Galatabréfið er málsvörn Páls, uppgjör við hugmyndir sumra gyðingkristna að einvörðungu þeir sem fylgja lögmálinu, láta umskerast og fylgja hreinleikalögum Leviticusar geti verið kristnir.
Hversu þróaðar hugmyndir um hlutverk og stöðu Krists virðast í bréfinu, gefur að mati margra fræðimanna til kynna að Páll skrifi þetta nokkrum árum eftir Postulafundinn 48 e.Kr. Eins, þegar litið er til ferða Páls virðist bréfið skrifað nokkru eftir fundinn. Flestir fræðimenn tímasetja því bréfið í kringum 57 e.Kr.
Ég hins vegar er ósammála þessari nálgun og tel augljóst af efni bréfsins að það sé skrifað annað hvort rétt fyrir postulafundinn og byggi það á upphafsorðum 1. kaflans eða strax í kjölfar fundarins eins og gefið er í skin í 2. kafla. Það myndi tímasetja bréfið einhvers staðar á bilinu 47-49 e.Kr. og þannig væri Galatabréfið elsta rit Nýja testamentisins.
Þannig held ég að það sé rangt mat að Kristsfræðin sé sérlega mótuð eða þróuð, miklu heldur tel ég að Kristsmynd Galatabréfsins sé ómótuð af raunverulegum krísum í kirkjulegu safnaðarstarfi. Þannig sé þessi hugmynd um algjört jafnræði og algjört frelsi, mun líklegra fyrsta innlegg en eitthvað sem gerist á síðari stigum í trúarlífi Páls.
Á sama hátt held ég að Postulasagan gefi ekki fullkomna mynd af öllum ferðum Páls og því ekki endanlegur sannleikur þegar kemur að tímasetningunni á skrifum hans.
Enn þá að textanum sjálfum. Páll gerir í fyrsta kaflanum grein fyrir trúarlegum bakgrunni sínum. Hann leggur áherslu á fagnarerindi Guðs, fagnaðarerindi sem er óháð öllum mannanna gjörðum. Frelsunarverk Jesús Krists er algjört, og engin verk geta bætt neinu þar við.
Allar tilraunir til að bæta einhverju við, setja einhvers konar skilyrði fyrir náð Guðs eru fordæmdar af Páli. Það er mikilvægt að átta sig á því hér að skrifum er ekki beint að einhverjum nafnlausum og óþekktum villutrúarmönnum heldur fyrst og fremst að lærisveinum Jesús, þ.e. hinum Postulunum, m.a. Pétri og Jakobi.