Að lifa í ljósinu

Hugleiðing á samkomu í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg, sunnudaginn 23. október kl. 20:00.

Mig langar að byrja á að lesa texta úr 1. Jóhannesarguðspjalli 2. kafla.

Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína. Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Það liðu ekki nema 15 ár. Þau höfðu orðið vitni að upprisu Jesú Krists, sáu heiminn í nýju ljósi. Höfðu höndlað sannleikann um náð og miskunn Guðs öllum til handa. En það liðu ekki nema 15 ár þangað til að lærisveinarnir söfnuðust á ný saman í Jerúsalem, það höfðu brotist út deilur. Spurningin var: Hvað er nauðsynlegt að gera til að hafa aðgang að náð Guðs?

Þörfin fyrir aðgreiningu frá öðrum, þörfin fyrir að vera eitthvað sérstakt, þörfin fyrir að skipa sér í hópa, þörfin fyrir að vera “inni” og skilgreina hverjir væru þá “úti” hafði tekið yfir samfélag fylgismanna Krists.

Þeir töldu sig verðuga, lærisveinarnir sem höfðu haldið fast í siði Guðs útvöldu þjóðar, matarvenjur, umskurn drengja og rétt atferli við helgihaldið var í huga þeirra mælikvarði á hvort Guð væri með. Hugsunin var að þeir sem eru eins og ég njóti blessunar Guðs. Hinir standi fyrir utan, eigi ekki séns.

Rökin fyrir þessari afstöðu voru örugglega góð. Hræðslan við óvissuna, hvað ef einhver óæskilegur lætur að sér kveða í okkar hópi, hvað ef það eru engar reglur, hvað með börnin, já, hvað með elsku börnin.

Í kirkjusögunni er litið svo á að niðurstaða fundarins felist í orðum Péturs postula er hann sagði:

Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni er hann gaf þeim heilagan anda eins og okkur. Engan mun gerði hann á okkur og þeim er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. Hví freistið þið nú Guðs með því að leggja þær byrðar á lærisveinana er hvorki feður vorir né við megnuðum að bera? Við trúum þó því að við verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.

En veruleikinn var í raun annar, alla tíð höfum við leitast við að skilgreina þá sem trúa rétt, þá sem við teljum að verðskuldi náðina.

Það er því næstum 50 árum síðar sem að orðin sem ég las í upphafi eru rituð í fyrsta bréfi Jóhannesar. “Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er ennþá í myrkrinu.”
Helgisagnir segja að Jóhannes meintur höfundur bréfsins hafi verið lærisveinninn sem Jesús elskaði, ungur drengur, kannski 12-13 ára, þegar Jesús kallaði saman 12 manna hópinn til að fylgja sér.

Við vitum í raun fátt um Jóhannes með vissu, en ef við leggjum saman rannsóknir fræðimanna og helgisagnir sem fóru að myndast í kjölfar ríkisvæðingar kristindómsins á 4. öld þá getum við teiknað upp mynd af ungum dreng, sem fylgir stórabróður í ævintýraferð með stórkostlegum prédikara. Ungan dreng sem upplifir að hann sé uppáhaldslærisveinn prédikarans.

Ungan dreng sem tekur þátt í vangaveltum lærisveinana um hver þeirra sé bestur og mestur, glímir við Pétur félaga sinn um hvor sé mikilvægari leiðtogi. Verður vitni að því að prédikarinn er handtekinn, pyntaður og myrtur.

Við getum auðveldlega séð fyrir okkur 12-14 ára barn, sem upplifir að heimurinn hrynji fyrir augum sér. Eftir að hafa fylgt Kristi eftir í heilt ár, hlustað og séð kraftinn, þá hrundi allt.

Ég held það sé erfiðara að sjá fyrir sér, þar sem hann stendur og talar við Pétur, hræddur um að hann yrði kannski næstur, hangandi á krossi öðrum til viðvörunar þegar skyndilega María Magdalena kemur hlaupandi og segir að líki prédikarans hafi verið rænt. Þegar hann rifjar upp atburðina mörgum árum síðar, segir hann hvernig hann hafi hlaupið hraðar en Pétur að gröfinni, en ekki þorað inn. Ekki þorað að horfast í augu við enn eina óvissuna þessa vikuna.

Hann gekk samt á eftir Pétri inn og í minningum sínum, segist hann hafa skilið að nú var allt breytt. “Hann sá og trúði” eins og segir í 20. kafla Jóhannesarguðspjalls.

Reynsla Jóhannesar breytti öllu og 70 eða kannski 80 árum síðar er hann enn að glíma við það sem hann sá og merkingu þess. Hann heyrði sjálfsagt af því að þrátt fyrir að allt væri breytt, hafði Pétur endað á krossi líkt og Jesús. Jóhannes hefur þurft að glíma við eigin væntingar um skjóta endurkomu Jesús.

Hann hafði upplifað að orð Jesú höfðu verið túlkuð í allar áttir, til að réttlæta hvers kyns dóm og flokkadrætti.

Það er þessi Jóhannes sem er sagður hafa skrifað hugsanir sínar um að

Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.

Þegar við lesum orðin þá er mikilvægt að muna að bréf Nýja Testamentisins ávarpa alltaf þá sem kalla sig kristna. Bréfin eru ekki skrifuð fyrst og fremst til boðunar heldur fræðslu og styrkingar þeirra sem hafa “séð og trúað”.

Í orðum Jóhannesar felst þannig ekki dómur til handa þeim sem þekkja ekki Krist, heldur brýning til okkar um að horfast í augu við okkar eigin breyskleika. Til að horfast í augu við þörfina fyrir flokkadrætti, horfast í augu við þörfina fyrir að vita betur, kunna meira, skilja dýpra.

Það er samt einnig mikilvægt að skilja orð Jóhannesar í ljósi þess að þrátt fyrir að við lifum í myrkrinu, verðum syndinni að bráð, “þá eigum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.”

Jóhannes kallar okkur til að endurspegla líf okkar í ljósi Krists, ganga í okkur sjálf, lýsa upp allt sem við viljum svo gjarnan fela í skúmaskotum, fela í innstu hugarfylgsnum. Það er nefnilega grundvallaratriði að horfast í augu við okkur sálf, spyrja spurninga um hver við erum, hvað við gerum, áður en við hjólum í náungann.

Aðeins ef við göngumst við því sem við erum. Ef við erum reiðubúin að lifa án feluleiks og óttans við að upp um okkur komist, þá erum við ljósins megin.

Við sem köllum okkur kristinn, megum líka hafa í huga hvernig að í orðum Jóhannesar felst viðvörun um að tala minna og gera meira, líklega sérstaklega beint til mín. 🙂

Um leið og við tölum um að við “þekkjum Krist” eða fullyrðum að við séum í ljósinu. Þá er hættan fyrir hendi. Um leið og við gerum kröfu um að vita betur, meira, skilja skýrar, þá verður hræsni okkar augljós.

Fyrst og fremst ber okkur að elska náunga okkar, elska þá sem við mætum. Fyrirgefning Guðs er til staðar, “Guð hefur fyrirgefið syndir okkar vegna Jesús Krists”.

Þegar við tölum um Guð er nefnilega grundvallandi að muna að skapari okkar, frelsari og lausnari er stærri en þú, stærri en við, stærri en allt annað sem er.

Þegar við mætum náunga okkar, er mikilvægt að muna að Guð er þar, sama hver náunginn er, sama hvað hann eða hún hefur gert eða sagt, eða mun hugsanlega gera eða segja.

Jóhannes heldur því hvergi fram að hann gangi stöðugt í ljósinu, hann veit sem er að við erum öll breysk. Hann sem var uppáhaldslærisveinninn, alla vega að eigin mati. Hann sem hleypur hraðar en Pétur. Hann sem kom einna fyrstur að gröfinni tómu. Hann sem sat við hlið Jesú Krists við fyrstu kvöldmáltíðina. Hann veit sem er að náð Guðs, kærleikur Guðs er það eina sem veitir frelsi. Hann veit að við þurfum að leyfa ljósi Guðs að lýsa inn í dimmustu skúmaskot ef við viljum verða frjáls. En hann veit auðvitað líka sem er, að það er drulluerfitt, líklega ómögulegt.

En þá megum við lifa í trausti til þess að Jesús sé friðþæging fyrir allt sem við höndlum ekki að taka á í eigin lífi. Og ekki aðeins okkar lífi, heldur alls heimsins.

Biðjum:
Skapari alls sem er, þakka þér að þú ert sá sem þú ert, eins og þú sagðir Móses.
Drottinn Jesús Kristur, þakka þér fyrir að vera málsvari okkar, fyrir að gefa sjálfan þig okkur til handa.
Heilagur Andi, lýstu upp líf okkar, gefðu okkur frelsi frá því sem hvílir í okkar innstu hugarfylgsnum. Lýstu upp það sem skaðar, meiðir og skemmir í lífi okkar. Hjálpaðu okkur að sjá.
Amen.