Niðurstaða netþjónustufyrirspurnar

Ég hef ákveðið að fylgja eftir fyrirspurn minni um netþjónustukostnað og birta hérna samantekt við svörunum sem ég fékk. Það verður að segja fyrirtækjunum til hróss að ég hef fengið svör frá öllum, en hins vegar er ekki alveg jafnskýrt hvort ég fékk svar við öllum spurningum mínum.

Heildarmánaðargjald ef ég læt millifæra af kreditkorti (verð á tengingu, færslugjöld, línugjöld, gagnaveitueitthvað, leigugjöld á búnaði o.s.frv.)

  • Hringdu lét mig vita að verðið hjá sér væri 4.495 krónur og allir þyrftu að greiða 2.410 krónur til Gagnaveitu Reykjavíkur. Síðan reyndi sölumaðurinn að selja mér heimasíma, þrátt fyrir að ég hefði tekið fram að ég hefði ekki áhuga á slíku. Ég get vissulega lagt saman tvær tölur en ég óskaði eftir heildarmánaðargjaldi.
  • Vodafone lét mig vita að heildarkostnaður væri 7.700 krónur. Algjörlega til fyrirmyndar, ef ekki kæmi fram að um Gull verð væri að ræða. Annars staðar í bréfinu kemur fram að til að Gull sé í gildi þurfi að kaupa þrennskonar mismunandi þjónustu af Vodafone.
  • Síminn lét mig vita að heildarmánaðargjald væri 8.130 krónur, og gætu ekki verið skýrari. Reyndar er línugjaldið hærra skv. póstinum en gefið er upp á heimasíðunni.
  • Tal eru líka skýrir, heildarverð þeirra er 8.249 krónur.
Heildarupphafskostnaður (uppsetning, tryggingagjöld, opnunargjöld, blablablabla, o.s.frv.)
  • Hringdu segir upphafskostnað 4.990 krónur sem felast í kaupum á router. Enginn annar kostnaður er nefndur.
  • Vodafone talar um að upphafskostnaður sé enginn gegn 6 mánaða samningi. Neðar í bréfinu er síðan talað um að frí uppsetning sé í boði fyrir þá sem eru skráðir í Vodafone Gull. Hvort er það?
  • Síminn nefnir nýtengingargjald upp á 2.924 krónur.
  • Tal er með 660 króna opnunargjald.
Er samningurinn til ákveðins tíma?
  • Hringdu hefur engan binditíma (ég velti fyrir mér hvort að þeir séu líka að tala um Gagnaveitu Reykjavíkursamninginn).
  • Síminn nefnir engan binditíma
  • Vodafone tekur fram að upphafskostnaður sé engin ef um er að ræða 6 mánaða binditíma.
  • Tal nefnir 15.000 króna binditíma en segir ekkert til um lengd samnings.
Lokunar-/riftunargjöld
  • Hringdu segir samninginn óbundinn.
  • Síminn nefnir ekkert.
  • Vodafone talar um skuldbindingu um 6 mánaða greiðslu til Gagnaveitunnar og 3 mánaða þjónustu til Vodafone.
  • Tal nefnir 15.000 krónu riftunargjald.
Hvað tekur langan tíma að fá þjónustuna hjá ykkur?
  • Hringdu segir að það taki ekki langan tíma, en þó geti verið smá bið.
  • Síminn talar um 3-5 virka daga.
  • Vodafone talar um allt að 25-27 virka daga.
  • Tal nefnir ekkert um tíma.