Spámenn Gamla testamentisins mynda stóran hluta Biblíunnar sem heildar. Þegar við nálgumst spámennina þá er mikilvægt að hafa í huga að þeir standa fyrir mismunandi hópa, svæði og hugmyndir. Í einhverjum tilfellum má jafnvel hugsa sér að skrif einstakra spámanna eða hópa spámanna séu með beinum hætti að bregðast við og gagnrýna hugmyndir annarra spámanna. Þannig sjá sumir skrif þriðja Jesaja í 56.6-8 sem beina gagnrýni á einangrunarhyggju Esekíels.
Þessi spenna er stundum tengd við musterið í Jerúsalem annars vegar og áherslunar á lögmálið hins vegar. Spennan milli musterisins og orðsins er sjáanleg í gegnum því sem næst öll skrif Gamla testamentisins, en þó sér í lagi í skrifum spámannanna. Þetta er spennan milli bókarinnar og konungshefðarinnar, milli Jerúsalem og landsbyggðarinnar, milli Suðurríkisins og Norðurríkisins. Þetta er í einhverjum skilningi hin sístæða spenna trúarbragðanna milli helgihalds og hegðunar, afstaðan til nálægðar Guðs. Auðvitað samt málið flóknara og víglínurnar ekki alltaf skýrar. Þannig má benda á að bæði þriðji Jesaja og Esekíel eru musterismenn, en takast samt á.
Þessa mismunandi sýn á Guð, á helgihald, á musterið, á félagslegt réttlæti og afstöðuna til hinna, virðist allt að því mótsagnakennd og stundum erfitt að samþætta þá guðsmynd sem birtist í mismunandi textum. Mín nálgun er að þetta sé staðfesting þess að Guð er meiri en svo að við getum skilgreint til fulls, aðrir gætu reynt að samrýma ósamræmanlegar myndir og enn aðrir gætu afskrifað þetta allt.
One thought on “Spámenn Gamla testamentisins”
Comments are closed.