Flutt á fundi AD KFUM fimmtudaginn 20. október. Fundarefni á fundinum var frásögn af “Hamförunum á Haiti.”
Mig langar að vera tillitssamur, réttsýnn, bjartsýnn, almennilegur, hreinskiptinn, einlægur og ekta. Ég heyrði í vikunni prófessor kvarta undan fjórða boðorðinu á málþingi í Háskólanum, hlustaði á kollega minn í kirkjunni kvarta undan hvað það sé flókið að boða náð Guðs og hlustaði á meðvitaðar vinkonur fordæma syndaskilning kristninnar fyrir að brjóta niður sjálfsmynd ungra stúlkna.
Fyrstu viðbrögð mín eru að reyna að finna út hvernig við getum aðlagað þetta allt saman einhvern veginn. Hvernig við getum náð saman um mismunandi skoðanir.
Það er nefnilega svo erfitt þegar það eru ekki allir sáttir, það væri svo gaman ef að allt gengi eins og við viljum. Að mörgu leiti er samfélagið á Íslandi ótrúlega einfalt. Söngkonan Björk syngur um að þörf sína sem norðurlandabúi til að skipuleggja frelsið (to organize freedom) og kannski má segja að það hafi að mörgu gerst á Íslandi. Við lifum við skipulagt frelsi. Við erum á sama báti og stundum finnst okkur öðru mikilvægara að finna sátt í öllum hlutum.
Við á æskulýðssviði KFUM og KFUK höfum síðustu tvo daga setið námskeið um hvernig hægt er að bregðast við hættunni á kynferðisglæpamönnum í starfinu okkar og í starfi kirkjunnar, og lært að þrátt fyrir að vandamálið sé alþjóðlegt og glæpirnir um margt líkir jafnvel því sem næst eins, þá er hvert mál einstakt og erfitt. Ekki bara fyrir þolandann, heldur ekki síður fjölskyldur allra sem að málinu koma, þá hópa sem þolandi og gerandi tilheyrðu og í raun samfélagið allt. Glæpurinn er ekki aðeins glæpur eins einstaklings gagnvart öðrum, heldur um leið hamfarir, þjóðfélagsáfall, jarðskjálfti, eldgos eða flóðbylgja yfir nærumhverfi allra sem að málinu koma.
Þegar hamfarir ganga yfir þá eru engar einfaldar lausnir, það er enginn sátt, það er enginn leið til að fjarlægja sorgina, sárindin, sektarkenndina, það er ekki hægt að laga allt. Heimurinn er einfaldlega “messed up”.
Gamla Testamentið er uppfullt af “messed up” aðstæðum. Spámaðurinn Jeremía öskrar og hótar Guði, Sara krefst þess að Abraham reki son sinn og barnsmóður til að deyja út í eyðimörkinni, og Abraham gerir það. Þó Hagaí og Ísmael lifi af raunina þá er það ættföður og -móður Ísraelsþjóðarinnar ekki að þakka. Davíð lætur drepa eiginmann Batshebu, Hósea glímir við ótrúa eiginkonu sína. Jósef fyrirgefur bræðrum sínum misgjörðir sínar, veitir þeim möguleika á nýju lífi en þrátt fyrir það svíkja þeir loforð sitt gagnvart honum um að jarða hann í landi forfeðranna, Ísrael.
Í þessum aðstæðum biðja Ísraelsmenn að börn óvina sinna verði þrifin og slegin niður við stein. Þeir hrópa á Guð um að nágrannar fái sjöfalt til baka misgjörðir gagnvart sér.
Það er því gömul og ný saga að veröldin sé margbrotin, sár og flókin. Í dag ganga milljónir barna til hvílu án þess að hafa náð að seðja hungur sitt, jafnvel í Bandaríkjunum, ríkasta landi heims munu einhverjir deyja í dag vegna fátæktar.
Það er í þessum aðstæðum sem að orð Guðs um að heiðra föður og móður eru óendanlega mikilvæg, sama hvað menntuðu fólki í fílabeinsturni skipulagða frelsisins á Norðurlöndum kann að finnast. Án öryggis fjölskyldunnar, foreldranna og virðingu fyrir þeirri festu sem nærfjölskyldan býður, þá eru líkurnar á framtíð verulega skertar. Það er ekki að ástæðulausu að fjórða boðorðið er stundum kallað eina boðorðið með fyrirheiti. “Svo þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.”
Framtíð barns án foreldra er ekki vænleg í stærstum hluta heimsins sem við búum í. Vissulega bregðast foreldrar á stundum. Við höfum heyrt af því ljótar sögur á síðustu vikum, en það er skammsýni og tilraun til auðveldra lausna að halda að við getum hlaupið á harðaspretti frá fjölskyldunni og foreldraréttinum. Enda skal enginn voga sér að halda því fram að “skrýmsli” sem leita á börn, þurfi á boðorðum Guðs að halda til að réttlæta hegðun sína eða eins og e.t.v. einhverjir halda, til að halda illskuverkum sínum leyndum.
Marie Fortune sem kenndi á námskeiðinu sem við á æskulýðssviði sátum, minnti okkur á að hamfarir sem á okkur dynja séu í raun tvenns konar. Annars vegar þær sem virðast á valdi manna, eða jafnvel framleiddar af mönnum, s.s. efnahagshrun, hryðjuverk og kynferðisglæpir, hins vegar þær sem standa utan við það sem við getum stjórnað, fyrir mig er nærtækast að tala þar um jarðskjálftann á Haiti.
Meðan jarðskjálftar og eldgos kalla fram það besta í öllum sem að koma, þá er á stundum eins og manngerðar hamfarir leiði til þess að allt það versta brjótist fram. Hatur, reiði, hefnd.
Þá er ég ekki að tala um þolendurna og fjölskyldur þeirra, enda ekkert eðlilegra en að þau finni til þessara tilfinninga. En hatrið og reiðin eru ekki bundin þar í kjölfar manngerðra hamfara. Hamfarir af mannavöldum virðast gefa öllum leyfi til að reiðast, til að meiða, til að hrópa, til að særa.
Syndin fylgir okkur nefnilega, hún brýst inn til okkar og dregur okkur með í hrunadans reiði og illsku, syndin leitar færis til að brjótast út, ekki aðeins í gjörðum illgjörðamannanna, heldur í viðbrögðum þess sem stendur hjá. Annars vegar í skeytingarleysi um þolandann og hins vegar og ekki síður í hatrinu gagnvart gerandanum, og þar er ég svo sannarlega sekur líkt og aðrir.
Vissulega er syndaskilningur kristninnar ekki jákvætt og uppbyggjandi sjálfstyrkingarprógram. Það er í sjálfu sér enginn vitleysa hjá meðvituðu vinkonum mínum að í meðvitund okkar um syndina felist að við finnum til sektarkenndar gagnvart Guði. Enda er það einfaldlega svo að við erum sek.
Eins og Páll segir svo skýrt í Rómverjabréfinu: “Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.”
Sem minnir okkur á það að syndaskilningur kristninnar stendur ekki einn og sér. Í fagnaðarerindinu felst nefnilega ekki aðeins viðurkenning á breiskleika okkur, heldur fullvissa um Guðs dýrð og náð okkur til handa.
Það er þessi boðskapur um náð, um gjöf Guðs. Trúin á að Guð sé með okkur, ekki vegna þess að við séum góð og skemmtileg til að hanga með, heldur vegna þess að Guð er góður, sama hvað gerist, sama hvað við gerum.
Það er sá boðskapur sem við köllum fagnaðarerindið. Náðarboðskapur Krists er mikilvægur, ekki sem sjálfstyrkingarprógram, heldur sem áminning um að Guð er allra, líka þeirra sem eiga það ekki skilið. Áminning um að jafnvel skepnan, illmennið, ómennið, djöfullinn sjálfur er undir Guð settur, og við, ekki gleyma því, og við erum líka Guðs.
Þrátt fyrir að mig langi til að vera tillitssamur, réttsýnn, bjartsýnn, almennilegur, hreinskiptinn, einlægur og ekta. Þá er stundum erfitt að horfa á flóttann frá náðinni án þess að tjá sig, kannski vegna þess að ég hef fengið að sjá náð Guðs, ég hef sjálfur reiðst vegna þess að Guð er mér of góður, ég hef séð Guð grípa inn í líf mitt og leiða það til góðs. Ég hef upplifað að vera ekki við stjórnvölinn í mínu lífi, heldur þurfa að treysta á Guð.
Þegar ég reiðist náðinni, get ég á mótsagnakenndan glaðst yfir að ég má lifa í fullvissu þess að Guð hlustar, er með í þessu “messed up” lífi og ég get lifað í trausti til þess að “hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.”