Utanumhald um námskeið og skírteini

Ég hef aldrei verið sérstaklega góður í að halda utan um námskeið sem ég hef tekið, aldrei sett upp lista yfir áunnin réttindi (og sum reyndar útrunnin) sem ég hef öðlast.

Þannig var ég í dag að leita að upplýsingum um námskeið sem ég tók fyrir mörgum árum sem fjallaði um hvernig hjálpa má einstaklingum og fjölskyldum við útfyllingu skattaskýrslna í BNA og við að sækja um félagslega aðstoð. En í kjölfar námskeiðsins var ég við ráðgjöf eitt vor hjá The Benefit Bank í Ohio. Ég fann ekki gögnin en komst að því að ef ráðgjafar nota ekki þjónustukerfi The Benefit Bank í meira en eitt ár, þá missa þeir réttindi sín.

Meðan ég var að leita, rak ég augun í skírteini með mynd frá Lutheran Disaster Response og Lutheran Social Services of Central Ohio um að ég væri Level 2 – C.M. & S.C. Volunteer, sem þýðir að ég hef lokið námskeiðum í Case Management og Spiritual Care á hamfarasvæðum. Reyndar er tekið fram að skírteinið renni út í júní 2009, svo líkast til þyrfti ég að taka námskeiðin aftur til að halda mér við.

Fyrst ég er byrjaður, er kannski ráð að fara yfir helstu námskeið hér á eftir. Þannig má nefna námskeið um Adaptive Leadership hjá Abiding Hope Lutheran Church sem ég tók í upphafi árs 2010. Ég hef tekið námskeið til að kalla mig umsjónarmann (facilitator) námskeiða Healthy Congregations Inc. Ég hef farið í gegnum Boundary Training námskeið með áherslu á kynvitund annars vegar og rasisma hins vegar í Columbus, Ohio.

Áður en ég flutti til BNA, sat ég Training for Trainers námskeið á vettvangi samkirkjumála í æskulýðsmiðstöð Evrópuráðsins í Ungverjalandi. Ég tók námskeið um samspil trúarbragða í Evrópu í orthodox klaustri í Grikklandi. Þá sat ég námskeið um deilurnar á Norður Írlandi í ljósi samkirkjuhreyfingarinnar í nunnuklaustri á Norður Írlandi.

Ég hef sótt um tug námskeiða fyrir sumarbúðastarfsfólk hjá KFUM og KFUK og kennt á öðrum eins fjölda (sem er oft mikill lærdómur í sjálfur sér). Ég hef tekið Verndum þau námskeiðið á Íslandi tæplega tvisvar. Ég sat líka fyrir margt löngu (líklega 1995 eða 1996) námskeið á vegum KFUM og KFUK frá Stígamótum eða Kvennaathvarfinu um kynferðisofbeldi gegn börnum, sem var í fyrsta skipti sem ég heyrði fjallað um þau mál.

Ég hef tekið námskeið um kristilegt skóla- og stúdentastarf, m.a. rúmlega vikunámskeið í Gjövik fyrir stjórnarfólk í kristilegu skólastarfi og eins var ég á Hald í Mandal í nokkrar vikur 1993 sem hluti af ettaring hópi norsku skólahreyfingarinnar. Þá má  nefna að ég fór á námskeið í Ungverjalandi á vegum IFES fyrir nærri 20 árum. Ég hef einu sinni sótt GLS (Global Leadership Summit) og setið ýmis námskeið fyrir æskulýðsfulltrúa sem of flókið er að telja upp. Þó man ég eftir einu mjög góðu námskeiði í Neskirkju þar sem Vigfús Bjarni Albertsson kenndi.

Ég hef setið ýmis námskeið ÆSKR í gegnum tíðina. Leiðtogauppbygging á vegum Skref fyrir Skref er minnistætt janúarnámskeið, líklega 1998 og eins var námskeið á vegum fyrirtækisins Áskorunar, spennandi og vandað í janúar 2000. Reyndar kemur fram á heimasíðu Áskorunar að það hafi ekki verið stofnað formlega fyrr en sumarið 2000. En námskeiðið var samt sem áður í janúar 2000 í Skálholti.

Þá má að lokum geta þess að ég hef tekið námskeið í notkun bókhaldskerfa, TOKplus og TOKlaun, sem ég veit ekki hvort séu ennþá til. Ég hef setið fjölmörg styttri skyndihjálpar- og eldvarnarnámskeið. Loks er vert að nefna að ég sæki um þessar mundir fræðslukvöld fyrir knattspyrnuþjálfara í yngri flokkum á vegum Shaker Heights Youth Soccer.

Þetta er sjálfsagt ekki tæmandi listi, en það er samt ágætis byrjun í viðleitni minni við að safna þessu saman á einum stað.

FcBumbi

Viðbót: Eftir að hafa birt færsluna, rak ég augu í möppu í bókahillunni í skrifstofuherbergi fjölskyldunnar, sem hafði að geyma Honorary Membership Certificate frá 1. janúar 2010, þar sem fram kemur að ég sé FC Bumbi Honorary Squad Member. Það er ekki lítið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.