Sumarbúðirnar í Vatnaskógi

Þessi mynd er ein af uppáhaldsmyndunum mínum úr Vatnaskógi. Mynd af leiðtoga sem hjálpar, styður við drengina sem eru á leið yfir vatnið. Það er samt ekki eitthvað eitt við myndina, það er allt. Sumarbúðirnar í bakgrunni, mismunandi klæðnaður drengjanna, stelling leiðtogans sem hefur sest á hækjur sér til að einfalda drengjunum að styðjast við sig. Kannski ekki síst að leiðtoginn á myndinni var barn í sumarbúðum í Vatnaskógi þegar ég starfaði þar.

Eftir 10 daga mæti ég enn á ný í Vatnaskóg sem starfsmaður. Í ár verða 20 ár síðan ég var fyrst “foringi” í Vatnaskógi. Drengirnir sem voru hjá mér á 2. borði í 6. flokki 1991 eru sumir hverjir orðnir 34 ára. Þeir eru næstum orðnir jafngamlir og ég sjálfur.

Drengirnir sem ég hef fengið að hitta í Vatnaskógi á þessum tuttugu árum hafa orðið píanóstillingamenn, læknar, verkfræðingar, rútubílstjórar, kennarar, bankastarfsmenn, hvalskurðarmenn, kokkar, tölvunarfræðingar, löggur, skyrsölumenn, prestar og sjómenn. Sjálfsagt muna þeir fæstir mikið eftir mér, en ég vona að þeir muni eftir góðum stundunum, kvöldvökunum, söngnum, hermannaleiknum og fótboltanum. Kannski muna þeir eftir borðtennisborðunum, Biblíulestrum, “streetball”-mótinu, leikhópnum Villiöndinni, bænastundunum í kapellunni, samskiptum við foringjann sinn, kassabílunum eða gönguferð í hylinn. Einhverjir gætu munað eftir brúnu glasúrbollunum, skúffukökunum eða grjónagrautnum, mjólkurkexinu eða heita kakóinu á morgnanna.

Hitt er ljóst að á mínu 20 ári sem starfsmaður og eftir að hafa komið í Vatnaskóg flest sumur síðastliðinn 30 ár, þá er ég orðinn mjög spenntur að mæta á svæðið enn á ný eða eins og segir í einum af fjölmörgum skógarmannasöngvum:

Hér á ég heima, hér best ég næ,
djarflega að dreyma dýrð Guðs sí og æ.