Undanfarnar vikur og mánuði hef ég skoðað ítarlega margvíslega þætti Facebook-notkunar sér í lagi hjá börnum og unglingum. Einn vinkillinn sem ég hef velt fyrir mér er samskipti og samspil leiðtoga í félagsstarfi og þátttakenda í starfinu. Þetta er sér í lagi áhugavert hvað mig varðar persónulega þegar um er að ræða aðstoðarleiðtoga eða ungleiðtoga á aldrinum 15-18 ára, sem hafa margvíslegar skyldur og einhverja ábyrgð en eru um leið börn skv. lögum.
Eftir að hafa velt þessu og öðrum þáttum varðandi Facebook notkun mína í ljósi þeirra reglna sem dóttir mín býr við, þá hef ég ákveðið að aðlaga vinalistann minn á Facebook að reglum dóttur minnar og setja mér auk þess sem meginreglu að vera ekki vinur fólks undir 18 ára aldri sem ég þekki fyrst og fremst úr starfi mínu á æskulýðsvettvangi. Einnig mun ég ekki leitast við að vera vinur fólks sem er fyrst og fremst í tengslum við mig vegna starfa minna sem yfirmaður/ráðgjafi/þjónustuaðili þess.
Það er ekki hugmynd mín að móðga einn né neinn með þessum ráðagerðum, heldur er ég með þessu einfaldlega að samræma orð og verk.