Ég var að glugga í bækur um hlutverk og stöðu kristninnar á fyrstu tveimur öldunum eftir Krist, m.a. í ljósi deilna postulanna í Jerúsalem og Páls. Það er áhugavert að kristni er í upphafi fyrst og fremst borgartrú, þ.e. hún dreifist, vex og dafnar í borgarumhverfi. Lykilleikmenn í útbreiðslunni eru iðnmenntaðir farandverkamenn sem fara úr einni borg í aðra og stunda iðn sína. Gæði samgangna og færanleiki vinnuafls (mobility) í rómverska keisaraveldinu eru auðvitað vel þekktar stærðir. Ekki síður mikilvægt er að þessi færanleiki kallar á þörfina fyrir “fjölskyldu” fjarri blóðfjölskyldunni og skapar kjöraðstæður fyrir safnaðaruppbyggingu og samfélag.
Þannig verður kirkjan/söfnuðurinn/hinir kristnu staðgöngufjölskylda fyrir fólk á ferð, sem getur treyst á að finna samfélag og stað þar sem þau geta sest til borðs með fleirum. Kirkjan myndaði þannig mótvægi við einmanaleika stórborgarsamfélagsins, strax á fyrstu og annarri öld.
Þegar postularnir og Páll sammælast um að boðunin skuli umfram allt leggja áherslu á hina fátæku, þrátt fyrir deilur um önnur efni, þá er hjálplegt að skilja það í ljósi þessarar samfélagsáherslu. Kirkjunni er ætlað að vera vettvangur allra, ekki bara þeirra sem meira mega sín, heldur heimahöfn hvers sem er. Vettvangur öryggis í óvissum heimi.
Það má velta fyrir sér hvernig þessi áhersla á öryggi og samfélag, rímar við rótttækan boðskap Krists og gagnrýni hans á stofnanavæðingu trúar. En annað þarf auðvitað ekki að útiloka hitt. Svo lengi sem við leitumst við að vera meðvituð um þörf samfélagshópa til að kæfa innri gagnrýni.