Er kirkja skrifuð með stórum staf? (smáþankar)

Árið 1997 fylgdist ég með biskupskosningum úr fjarska. Ég vissi fljótlega að Karl væri minn maður, hann var vel máli farinn, föðurlegur og hlýr. Ást Karls á kirkjunni og hefð kirkjunnar skein þegar hann talaði. Karl var fulltrúi huggarans og hefðarinnar, elskunnar og hlýleikans. Þegar Karl tók við embættinu var eitt af hans fyrstu verkum að senda bréf á vígða þjóna kirkjunnar og e.t.v. einhverja fleiri þar sem hann lofaði því að biðja fyrir okkur og bað okkur um að biðja fyrir honum. Ég man hvað mér þótti vænt um þetta bréf. Mér fannst að þjóðkirkjunni væri borgið í bili.

Síðan hafa liðið 15 ár og staða kirkjunnar hefur orðið óskýrari á hverju ári síðan. Vandamálið sem við vonuðumst að hefðu horfið með forvera Karls, hurfu aldrei, hverfa aldrei og eiga reyndar aldrei að hverfa. Líklega átti Karl aldrei séns, jafnfrábær og hann var, jafnmikilvæga hluti og hann gerði. Því vissulega gerði hann margt frábært og flott í starfi sem biskup, þó annað væri kannski síðra. Líklega átti hann samt aldrei möguleika á öðru en að lenda í skugga forvera síns, sitja uppi með sekt embættisins og kirkjunnar allrar.

Nú stöndum við frammi fyrir biskupsvali að nýju. Eftir standa tveir frambjóðendur, báðir frambærilegir og sjálfsagt gott fólk. En ólík eru þau í baráttunni. Annars vegar höfum við Sigurð Árna, menntamann með áberandi stuðningsmannahóp, sem notar flott orð og á stundum tilgerðarleg. Hann talar um “Guðskomuna” í staðinn fyrir að segja Jesús. Hann notar orð eins og dreifræði og stakstæðir. Menntun hans og þekking verður á stundum orðskrúðinu að bráð.

Síðan höfum við dreifbýlisprestinn sem hefur sinnt sjávarplássi í fjöldamörg ár. Lítt áberandi frambjóðandann, Sr. Agnesi, sem vegna trúmennsku sinnar hefur verið falið að vera prófastur á sínu svæði og hefur sinnt um sitt fólk á jafnt gleði- og sorgarstundum. Hún notar ekki flókinn orð í framsetningu sinni. Hún segir hlutina skýrt, ef marka má svör hennar við spurningum sem má finna á vef- og bloggsíðum kirkjunnar og kirkjunnar þjóna. En hún skrifar Kirkja með stórum staf.

Ég velti fyrir mér hvort að í því felist fyrst og fremst munur frambjóðendanna. Annar frambjóðandinn skrifar orðið kirkja með stórum staf og meinar þjóðkirkjan meðan hinn notast við lítinn staf.

Á höfuðborgarsvæðinu er þjóðkirkjan aðeins ein stofnunin, einn þjónustuaðilinn meðal margra, kirkja meðal kirkna, eitt trúfélag af mörgum á markaðssvæði trúarskoðanna. Meðan í dreifbýlinu sumstaðar er kirkjan Kirkjan, miðstöð, miðpunktur, húsið sem við heimsækjum í upphafi og lokin og reglulega þar á milli.

Er spurningin í biskupskosningunum framundan e.t.v. ekki spurning um karl eða konu, menntun eða reynslu, hlédrægni eða sýnileika, heldur fyrst og fremst um hvort í skrifum um þjóðkirkjuna við notumst við lítinn eða stóran staf í orðinu kirkja?