Markúsarguðspjall 14. kafli

Konan sem þvær Jesús með dýrum smyrslum kallar á sterk viðbrögð. Viðbrögð sem ég geri mig oft sekan um og eru næstum jafn klassísk í umræðum um alla hluti og setningin „já, en hvað með blessuð börnin.“

Þegar konan brýtur buðkinn með smyrslunum og byrjar að smyrja Jesú, þá glymur ein af þessum setningum í lærisveinahópnum (en hefði svo sem getað verið hver sem er af hinum).

  • Af hverju að styðja listamenn þegar við getum notað meiri peninga í heilbrigðisþjónustu?
  • Við verðum að hjálpa okkar eigin landsmönnum áður en við gefum í hjálparstarf.
  • Hvers vegna höldum við úti sinfóníuhljómsveit þegar ekki eru nógir peningar fyrir ellilífeyrisþega?
  • Hvernig getum við haldið úti sendiráðum þegar fólk er að missa húsin sín?
  • Af hverju er hún að nota dýr smyrsl til að lofa Guð, þegar hægt væri að gefa þau fátækum?

Þetta snýst nefnilega ekki um annað hvort eða, heimurinn er ekki svarthvítur. Það er alveg hægt að gefa til fátækra, þó konan kjósi að nota dýru smyrslin sín í eitthvað annað. Það er alveg hægt að halda úti líknarsjóði þrátt fyrir að einhver kjósi að kaupa lýsingu fyrir altarisgluggana.

Júdas Ískaríot kaupir ekki rökin, hann lifir í heiminum allt eða ekkert. Jesús leyfði konunni að sýna þakklæti sitt á ópraktískan hátt. Júdas ákveður því að yfirgefa partíið og fyrst það er hægt að hagnast á brotthvarfinu, því ekki það.

Lærisveinarnir safnast síðan saman til páskamáltíðar, þar sem Jesús virðist vita af fyrirætlun Júdasar og tilkynnir hópnum öllum að svikari sé meðal þeirra.

Jesús rammar síðan máltíðina af með því að gefa þeim brauð í upphafi og í lok máltíðarinnar drekka þeir af sameiginlegum kaleik. Brauðið og vínið sem tákn líkama og blóðs Jesú Krists, endurspeglar áherslu Jesú á að hópurinn sé eitt, jafnvel sá sem svíkur er hluti af líkama og blóði Krists.

Spennan er mikil í hópnum, Pétur fullyrðir að hann muni aldrei gefa Jesú upp á bátinn, Jesús er í mikilli innri glímu og skyndilega kemur að hópur presta, fræðimanna og öldunga með sverð og barefli. Lærisveinarnir virðast tilbúnir í slagsmál, en Jesús grípur inn í og stöðvar átök sem virðast í uppsiglingu. Í kjölfarið láta lærisveinarnir sig hverfa, en Jesús er færður fram fyrir æðsta prest gyðinga og fjölmarga aðra mikilsmetna menn. Það virðist ganga illa að fá trúverðugan vitnisburð um brot Jesú og þegar ásakanir eru bornar upp á Jesú svarar hann engu.

Pétur hafði laumast á eftir hersingunni, en neitar því ítrekað að þekkja til Jesús hins handtekna. Þegar Pétri verða ljós svik sín,

þá fór hann að gráta.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.