Jesaja 9. kafli

Framtíðin felst í barninu sem hefur fæðst/mun fæðast.

Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.

Þetta er barnið sem mun forða Suðurríkinu (Júda) frá sömu örlögum og Norðurríkið (Ísrael) mátti þola 722 f.Kr.

Því að leiðtogar fólksins leiddu það afvega,
þeir sem leiddir voru villtust.
Þess vegna þyrmdi Drottinn ekki æskumönnum sínum
og sýndi ekkjum sínum og munaðarleysingjum enga miskunn
því að þeir voru allir óguðlegir og illmenni
og sérhver munnur þvaðraði.
En samt sefaðist reiði Drottins ekki,
hönd hans var enn upp reidd.
Því að illska þeirra brann eins og eldur
sem gleypti þyrna og þistla.
Hann kveikti í skógarþykkninu
svo að það þyrlaðist upp í reykjarmekki.
Landið sviðnaði af heift Drottins,
fólkið varð eins og eldsmatur.
Enginn þyrmdi öðrum:
Þeir rifu í sig til hægri og voru jafnsvangir,
átu til vinstri og urðu ekki saddir,…

Norðurríkið varð aldrei aftur. Innrás Assýríumanna gerði það að engu. Eins og oft áður í textum Gamla testamentisins er Guð gerandi. Staðreynd sem mörgum finnst erfitt að takast á við og hefur mótað hugmyndir um góða Guð Nýja testamentisins og vonda Guð Gamla testamentisins. Við sjáum það jafnt hjá Markíon og gnóstíkerum á fyrstu öldum kristninnar og hjá lítið lesnum moggabloggurum á 21. öld.

Guðsmynd Jesaja og margra höfunda Gamla testamentisins byggði á því að allt var Guðs, fyrir Guð og vegna Guðs. Án Guðs gæti alls ekkert gerst. Þannig var innrás Assýringa aðeins möguleg vegna þess að Guð leyfði árásina. Í þeim skilningi var „hönd Guðs enn upp reidd“. Guð sem öllu stjórnar og öllu ræður leyfði Assýringum að brjóta Norðurríkið á bak aftur. Ergó, Guð er gerandinn.

Svar Jesaja við spurningunni hvort Guð gæti byggt svo stóran stein að Guð gæti ekki lyft honum, hefði verið „já, en Guð gæti samt lyft honum.“ Frumforsenda alls er nefnilega Guð.

Þessi klemma um algóðan Guð og illsku heimsins er óleyst, lausn Jesaja um endurgjald og réttlæti er hafnað annars staðar í Gamla testamentinu, t.d. í Jobsbók, þar sem svör vinanna eru augljóslega ófullnægjandi til að útskýra hið illa og þjáninguna. Hvort það sé til fullnægjandi svar er í dag e.t.v. fyrst og fremst persónuleg spurning í vestrænni kristni. Það er hins vegar ljóst að það er ekki til endanlegt svar sem allir taka gilt.

2 thoughts on “Jesaja 9. kafli”

  1. >Guð sem öllu stjórnar og öllu ræður leyfði Assýringum að brjóta Norðurríkið á bak aftur. Ergó, Guð er gerandinn.

    Mér finnst þú vera að mýkja textann. Jahve “leyfir” ekki bara Assýringum að ráðast á þá, Jahve sendir þá.

    Annars væri gaman að rannsaka það hvort að það sé ekki fullt af “markíonítum” hjá vígðum mönnunm innan Þjóðkirkjunnar. Mig grunar það.

Leave a Reply to Hjalti Rúnar Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.