Nú hefur Mannréttindaráð Reykjavíkur skrifað í þriðja sinn tillögur sínar um aðgengi trú- og lífskoðunarfélaga að skólastarfi. Ég fjallaði um fyrstu tillögurnar hér og tillögu tvö hér. Líkt og áður eru tillögur ráðsins ekki mjög aðgengilegar þannig að mikið af umræðunni er byggt á fullyrðingum um innihaldið sem ekki eru alltaf sannleikanum samkvæmar en haldið á lofti til að skapa andstöðu og sundrung. Það verður að viðurkennast að mér líkar mjög illa við að sjá annars góða einstaklinga sem ég þekki vel nota slíkar aðferðir. Slík vinnubrögð eru ekki sæmandi fólki sem segist starfa í nafni Jesú Krists.
Þá að tillögunum. Mér tókst að nálgast textann eftir að hafa auglýst eftir honum á Facebook og hef ákveðið að birta hann hér með athugasemdum mínum. Rétt er að taka fram að ég er það sem í kristilega geiranum er kallað lifandi trúaður maður. Ég var vígður djákni til þjónustu þjóðkirkjunnar í lok síðustu aldar og í vígslubréfi mínu kemur fram efnislega að ég beri trúarlega ábyrgð öllum ungmennum á starfsvæði Reykjavíkurprófastsdæma. Hafandi sagt það, minni ég á fyrirvarann/disclaimer hér til hliðar.
—
Skólastarf í Reykjavík og trúar- og lífsskoðunarmál
Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt árið 2006. Hún kveður á um að íbúum verði ekki mismunað á forsendum kyns, efnahagsstöðu, uppruna, fötlunar, aldurs eða stjórnmálaskoðana. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að framförum á sviði mannréttinda hjá borginni og hefur verulegur árangur náðst í auknu kynjajafnrétti, í réttindum samkynhneigðra og málefnum innflytjenda. Mannréttindastefnan kveður einnig á um að borgarbúum skuli ekki mismunað eftir lífs- og trúarskoðunum.
Það er fátt að segja um upphafið. Þetta eru allt mikilvæg markmið og ég held að öll getum við tekið undir þetta.
Árið 2007 kom út skýrsla Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur um samstarf kirkju og skóla. Í hópi skýrsluhöfunda voru fulltrúar frá öllum hlutaðeigandi aðilum; skólastofnunum borgarinnar, Biskupsstofu og Alþjóðahúsi. Ein af megin niðurstöðum hópsins var sú að móta þyrfti skýrar starfsreglur um samskipti trúar- og lífsskoðunarhópa og skóla Reykjavíkurborgar.
Þetta er líka mjög mikilvægt. Það er óhæft að viðhorf einstakra skóla til mannréttindamála byggi á persónulegri tilfinningu skólastjórans. Þannig hefur kerfið því miður virkað. Þessu hef ég kynnst persónulega í störfum mínum á ýmsum tímum fyrir kirkjuna og kristilegar hreyfingar. Réttur barna til þátttöku í trúarlegu starfi eða réttur barna til að vera laus undan trúarlegum áróðri á ekki að vera mismunandi eftir því hvort barn býr í Breiðholti eða í Hlíðunum.
Mannréttindaráð Reykjavíkur leggur því til að eftirfarandi reglur gildi um samskipti leik- og grunnskóla og frístundaheimila borgarinnar við trúar- og lífsskoðunarfélög:
a) Hlutverk skóla borgarinnar er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.
Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Þetta er einfaldlega rétt.
b) Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, auglýsingar, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.
Þessi grein hér er að mínu viti helsti ásteytingarsteinn tillagna mannréttindaráðsins. Segja má að hér séu a.m.k. þrír þættir sem vert er að staldra við.
Það fyrsta er samspil frístundaheimila og trúarlegs barnastarfs. Tillögurnar koma ekki í veg fyrir að trúar- og lífskoðunarfélög séu með starfsemi á tíma frístundaheimilanna, svo lengi sem það fer ekki fram í rými leik- eða grunnskólans. Það fyrirkomulag að börn fari af frístundaheimilinu til að taka þátt í sértækum verkefnum hefur víða verið í gangi. Þannig fara börn á frístundaheimilinu í Álftamýrarskóla yfir í Framheimilið til að mæta á íþróttaæfingar eða yfir í Grensáskirkju til að mæta í 6-9 ára starfið þar. Þessar tillögur koma ekki í veg fyrir slíkt. Hins vegar er ljóst að þessar hugmyndir hafa áhrif á starf kirkjunnar þar sem leiðtogar kirkjunnar bjóða upp á frístundastarf í skólahúsnæði. Þrátt fyrir að vel hafi tekist til víða í að greina á milli starfs kirkjunnar og frístundaheimilisins þegar boðið er upp á trúarlegt starf í skólahúsnæði á tíma frístundaheimilisins, hefur það ekki alltaf tekist. Ég vildi að hægt væri að finna betri lausn á þessu máli. Í nokkrum víðfermum sóknum sér í lagi í austurhluta Reykjavíkur er erfiðleikum bundið að bjóða upp á starf þar sem börnunum færu úr frístundaheimilinu/skólanum í kirkjuna/félagsheimilið til að taka þátt í starfinu.
Hins vegar er á sama hátt ófært að kirkjustarf taki yfir starfsemi frístundaheimilisins vikulega eins og raunin hefur verið sums staðar. Það er mín tilfinning að hér hafi mannréttindaráð valið tiltölulega einfalda og skýra lausn á vandanum sem þau stóðu frammi fyrir. Ég held að betri lausn á þessu sé til staðar. Niðurstaða mannréttindaráðs leiðir hins vegar til þess að kirkjan þarf að finna nýjar leiðir til að bjóða upp á starf í stærstu söfnuðunum. Ég hef nokkrar hugmyndir um hvaða leiðir kirkjan getur farið, ef einhver hefur áhuga.
Næsta mál í þessari grein snýr að kynningu á starfinu. Ég tel að sömu reglur eigi að gilda um kynningu á öllu starfi fyrir börn og unglinga. Annað hvort leyfum við kynningar eða ekki. Hér er hins vegar um annað og meira mál að ræða (the issue is never the issue). Undirliggjandi spurningunni um kynningar til barna í grunnskólum liggur nefnilega spurningin um stöðu foreldraréttar. Ég held að kirkjan stæði sterkari fótum ef hún myndi taka þá ábyrgu afstöðu að allt formlegt kynningarefni um barna- og æskulýðsstarf yrði beint að foreldrum en ekki börnum. Kostnaðurinn er meiri. Árangurinn yrði hugsanlega minni, en það væri rétt leið.
Þriðja málið snýr að Gídeonfélaginu. Margir af helstu áhrifavöldum í lífi mínu eru virkir í Gideonfélaginu. Ég skil vel að þeim þyki að sér vegið. Á sama hátt hafa það verið forréttindi sem eru alls ekki sjálfsögð að hafa fengið tækifæri til að afhenda mörg hundruð þúsund NT til skólabarna síðustu 60-70 ár. Það er líklegast komin tími til að finna nýjar aðferðir, þróa nýjar leiðir til að koma orði Guðs á framfæri. Ég bendi hér að ofan á mikilvægi foreldraréttarins, kannski er hægt að byggja á því.
c) Skólastjórnendur grunnskóla geta boðið fulltrúum trúar- eða lífsskoðunarhópa að heimsækja kennslustundir í trúarbragðafræði/lífsleikni sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámsskrá og námsefni, og skal heimsóknin þá fara fram undir handleiðslu kennara og vera innan ramma námsefnisins.
Þetta er breyting frá fyrri tillögum og ekkert nema jákvætt um hana að segja.
d) Heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga á skólatíma grunnskóla skulu eiga sér stað undir handleiðslu kennara sem liður í fræðslu um trú og lífsskoðanir, samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá. Þar sem ekki er sérstaklega getið um vettvangsheimsóknir leikskólabarna á helgi- og samkomustaði trúar- og lífsskoðunarfélaga sem lið í fræðslu um trú og lífsskoðanir í aðalnámskrá leikskóla er eðlilegt að miða fjölda slíkra heimsókna við það sem fram kemur í aðalnámskrá grunnskóla til að gæta samræmis milli skólastiga.
Þetta er líka breyting frá fyrri tillögum og er jákvæð breyting. Ég reyndar skil ekki alveg seinni hlutann um eðlilegan fjölda heimsókna og skil ekki að þetta geti verið umdeilanlegt.
e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.
Ég hef áður gert athugasemd hér á vefnum um að meina nemendum um þátttöku í helgisiðum og athöfnum sem þau eru vitni að. Mér finnst ákvæðið hálf kómískt og sé fyrir mér kennara reyna að stöðva barn sem fer í hljóði með Faðir vorið, þegar nemendurnir fylgjast með kristnu helgihaldi eða stöðva múslima frá því að hugsa “Allah Akbar” í upphafi bænahalds í mosku, þegar hópurinn fer þangað í heimsókn.
Ég held að frá sjónarmiði kennslu og gagnkvæms skilnings á eðli og hlutverki trúar í samfélaginu, sé þvert á móti mikilvægt að þau börn sem tilheyra þeim trúarhópi sem heimsóttur er, geti tekið virkan þátt í helgihaldi og athöfnum sem eru þeirra eigin. Með því móti næst tenging við námsefnið sem gerir það meira “relevant” fyrir hópinn í heild.
Reyndar get ég líka tekið undir að það sé mikilvægt fyrir börn og unglinga að horfa á sínar eigin trúarhefðir að utan. En ég held að annað þurfi ekki að útiloka hitt.
f) Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar við starfsemi trúar- og lífsskoðunarfélaga eigi sér ekki stað á skólatíma.
Þetta virðist við fyrsta lestur vera breyting á fyrri stefnu um að allt starf á vettvangi frítímans eigi sér stað á tíma frístundaheimilanna, en það er alls ekki svo. Hér er einfaldlega verið að tala um skólatíma.
Ég tek því heilshugar undir þetta og hef sérstaklega barist fyrir því að fermingarfræðsla sé ekki samþætt við stundatöflu skólans. Slík samþætting, þ.e. fermingarfræðsla inn í skólastofu á skólatíma dregur einfaldlega úr stöðu fermingarinnar og lágmarkar ábyrgð barnsins á þátttöku í fermingarfræðslunni. Við sem segjumst kirkjunnar fólk ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma fermingarundirbúningnum úr þeim farvegi sem hann er í, og kalla þátttakendur til að taka sjálf ábyrgð á eigin fermingu. Þáttur í því er að greina á milli fermingarstarfsins og skólastarfs.
g) Skólayfirvöld beini því til trúar- og lífsskoðunarfélaga að þau skipuleggi fermingarfræðslu og barnastarf með það að leiðarljósi að það hvorki trufli lögbundið skólastarf um skemmri eða lengri tíma né leiði til mismununar nemenda utan tiltekinna trúar og lífsskoðunarfélaga.
Þetta er mun betra orðalag en í fyrri tillögum. Ég velti fyrir mér orðinu mismunun í þessu samhengi hér. Ég skil hvað átt er við, en um leið held ég að pólítísk rétthugsun á Íslandi sé ofþjökuð af hræðslunni við að skera sig úr. Um leið og ég segi það er ég meðvitaður um að ég tilheyri flestum forréttindahópum sem til eru og líklegast ekki hæfur til að tala um mismunun.
h) Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að samráð verði haft við foreldra/forráðamenn þeirra sem áfallið snertir áður en fagaðilar eru fengnir til stuðnings. Í nærsamfélagi leik-og grunnskóla getur verið um að ræða sérfræðinga, fulltrúa trúar- eða lífsskoðunarfélaga eða aðra fagaðila. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu fara fram utan skólatíma.
Miklu betra en áður og engin ástæða til að gera athugasemdir við þennan texta.
i) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og starfi frístundaheimila, leik- og grunnskóla. Jólasálmar og helgileikir tengdir jólum falla hér undir.
Þetta er tragíkómíska greinin. Það er reyndar eiginlega sorglegt að nálgun þeirra sem standa gegn störfum mannréttindaráðs hafi haldið á lofti það villandi málflutningi að þessi grein þurfi að koma fyrir í tillögunum.
Til grundvallar þessum reglum liggur sá vilji Mannréttindaráðs að tryggja rétt barna til þátttöku í skólastarfi óháð þeirri trúar- og lífsskoðun sem þau alast upp við. Upplýst fræðsla um kristna trú, trúarbrögð heimsins, lífsskoðanir, siðfræði, heimspeki og íslenska menningu, er mikilvæg í öllu starfi skóla borgarinnar. Trúarleg innræting og boðun tiltekinna lífsskoðana á þar ekki heima. Það er á hendi foreldra að ala börn sín upp í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa. Um það munu starfsmenn Reykjavíkur standa vörð samkvæmt mannréttindastefnu borgarinnar og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist.
Undir þetta getum við öll tekið, nema hvað að mér er illa við orðið innræting, mér finnst það gildishlaðið. Hér færi betur á að nota orðið uppeldi, enda er notast við orðið ala síðar í textanum.
—
Að lokum. Þessar tillögur eru komnar til að vera, ef ekki núna þá eftir 3 ár eða 5 ár eða 10 ár. Kirkjan getur aðlagað starfið sitt að breyttu umhverfi eða reynt að berjast á móti. Við getum notað tækifærið til að horfa á sjálf okkur, endurmeta og endurskoða starfshætti okkar eða við getum lifað í xenopobhiskri blekkingu um að vandinn komi utanfrá.