af innri samþykktum og landslögum. Þegar valnefnd Seljakirkju tók ákvörðun sem virtist vera utan við það sem þeim var heimilt og mistókst að rökstyðja þá ákvörðun, bar biskup skylda að grípa inn í, og öllum á óvart þá gerði hún það.

Agnes gerir samt meira en að hafna vali nefndarinnar. Hún gefur sóknarbörnum kost á að velja sér prest framhjá hinu hefðbundna ráðningarferli. Í stað þess að Agnes skipi sjálf í stöðuna þann sem hún telur hæfastan, þá verður staðan auglýst aftur. Þannig skapast rými fyrir sóknarbörn að safna undirskriftum, óska eftir prestskosningu og kjósa sér prest ef vilji er til. Þar sem kosninganiðurstöður eru ekki bundnar af innri samþykktum og jafnréttislögum er möguleiki á því að sóknarbörn Seljasóknar geti valið sér prest án þess að vera bundin af innri samþykktum og jafnréttislögum. Ef hins vegar sóknarbörn hafa ekki áhuga á prestskosningum, fær valnefnd annað tækifæri til að rökstyðja mál sitt.

Einhverjir kynnu að spyrja hvort að ráðningarmál presta í kirkjunni séu ekki meingölluð ef svona atvik koma upp og svarið er já. Öll ráðningarkerfi eru gölluð (enda mannanna verk). Stóra spurningin í stjórnun er hvernig þeir sem ráða bregðast við þegar gallar koma í ljós. Það er mitt mat, m.v. þær upplýsingar sem ég hef, að Agnes hafi staðið sig óvenjufaglega í þessu máli öllu. Auðvitað er örugglega eitthvað sem hefði mátt gera betur og málinu er að sjálfsögðu ekki lokið, en Agnes virðist hafa fundið góða leið til að leysa úr þeim vanda sem varð til þegar valnefnd mistókst að rökstyðja ákvörðun sína á fullnægjandi hátt.

One thought on “Fagmennska sem kemur á óvart”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.