Fyrirspurn um verð fyrir netþjónustu

Í framhaldi af færslunni mínum áðan ákvað ég að senda bréf á Vodafone, Símann, Tal og Hringdu.is og biðja um þær upplýsingar sem mig vantar til að geta tekið ákvörðun um hvort ég kaupi mér netþjónustu. Bréfið er hér fyrir neðan.

Til þeirra er það varðar.

Ég er að leita eftir upplýsingum um hvað það kostar að fá ljósnet/ljósleiðaratengingu í íbúðina mína. Ég heiti Halldór Elías Guðmundsson kt. xxxxxx-xxxx og ég bý að xxxx xx, kj. Til að auðvelda svörin þá er rétt að komi fram að ég er ekki með heimasíma og ekki með sjónvarp og er ekki að fara að kaupa slíka þjónustu. Þið getið því sparað ykkur að bjóða mér það.

Ég þarf að fá internet tengingu í íbúðina með a.m.k. allt að 50 Mb/s hraða, ég þarf a.m.k. 80GB á mánuði í erlent niðurhal og ég á ekki router. Hafandi sagt þetta þá þarf ég að vita neðangreint.

  1. Heildarmánaðargjald ef ég læt millifæra af kreditkorti (verð á tengingu, færslugjöld, línugjöld, gagnaveitueitthvað, leigugjöld á búnaði o.s.frv.)
  2. Heildarupphafskostnaður (uppsetning, tryggingagjöld, opnunargjöld, blablablabla, o.s.frv.)
  3. Er samningurinn til ákveðins tíma?
  4. Lokunar-/riftunargjöld
  5. Hvað tekur langan tíma að fá þjónustuna hjá ykkur?

Ég reyndi að finna þetta út á vefsvæðum ykkar og hef auk þess hringt í sum fyrirtækin sem ég sendi þetta á, en mér hefur ekki tekist að fá svör sem ég skil. Ég vona að þið getið svarað mér þessum spurningum skilmerkilega með skriflegum hætti svo ég geti í raun borið saman verð á þeirri þjónustu sem þið bjóðið.

Kveðja,

Halldór Elías Guðmundsson