Bréf Páls

Lestur Biblíunnar kallar á margskonar vangaveltur eins og ég hef nefnt áður hér á vefnum. Að mörgu leiti eru bréf Páls einföldustu og aðgengilegustu textarnir í ritsafninu. Hér er um að ræða sendibréf frá einstaklingi til einstaklinga eða hópa. Í mörgum tilfellum kemur nafn sendanda og nafn viðtakenda fyrir í bréfinu. Í bréfunum er jafnframt í einhverjum tilfellum tiltekin ástæðan fyrir skrifum viðkomandi bréfs. Tímasetning flestra skrifanna liggur einnig fyrir +/- 10 ár.

Þrátt fyrir þessa vitneskju sem bréfin gefa sjálf, er ýmislegt sem liggur ekki ljóst fyrir. Þannig er ekki ljóst í hvaða röð bréfin eru skrifuð og þó tímaramminn fyrir starf Páls sé þekktur, þá er nákvæm tímasetning einstakra bréfa umdeilanleg. Þar sem guðfræðileg nálgun Páls mótast yfir ritunartíma bréfanna þá getur skipt máli hvenær hvert bréf var skrifað. Alla vega ef við erum áhugasöm um að finna samhengi í guðfræðilegri hugsun Páls. Oft er talað um að ritunartími bréfanna sé frá 52 e.Krist og fram til 67 e.Krist. Að minnsta kosti ritunartími þeirra bréfa sem guðfræðingar eru sammála um að Páll hafi í raun skrifað.

Nokkur bréfa Nýja Testamentisins sem kennd eru við Pál eru nefnilega af mörgum talin rituð af eftirmönnum hans eða lærisveinum. Einstaklingum eða hópum sem reyndu að halda guðfræðihugsun hans á lofti með því að nota nafn hans á síðari skrif. Í dag finnst mörgum slík vinnubrögð vart siðleg, enda er höfundar- og sæmdarrétti mjög haldið á lofti. Hins vegar er ástæða til að ætla að slík vinnubrögð lærisveina og fylgisveina hafi tíðkast á fornöld án þess að nokkuð ósiðlegt hafi verið á ferðinni, heldur einmitt þvert á móti. Með því að rita í nafni lærimeistarans var meistaranum sýndur virðing og sómi. Er nærtækt að horfa til grískra heimspekinga í því samhengi, nú eða rita Gamla testamentisins.

Þegar talað er um tímasetningar á einstökum bréfum er iðulega miðað við frásögn Postulasögunnar á lífi og starfi Páls og einstök bréf á tíðum tengd við kristniboðsferðir hans og fangelsanir á þeim ferðum. Þegar það er gert, þá er jafnframt gengið út frá því að frásögn Postulasögunnar sé skrásett í réttri tímaröð og dekki allar ferðir Páls um Miðjarðarhafið. Það má vera að það sé réttmæt leið en ég hef mínar efasemdir um að slík sagnfræðileg nálgun á Postulasöguna sé endilega skotheld.

Ég sjálfur hef sterka tilhneigingu til að horfa til þess hvernig Páll fjallar um söfnuðinn og samfélagið í bréfum sínum þegar ég horfi til þess hvernig raða ber bréfunum í tímaröð. Þannig megi álykta að bréf þar sem gert er ráð fyrir mjög formlegum strúktur séu yngri en bréf sem leggja meiri áherslu á “persónulega” trúarafstöðu (svo ég einfaldi nálgun mína nokkuð). Skv. þessari nálgun eru hirðisbréf Páls, 1. og 2. Tímóteusarbréf ásamt Títusarbréfi skrifuð fremur seint á ferli Páls, ef þau eru skrifuð af Páli, en t.d. Galatabréfið skrifað mun fyrr.

Í umfjöllun minni um einstök bréf mun ég væntanlega nefna hvort það sé almennt talið ritað af Páli eða hvort um það sé deilt. Eins mun ég á stundum benda á þætti sem mér persónulega þykir gefa vísbendingar um aldur ritsins. Það mun samt ekki alltaf eiga við enda kannski ekki grundvallandi atriði.

Það er þó óhætt að fullyrða hér að nálgun mín á einstökum textum Biblíunnar er og verður ekki alltaf í samræmi við meirihluta fræðimanna á þessu sviði, né í samræmi við hugmyndir þeirra sem telja að Guð hafi hvíslað í eyra Páls orðunum sem hann ritaði niður. Þá er rétt að taka fram að ég tel að mér sé heimilt að skipta um skoðun ef eitthvað af því sem fylgir í Biblíuumfjöllun minni gengur ekki upp eða reynist rangt.