Mótsstaður Guðs og manneskja

Hugvekja/prédikun flutt í Langholtskirkju á kirkjudegi safnaðarins, 14. sunnudegi eftir Trinitatis, 25. september 2011. Notast var við A-textaröð (Slm 146, Gal 5.16-24 og Lk 17.11-19).

Ég var á Heilsudögum karla í Vatnaskógi, sumarbúðum KFUM og KFUK fyrir réttri viku. Heilsudagar marka lok sumarstarfsins í Vatnaskógi en þá mæta yfirleitt um 50 karlar á aldrinum 17-99 ára í skóginn, taka til hendinni í hvers kyns verkefnum og njóta samveru hver með öðrum.

Þar sem við vorum á kvöldvökunni á laugardeginum fyrir viku, mættu til leiks sex ungar konur og leyfðu okkur að njóta frábærar söngdagskrár. Deildu með okkur, körlum á öllum aldri, hæfileikum sínum og metnaði. Þær kölluðu sig Langholtsdætur.

Þær komu héðan úr Langholtskirkju, til að gefa af sér og gleðja. Til að gera lífið okkar sem höfðum safnast saman í Vatnaskógi aðeins örlítið ánægjulegra og betra. Þegar við tölum um framtíð kirkjunnar þá er mikilvægt að muna að kirkjan má aldrei verða sjálfhverf. Köllun hennar er að gefa af sér og gleðja. Það kunnið þið svo vel hér í þessum söfnuði.

Áður en lengra er haldið langar mig að tala aðeins um uppáhaldsumræðuefnið mitt, sjálfan mig. Eins og Jón Helgi sagði áðan þá er ég vígður djákni til íslensku þjóðkirkjunnar og starfa nú sem æskulýðsfulltrúi KFUM og KFUK á Íslandi, eftir að hafa dvalið síðastliðin fimm ár við nám á sviði æskulýðsmála, kirkjustarfs og leiðtogafræða við einn af guðfræðiskólum lúthersku kirkjunnar í BNA. Ég var um tíma framkvæmdastjóri Æskulýðssambands kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum, hef unnið í Vatnaskógi með hléum í 20 ár og var framkvæmdastjóri Grensáskirkju um nokkurt skeið. Ég hef unnið að þróunarvinnu og hvers kyns verkefnum fyrir Biskupsstofu, skrifað fræðsluefni, annast leiðtogafræðslu og -þjálfun fyrir kristilegt starf og eytt ómældum klukkustundum, dögum og vikum í samræður um kirkjuna og framtíð hennar, með öðrum orðum, ég er líklega ekki maðurinn sem þú kallar á ef bíllinn þinn bílar eða vaskurinn stíflast, ég er ekkert mikið fyrir verklega vinnu.

Mig langar að nota þessa stund í dag til að tala um kirkjuna og framtíðina. Ekki bara vegna þess að Jón Helgi bað mig um það, heldur vegna þess að ég trúi því að kirkjan skipti máli. Ég trúi því að framtíð kirkjunnar skipti máli fyrir okkur öll, fyrir öll í landinu okkar, fyrir allt mannkyn. Ég trúi því að kirkjan skipti máli vegna þess að kirkjan er í víðum skilningi mótsstaður Guðs og manneskja, vettvangur okkar til að mæta þeim Guði sem er.

Mótsstaður Guðs og manneskja er sístætt þema Heilagrar Ritningar. Guðspjallstexti dagsins fjallar um mót Jesús frá Nasaret og hinna tíu líkþráu. Textinn fjallar um mótsstað Guðs og manneskja, kirkjuna. Ég teygi mig reyndar örlítið langt í túlkun textans þegar ég segi að guðspjall dagsins lýsi guðsþjónustunni. Við komum inn í kirkjuna og köllum til Guðs að miskunna okkur líkt og líkþráu mennirnir tíu, við finnum og megum vita að Guð miskunnar, og í trausti til þess lofum við hann. Líkt og Samverjinn í sögunni þurfum við ekki staðfestingar við frá öðrum, náðarkraftur Guðs breytir okkur. Við finnum breytinguna. Í lok Guðsþjónustunnar erum við síðan send út úr kirkjuhúsinu til þjónustu við aðra. „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

Framtíð kirkjunnar er augljós, Guð mun áfram mæta fólki. Guð mun áfram elska sköpun sína, Guð mun áfram kalla fólk til góðra verka.

Spurningin um framtíð kirkjunnar er þannig líklega ekki rétt orðuð, réttara væri í okkar samhengi að spyrja annars vegar um framtíð lútherskrar þjóðkirkju á Íslandi og e.t.v. í samhengi afmælishátíðar Langholtskirkju, um framtíð kirkjunnar hér í Langholti.

Það eru margar erfiðar og flóknar flækjur í guðfræðinni og það væri gaman að fara í hér saumana á samspili kirkjunnar sem manngerðs veruleika og kirkjunnar sem mótsstaðar Guðs og manneskja. Ég gæti fjallað ítarlega um hvernig hægt er að nota sakramentisskilning Lúthers til að forðast að falla í gryfju platónískrar trúvillu þegar við tölum um þetta samspil. Eða reyndar, kannski væri það ekkert gaman og líklegast er það fullkomlega óþarft, nema þegar ég þarf að sannfæra hina guðfræðinganna sem ég hitti um hvað ég er ógeðslega klár og sniðugur.

Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því burtséð frá platónískum trúvillum og guðfræðiæfingum í tengslum við sakramentisskilning Lúthers að stofnun með aðsetur á Laugaveginum í Reykjavík getur ekki gert kröfu til að vera mótsstaður Guðs og manneskja á forsendum hefðarinnar og hið sama á við um okkur sem komum saman í Langholtskirkju í dag.

Framtíð kirkjunnar felst ekki í að við gerum kröfu um að vera kirkja, eða jafnvel þjóðkirkja í krafti hefðar eða af sögulegum ástæðum. Framtíð þjóðkirkjunnar felst ekki í því að hafa áframhaldandi aðgang til boðunar í grunnskólum, eða því að kennarar dreifi fyrir okkur auglýsingabæklingum. Framtíð þjóðkirkjunnar felst ekki í hver er eða verður biskup, ekki einu sinni í því hvort að sóknarprestar séu skemmtilegir. Framtíð þjóðkirkjunnar og þá líka kirkjunnar hér á holtinu byggir á því að hér, nú sem fyrr sé mótsstaður Guðs og manneskja, hér fái fólk að mæta Jesú Kristi lifandi og upprisnum. Að hér sé vettvangur fyrir fólk til að koma til móts við Guð, vitandi þó það að Guð er auðvitað ekki bundinn af að hitta okkur “bara” hér.

Ef þjóðkirkjan ákveður að vera sem fyrr mótsstaður Guðs og manneskja þá þurfum við að vita að þau stefnumót hafa afleiðingar fyrir þau sem þangað koma. Stefnumót við Guð sem skapar allt kallar okkur til aðgerða, kallar okkur til að gera sköpunarverkið að örlitlu skaplegri stað. Andi Guðs kallar okkur eins og pistillinn segir til að ástunda kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga. Okkur er ætlað þegar við göngum frá stefnumótinu við Guð að taka þátt í verki skaparans, að reka rétt kúgaðra, gefa hungruðum brauð. leysa bandingja, opnar augu blindra, reisa upp niðurbeygða, standa fyrir réttlæti, vernda útlendinga, annast ekkjur og munaðarlausa. Það er nefnilega ekki rétt að það sé hættulaust að kynnast Kristi. Eins og stundum hefur verið fullyrt í varnarræðu kirkjunnar gagnvart meintum andstæðingum. Að mæta Guði, og vera sendur út úr guðsþjónustunni til að gera vilja skaparans leiðir til breytinga, kallar okkur til nýsköpunar, og öll vitum við að breytingar eru erfiðar.

Þegar við tölum um framtíð kirkjunnar, þá þurfum við að spyrja okkur í einlægni hvort við þorum að vera vettvangur þar sem Guð og manneskjur mætast, hvort við þorum að taka áhættuna sem felst í því að mæta Guði og fara síðan út og gera vilja skaparans.

Þegar Guð sendir okkur burt af stefnumótinu, þá getum við lent eins og Hafdís María sem kemur úr söfnuðinum hér í myndbandi sem er sýnt í öllum sunnudagaskólum þjóðkirkjunnar. Skyndilega er hún Hafdís besta vinkona Klemma í hugum þúsunda 3-7 ára barna um land allt. Við getum fundið til köllunar um að taka fara út og taka stöðu með kúguðum náunga okkar út í Palestínu, eins og alltmögulegt manneskjan ykkar, hún Kristín Sveinsdóttir hefur gert. Þið getið endað á sviði í Manchester með einum þekktasta listamanni heims að gleðja tugþúsundir, sending Guðs getur leitt okkur inn í hótelgarð á hrundu hóteli eftir jarðskjálfta þar sem við reynum af vanmætti að losa konu sem hefur grafist undir grjóthrúgu þar sem áður stóð hótelhergið okkar eða Guð getur sent okkur í kvöldvökusalinn í Vatnaskógi að syngja “Krummi krunkar úti,” kallað okkur að leyfa öðrum að njóta fegurðar tónlistarinnar sem er uppruninn hér í Langholtskirkju, þessum stað sem svo sannarlega er mótsstaður Guðs og manneskja.