Þróun Vantrúarhópsins

… frekar vil ég búa í samfélagi með umburðarlyndum trúmönnum (já þeir eru til) heldur en fordómafullum trúleysingjum. #

Ég hef fylgst með trúmálaumræðu á vefnum í ríflega 11 ár. Á þeim tíma hef ég meðal annars fylgst með þróun vantrúarumræðunnar sem leiddi meðal annars til vantrúarvefsins og stofnunar félagsskapar að mestu í kringum hann. Nýlega skrifaði ég minnismiða þar sem ég velti fyrir mér þróun hópsins m.a. í ljósi umræðna sem urðu á vefnum í tengslum við hið árlega páskabingó.

Á miðanum velti ég fyrir mér hvort eða öllu heldur hvernig Vantrúarhópurinn er að stofnanavæðast/borgaravæðast og glóðin og harkan að dofna. Þannig hef ég á tilfinningunni að meira púður fari í innra spjall (sem ég hef reyndar ekki aðgang að) og það er ljóst að við sjáum færri greinar á síðunni. Samskipti félagsins út á við virðast vera að breytast. Dregið hefur úr hamagangi á ummælaþráðum en baráttan háð í gegnum siðanefndir stofnanna og fyrir dómstólum. Meiri áhersla virðist lögð á vandaðri vinnubrögð, en minna treyst á karisma og sjálfumglaðan besserwisserstíl.

Það er áhugavert hvernig félagshópar þróast yfir tíma og auðvitað er slík þróun á engan hátt línuleg og oft ekki meðvituð. Þannig eru vantrúarmenn ennþá sýnilegir á ummælaþráðum og í athugasemdum á trú.is eða hvar sem trúmál eru rædd, en krafturinn virðist annar og tilviljunarkenndari (eða selectivari).

Ástæða þessarar þróunar getur verið margþætt og segja má að þróun Vantrúarhópsins líkist um margt módelum trúarlífsfélagsfræðinnar um þróun trúarhópa. Það merkir samt ekki að Vantrúarhópurinn sé endilega trúarhópur (slík umræða er enda gagnslaus og mér hafa orðið á mistök í þeirri umræðu fyrr).

Ég velti reyndar fyrir mér hvort að þróun Vantrúar hafi fyrst á fremst átt sér stað í mínum eigin hugarheimi og viðhorfi mínu til hópsins. Í annan stað velti ég fyrir mér hvort að miðjan í trúmálaumræðunni hafi færst til á 10 árum. Þannig séu skoðanir Vantrúarmanna sem áður voru taldar á jaðrinum komnar nær miðjunni en áður. Ég held að báðar þessar ástæður hafi eitthvert vægi, en ég tel að fleira komi þó til.

Mikilvægur þáttur í þróun Vantrúar eru tíð skipti á leiðtogum (forsvarsmönnum) sem hjálpar hópnum að koma í veg fyrir að sérskoðanir fárra verði leiðandi í félaginu til langs tíma. Þannig geta tíð leiðtogaskipti leitt til þess að broddur félagsins verði ekki jafn beittur.

Stækkun félagsins hefur einnig leitt til þess að félagsmenn þurfa að eyða auknu púðri í innri mál. Þannig þarf að svara spurningum um hversu opið félagið á að vera, hverjir geti verið félagar og hverjir ekki, jafnvel glíma við hvað gerist ef félagar svíkja málstaðinn. Slík innri vinna dregur úr broddinum, enda tímafrek.

Ég velti líka fyrir mér hvort að “vindmyllutilfinningin” sé til staðar í elsta kjarna hópsins. Þannig er auðvelt að ímynda sér að það sé þreytandi að fara í gegnum sömu umræðuna aftur og aftur, ár eftir ár við nýja viðmælendur. Endurnýjunin í “sannkristnum” ummælariturum á Vantrú virðist nefnilega stöðug. Flestir stoppa stutt við, hlusta ekki, en kasta fram sömu fullyrðingunum og næsti hópur á undan, sem eru sömu fullyrðingar og hópurinn á undan þeim, sem eru síðan sömu fullyrðingar og við þessi sem köllum okkur kristin héldum á lofti á spjallþráðum Striksins fyrir 11 árum.

Upphafið að þessum pælingum var í tengslum við Páskabingóið á Föstudaginn langa. Öll félög hafa nefnilega þörf fyrir hefðir og venjur. Öll leitum við að festu. Slíkar venjur og hefðir, “rituöl” hafa tilhneigingu til að verða ekki annað en það, venjur og hefðir. Broddurinn minnkar ef endurnýjun á sér ekki stað. En um leið, þá eru breytingar alltaf hættulegar. Ég velti fyrir mér hvort að Vantrúarhópurinn sé að þróast úr gagnrýninni rödd sem særir, í félagsskap fólks með líkar hugmyndir sem vill spila bingó á föstudaginn langa, finna styrk í fólki með svipaðar hugmyndir og þau sjálf og halda uppi vörnum fyrir hugmyndir sínar. Kannski var það líka markmiðið allt frá upphafi.

Rétt er að minna á að miðvikudaginn 5. október 2011 frá kl. 19:30-21:30 held ég námskeið um Trúleysishreyfingar. Verð á námskeiðið er 2.000 krónur. Nánari upplýsingar um námskeiðið á Vangaveltur.net.

One thought on “Þróun Vantrúarhópsins”

Comments are closed.