1. Mósebók 12. kafli

Frásagnirnar af Abram og Saraí eru um margt óþægilegar. Textinn í 1. Mósebók er eins og oft áður ofinn saman úr tveimur mismunandi heimildum, þannig virðast atburðir endurtaka sig, þegar farið er frá einni frásagnarhefðinni til annarrar. Jafnframt neyðir lestur textans mig til að takast á við stöðu Hagar og sonar hennar Ísmael. Síðast en ekki síst kallar textinn okkur til að velta fyrir okkur hvað það merkir að njóta sérstakrar blessunar Guðs. Hvort að mér takist gera þessu góð skil þegar ég skrifa mig í gegnum næstu 11-12 kafla verður síðan að koma í ljós.

Abram og Saraí eru kynnt til sögunnar í borginni Úr í lok 11. kafla og sagt að þau hafi fylgt fjölskyldu sinni til borgarinnar Harran þar sem þau settust að þrátt fyrir að upphafleg endastöð hafi verið Kanaansland.
Abram ákveður ásamt konu sinni að halda áfram eftir að hafa heyrt rödd Guðs og fara til landsins sem Guð hefur ætlað honum, enda lofar Guð Abram að hann muni njóta blessunar. Það sem e.t.v. er merkilegra er fullyrðingin um að líf Abrams verði blessun allra þjóða.

Ég kem örugglega inn á það aftur í yfirferð minni um Gamla testamentið að þeir sem sagðir eru njóta blessunar Guðs í Gamla testamentinu eru sjaldnast valmenni eða fyrirmyndir þegar kemur að heiðarlegu lífi, hógværð eða manngæsku. Það er eins og ritstjórar einstakra texta Gamla testamentisins séu að segja okkur að meira að segja breyskir, óheiðarlegir, lygamerðir og vafapappírar geta leitt til góðs og á einhvern hátt verið hluti af plani Guðs.

Þannig les ég frásögu 12. kaflans um ferð Abrams og Saraí til Egyptalands ekki sem frásögn um mögulega illsku Egypta eða tilraun fátækra farandverkamanna til að “meika” það í fjandsamlegum heimi. Miklu fremur hljómar þetta eins og sena úr Dirty Rotten Scoundrels.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.