3. Mósebók 20. kafli

Guðinn Mólok sem hér er nefndur til sögunnar, var einn þeirra guða sem dýrkaður var af nágrannaþjóðum Hebrea. Í túlkunarhefðinni er Mólok tengdur við mannfórnir og sér í lagi fórnir á börnum. Ef sá skilningur er ofan á, þá er auðvelt að skilja textann í upphafi þessa texta. Sá sem fórnar barni sínu hefur lítinn rétt.

Sá möguleiki er hins vegar til staðar að túlkunarhefðin um Mólok sem barnafórnaguð, sé byggð á þessum texta og nokkrum öðrum, m.a. í 3. Mósebók 18.21. Það sé frjálsleg túlkun á þessum textum sem hafi skilað sér í Paradísarmissi Miltons rúmlega 2000 árum síðar. Vísunin til Móloks sem tekur börnin er þannig ætlað að vara við því að Hebrear freisti gæfunnar utan eigin samfélags.

Listinn hér í 20. kafla er að hluta til endurtekning á 18. kaflanum. Áherslan liggur á sæmd og virðingu, fyrst gagnvart Guði, en síðan gagnvart foreldrum, fjölskyldu, ættinni og samfélaginu í heild. Nú er ekki lengur nóg að uppræta úr þjóðinni, brot á sæmdarlöggjöfinni kallar á aftöku þeirra sem eru taldir brjóta af sér.

Það er líka áhugavert að hér er ekki vísað til samfundatjaldsins, til fórnargjafa eða réttlætingar. Þessi aukna stífni, harða krafa og ýktu refsingar gætu bent til þess að þessar reglur séu mótaðar í samfélagi í nauðvörn, samfélagi sem telur sér ógnað og þarf því að standa þéttar saman en nokkru sinni. Allt sem kemur að utan er ógn, ef aðeins við stundum saman sem eitt, drögum úr frávikum og fylgjum þeim sem stjórna þá verðum við þjóðin sem Guði geðjast að.

3 thoughts on “3. Mósebók 20. kafli”

  1. >Nú er ekki lengur nóg að uppræta úr þjóðinni, brot á sæmdarlöggjöfinni kallar á aftöku þeirra sem eru taldir brjóta af sér.

    Ég skildi alltaf “upprættur úr þjóðinni” sem aftöku. Eftir stutta leit sé ég eitt vers sem virðist styðja þann skilning:

    >Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. (Önnur bók Móse 31:14)

  2. Hebreska orðið er וְנִכְרְתוּ sem þýðir að sneiða af, fjarlægja, losa sig við. Það kemur ekki mjög víða fyrir utan 3. Mósebókar. Þó er það þýtt á einum stað í Jesaja 29 í íslensku þýðingunni frá 2007 sem tortíma.

    Í enskum þýðingum er yfirleitt notað cut-off, líka í Jesaja 29. Ég hef svo sem ekki skoðað þetta nánar, en niðurstaðan er að við höfum báðir ýmislegt til okkar máls þegar kemur að túlkun á “upprættur úr þjóðinni.”

    Hér gæti verið átt við aftöku, en það væri ekki bókstaflegur skilningur á hugtakinu, ekki fremur en nálgun mín að um sé að ræða útlegð og/eða bannfæringu (hvernig svo sem við skiljum bannfæringarhugtakið).

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.