Guðsþjónusta án altarisgöngu

Hér á eftir er guðsþjónustuform án altarisgöngu og prédikunar, byggt í kringum kyrrð og tónlist frá Taize-klaustrinu í Frakklandi. Hefðbundnir liðir guðsþjónustuformsins eru notaðir að einhverju leiti, þannig er inngöngusálmur, miskunnarbæn, lofgjörð, lexía, pistill og guðspjall, ásamt almennri kirkjubæn og blessun til staðar í forminu.

Tónlist: Kassagítar og/eða píanó, hugsanlega þverflauta.
Sönghópur sitji úti í sal, enginn sé framan við altari eða á sviði.
Stjórnandi/lesarar: Sitji úti í sal og standi upp þar sem þeir eru.
Kirkja/salur: Myrkvaður, allir stólar og/eða bekkir fjarlægðir ef mögulegt (setið á gólfi).
Kertum raðað á gólf, tákn og/eða mynstur
—-
Stundin hefst með því að allir ganga inn í kirkjurýmið/salinn í kyrrð. Eftir að stundin hefst er ekki hægt að auglýsa eða koma neinum skilaboðum á framfæri öðrum en þeim sem varða dagskrá stundarinnar. Eftir að stundin hefst er ekki hægt að yfirgefa kirkjurýmið/salinn eða koma inn í kirkjurýmið/salinn. Þetta er mjög mikilvægt til að draga úr truflun.
—-
Fyrir stundina (safnast saman fyrir utan rýmið):

  • Allir boðnir velkomnir
  • Sungið
  • Auglýsingar
  • Stundin kynnt (útskýrt að kyrrðin henti e.t.v. ekki öllum)
  • Allir ganga hljóðir inn í salinn (engar samræður leyfðar)

—-
Stundin
L1: Lesari 1
L2: Lesari 2
L3: Lesari 3
Stj.: Stjórnandi
S: Söngur
A: Allir

Meðan gengið er inn er spilað aftur og aftur: Hefjum vor augu…

L3: Syngjum: Hefjum vor augu og hendur til himins.

S: Hefjum vor augu og hendur til himins.

L3: Hann var blindur og sat við veginn til Jeríkó þegar hann heyrði mannfjöldann nálgast. Hann hafði heyrt að Jesús frá Nasaret, smiðssonur væri í hópnum. Hann hafði einnig heyrt að smiðsonurinn hefði læknað marga, losað það við betlistafinn, gefið fólki nýtt líf. Hann hrópaði því bæn til þessa Jesú, hann hrópaði: Jesús, miskunna þú mér. Og þegar fólkið sussaði á hann hrópaði hann enn hærra: Jesús, miskunna þú mér! Við syngjum þessa bæn nú með orðum Nýja testamentisins: Kyrie Eleison eða Drottinn, miskunna þú mér. Við biðjum Guð um að vera okkur nálægur, veita okkur náð sína.

S: Kyrie Eleison

L3: Lofum Guð með orðum englanna! Dýrð sé þér, Guð í hæstum hæðum.

S: Gloria, Gloria, in Exelsis Deo. – Dýrð sé þér, dýrð sér þér, Guð í hæstum hæðum.

L1: Bæn

Guð, þakka þér að við megum lofa þig. Við megum taka okkur í munn orð englanna þinna, syngja þér dýrð.

Þakka þér fyrir að við megum hvíla í þér, hvíla í örmum skapara okkar.

Amen

L2: Ég les úr Sálmum Davíðs:

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna. Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna. Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós. Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru. Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

Hugleiðum orð sálmaskáldsins í kyrrð.

KYRRÐ Í 3 MÍNÚTUR (Lesari 1, hefur lestur að lokinni kyrrð)

L1: Í Hebreabréfinu stendur:

Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli. Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

Hugleiðum orð bréfritarans um stund.

KYRRÐ Í 3 MÍNÚTUR (L3 rýfur kyrrð, kynnir næsta söng)

L3: Biðjum, syngjum: Jesús, ó, minnstu mín, er þú kemur í þitt ríki

S: Jesús, ó, minnstu mín, er þú kemur í þitt ríki

Stj: Hugleiðum orð bæn Jesú Krists eins og hún er skrifuð af Guðspjallamanninum Jóhannesi:

Ég bið ekki einungis fyrir [postulunum], heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra, að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.

Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt, ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig. Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims. Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig. Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.

Þannig hljóðar bæn Jesú Krists okkur til handa. Hugleiðum bænina í kyrrð og biðjum Guð að gefa okkur anda sameiningar svo allir megi trúa að við séum Krists.

KYRRÐ Í 5 MÍNÚTUR (Stj. rýfur þögnina með því að hefja lestur trúarjátningarinnar)

A: Postullega trúarjátningin

L3: Lofum Guð, syngjum: Þökk sé þér ó, Guð, drottinn vor, því þú ert góður

S: Þökk sé þér ó, Guð

L1: Biðjum fyrir kirkju Krists hér á jörð.

ÞÖGN Í 1 MÍNÚTU (tónlistarfólk rýfur þögnina með söng)

S: Ó, heyr mína bæn …

L2: Biðjum fyrir þeim sem líða skort og finna til sársauka.

ÞÖGN Í 1 MÍNÚTU (tónlistarfólk rýfur þögnina með söng)

S: Ó, heyr mína bæn …

L1: Biðjum fyrir náunga okkar, sem við mættum hvern dag

ÞÖGN Í 1 MÍNÚTU (tónlistarfólk rýfur þögnina með söng)

S: Ó, heyr mína bæn …

L2/A: Faðir vor

Stjórnandi fer fremst og stendur þar í blessuninni

Stj.: Blessun

Guð, sem skapað hefur vötnin á jörðinni,
Jesús Kristur, hið lifandi vatn
og heilagur andi, sem hreinsar okkur í heilögu vatni skírnarinnar,
veri með okkur öllum, nú og að eilífu.
Amen

S: Vegsamið Drottinn Guð

Stj.: (Talar ofan í tónlistina) Nú er stundinni að ljúka. Að endingu langar mig að veita ykkur, hverju og einu fararblessun, út í nóttina, út í lífið allt. Meðan við syngjum lokasönginn vil ég biðja eitt og eitt að rísa á fætur þegar ég geng til ykkar, leggja hendur ykkar fram og taka við fyrirbæn minni. Að því loknu vil ég biðja þann hinn sama að ganga hljóðlega úr salnum. Við syngjum á meðan: Vegsamið Drottinn Guð, vegsamið Drottinn Guð, allar þjóðir, hallelúja.

S: Vegsamið Drottinn Guð

Meðan söngurinn er sunginn er veitir stjórnandi fararblessun.

Notað á KSS-fundi 27. nóvember 1999.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.