1. Mósebók 9. kafli

Kaflinn byrjar á stefi sem við höfum séð fyrr. Flóðið markar nýtt upphaf. Ritstjórar 1. Mósebókar endurtaka blessun Guðs úr 1. kaflanum. “Verið frjósamir, fjölgið ykkur og fyllið jörðina.” Það er reyndar áhugavert að hér í 9. kaflanum er blessunin í karlkyni en hvorugkyni í 1. kaflanum (alla vega í íslensku þýðingunni frá 2007).

Sáttmáli Guðs er einhliða í 9. kaflanum. Guð lofar að endurtaka ekki flóðið. Regnboginn skal vera til marks um að flóðið verði ekki endurtekið. Ég á erfitt með þennan texta eins og marga aðra. Hann rifjar upp náms- og vinnuferð til New Orleans, 15 mánuðum eftir Katarína. Þar varð flóð, eins og sönnun þess að sáttmálinn væri fallinn úr gildi. Það var sérkennilegt að keyra framhjá húsum þar sem málað hafði verið á fjöldi látinna innanhús, að kynnast kerfisbundnu óréttlætinu, að sjá hvernig góðmennskan laut í lægra haldi fyrir sjálfhverfu stjórnmálamanna og að sjá hvernig blinda á hugmyndafræði frjálshyggjunnar gerði vonlausar aðstæður enn verri.

En í miðju alls þess voru húsin hans Edge í U2. Nýbyggð, margir tugir af þeim, rétt við “9th ward” af sjálfboðaliðum, ungu fólki, trúuðu fólki, trúleysingjum, háskólanemum og eldri borgurum sem höfðu gefið sér tíma til að hjálpa til, sumir í viku aðrir í mánuði. Húsin voru í öllum regnbogans litum, byggð fyrir tónlistarmenn sem höfðu misst allt í flóðinu. Í miðri eymdinni birtist regnboginn eða eins og þeir syngja í U2, “After the Floods All the Colors Came Out.”

Það var líka ógleymanlegt að keyra á brúnni yfir Pontchartrain vatnið þegar við yfirgáfum miðborg New Orleans í síðasta sinn og sjá sólstafina yfir borginni, eins og ljós af himnum ofan. En þrátt fyrir það, þá er spurningunni ekki svarað. Man Guð ekki eftir sáttmálanum sem Guð gerði, fyrr en eftir flóðin?

Það er áhugavert að blygðunin er ekki horfinn úr lífi mannanna þrátt fyrir hreinsunina. En kannski er við hæfi að skilja frásöguna af bræðrunum fyrst og fremst sem ættflokkadeilur, þar sem Ísraelsmenn finna réttlætingu á fyrirlitningu sinni á Kanaanítum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.