Markúsarguðspjall 15. kafli

Lýðræði er versta stjórnarformið, ef frá eru talin öll önnur stjórnarform sem reynd hafa verið. (Winston Churchill, í ræðu í breska þinginu 11. nóvember 1947)

Vissulega var ekkert raunverulegt lýðræði til staðar í tíð Jesú Krists, en samt ákveður Pílatus að leyfa lýðnum að velja. Pílatus í Markúsarguðspjalli er ekki hræddur líkt og sá í Jóhannesarguðspjalli. Hann er undrandi og virðist ekki telja að Jesús sé hættulegur rómverska heimsveldinu.

Hann býður lýðnum að velja hvort Jesús eða uppreisnarmaður að nafni Barabbas verði látin laus í tilefni páskahátíðarinnar og lýðurinn velur Jesú. Þegar manneskjur verða að múg, er nefnilega hægt að sannfæra þær um allt, sem minnir okkur á veikleika lýðræðisins.

Hermenn rómverska heimsveldisins hæðast að Jesú. Hvað þóttist þessi vilja upp á dekk, hvaða vald þóttist hann hafa. Þegar allt kom til alls var fólkið fljótt að hlaupa frá honum. Jesús virðist ekki hafa megnað að bera krossinn sjálfur og Símon frá Kýrene er neyddur til að halda undir krossinn. Synir Símonar, þeir Alexander og Rúfus, virðast kunnugir höfundi Markúsarguðspjalls og ætluðum áheyrendum guðspjallsins, enda eru þeir nefndir á nafn til að gera grein fyrir hver þessi Símon var.*

Krafa Jesú um vald, virðist koma honum í koll. Öllu er lokið og fólkið sem gekk hjá hæddist að þessum manni sem þóttist vera eitthvað.

Hér er minnst á sólmyrkva, fortjald musterins var nú óþarft og rifnaði í tvennt, og Jesús er sagður hafa hrópað:

„Elóí, Elóí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?

Fulltrúi rómverska heimsveldisins, er sagður hafa orðið uppnuminn af skjótu andláti Jesú og sagði:

Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.

Höfundur Markúsarguðspjalls segir ekkert um veru lærisveinanna á hauskúpustað, en konurnar sem höfðu fylgt Jesú stóðu álengdar og fylgdust með því sem fram fór og sáu hvar Jesús var lagður í gröf af Jósef frá Arimaþeu.

Ef sagan endaði hér, væri Jesús „motivational speaker“ fyrir þá sem upplifa sig kúgaða, konurnar sem fylgdu honum til grafarinnar, fátæklinganna sem betluðu við veginn og þá sem upplifðu sig afskipta. Jesús væri jafnframt uppreisnarmaður, „zealot“, ögrun við valdakerfi samtíma síns, gagnrýnandi á trúarbrögð sem kúga og meiða, andófsmaður gegn trúarkerfum sem hafa það hlutverk helst að viðhalda sjálfum sér.

En, það er víst einn kafli enn í Markúsarguðspjalli, eða hvað?

* Maður að nafni Rúfus er nefndur ásamt móður sinni í lokakafla Rómverjabréfsins sem meðlimur í söfnuðinum í Róm. Hafa einhverjir getið þess til að hér sé um sama Rúfus að ræða. Ef Markúsarguðspjall er skrifað í Róm, eins og enn aðrir telja, enda virðist það skrifað fyrir grískumælandi kristna áheyrendur sem höfðu takmarkaða þekkingu á gyðingdómi, þá gæti vísunin til Rúfusar vel verið við hæfi.

Þá er talað í 11. kafla Postulasögunnar um trúboða frá Kýrene sem boðuðu Krist í Antíokkíu og einhverjir telja að þar geti verið um að ræða þá bræður Alexander og Rúfus.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.