Sérfræðivæðing í barna- og æskulýðsstarfi

Fyrir mörgum árum var á stundum leikið leikrit í Vatnaskógi sem var kallað “Sérhæfingin” og fjallaði um Bandaríkjamann á rakarastofu sem útskýrði fyrir rakaranum hversu allt væri frábært í Ameríku því sérhæfingin væri svo mikil. Þannig væru til sumarbúðir sem sérhæfðu sig í knattspyrnu og engu öðru, aðrar sem biðu bara upp á rólur og þar inni sérhæft starfsfólk sem sinnti einungis þessum sérstöku verkefnum. Okkur foringjunum þótti leikritið skemmtilegt vegna þess að við litum á okkur sem fjölfræðinga sem kynnum allt, ég held hins vegar að strákunum hafi ekki þótt leikritið sérlega merkilegt. En hvað um það.

Mér varð hugsað til þessa leikrits í dag þegar ég var með syni mínum út á fótboltavelli þar sem hann keppir fyrir Grænu drekanna. Þau hittast vikulega á grasflöt í Bexleybæ og æfa sig saman, sparka bolta á milli og fara í skemmtilega leiki undir stjórn þriggja foreldra úr hópnum. Síðan mætir liðið á laugardagsmorgnum og spilar í knattspyrnudeild með öðrum liðum sem einnig eru þjálfuð af foreldrum. Þjálfarar Grænu drekanna spila í áhugamannadeild í Bexleybæ og kunna svolítið til í knattspyrnu, en það á ekki endilega við um þjálfara allra hinna liðanna. Þjálfararnir fá allir kennslu á vegum laugardagsdeildarinnar í leikjum og einföldum boltaæfingum fyrir börn sem eru notaðar á vikulegum æfingum. Áherslan er á að allir njóti sín á eigin forsendum. Markmiðið er að gefa krökkum kost á að hlaupa og skemmta sér. Kostnaður felst aðallega í skipulagningu deildarinnar og kaup á búningum, en kostnaður við þátttöku eru nokkrir þúsundkallar á ári.

Ég átta mig á því að sonur minn þarf meiri og kerfisbundnari þjálfun til að verða framúrskarandi fótboltamaður. Ég er meðvitaður um að teygjuæfingum er hugsanlega ábótavant, enda er markmiðið ekki gæði heldur gleði. Þeir sem halda utan um starfið eru meðvitaðir um að börn í faglegu starfi íþróttafélaga bæði í Kanada og víða í Evrópu hafa að jafnaði miklu meiri knatttækni og líkamlegan styrk en börn í foreldrastarfinu, en spurningin sé hvort að það sé markmiðið með starfinu.

Ég velti fyrir mér hvort að samsvarandi ástand sé til staðar í öðru æskulýðsstarfi á Íslandi. Hvort að sérhæfingin sé e.t.v. vandamál á Íslandi en ekki í BNA, hvort að leikritið góða hafi snúið staðreyndum á haus. Í þeim kirkjum sem ég þekki til í hér í BNA, þá er hlutverk ráðins starfsfólks að virkja foreldra til góðra verka. Framkvæmdahliðin í sunnudagaskóla barnanna minna hér í BNA er í höndum áhugasamra foreldra. Það sama má segja um sumarleikjanámskeiðið.

Einhverjir gætu bent á mikilvægi faglegra vinnubragða, gagnsemi menntunar þeirra sem vinna með börnum og ég vil ekki gera lítið úr því, enda búin að mennta mig úr hófi fram. Á hinn bóginn er foreldrareynslan og tækifærið til að virkja foreldra í starfi með börnum sínum, möguleikinn á að mynda aðstæður fyrir börn og fullorðna til að gera spennandi hluti saman, tækifæri til að skapa órjúfanleg tengsl milli foreldra og vinahóps barna þeirra, eitthvað sem ekki verður metið til fjár.

Alla vega er það mér mikilvægara að Tómas hafi haft tækifæri til að kynnast coach Chris, coach Emily og coach Fletcher, en að hann búi yfir sömu yfirburðaknattækni og ég hefði haft, ef ég hefði ekki bara verið látin æfa eftirlitslaus á bakvið markið á æfingum í Álftamýrinni í æsku, þar sem þjálfarinn hafði ekki tíma til að sinna okkur sem komumst ekki í A-liðið.