1. Mósebók 8. kafli

Böðvar bendir réttilega á í athugasemd við 7. kaflann að nálgun mín á textanum er e.t.v. einhliða. Vissulega er hægt að sjá Nóa sögurnar sem áminningu um að illska mannsins geti orðið óbærileg fyrir Guð. Þannig má lesa sögurnar sem ákall um iðrun og yfirbót, kannski í svipuðum stíl og ræða Jónasar yfir Nínevubúum. Slíkur lestur var mér samt ekki ofarlega í huga, þegar ég las kaflann í gær.

En þá að 8. kaflanum. Þegar ég sé fréttamyndir frá flóðasvæðum, þegar ég sé myndir sem félagar mínir tóku á ströndinni í Jacmel, þar sem það leit út fyrir að vatnið væri að ganga á land fáeinum mínútum eftir skjálftann á Haiti, þá velti ég fyrir mér, hvaðan kemur allt þetta vatn og hvert fer það þegar flóðinu sjatnar. Höfundur 8. kaflans leitast við að svara spurningunni um vatnið. Spurningu sem byggir fyrst og fremst á tilraun okkar til að finna eitthvað eðlilegt í óreiðunni. Tilraun til að stilla hugann á eitthvað sem við getum ráðið við í aðstæðum utan við allt sem við getum höndlað.

Þegar ég les um örkina sem rekur stjórnlaus um óravíddir hafsins verður mér líka hugsað til bókarinnar um Pí eftir Yann Martel og spurningarinnar um hvað það er sem gerir sögur sannar.

Annars er áhugavert í 8. kaflanum hvernig hrafninum er lýst sem einfara sem lætur sig hverfa við fyrsta tækifæri, meðan dúfan heldur lengur tryggð við húsbóndann sinn. Ég læt öðrum samt eftir að túlka og fjalla um stöðu og hlutverk hrafna í helgisögnum, ævintýrum og goðafræðum.

Auðvitað er líka ómögulegt að tala um örkina án þess að nefna ótalmargar kvikmyndir og vangaveltur um hverjum eigi að bjarga og hverjum ekki í yfirvofandi heimsendi. Það er auðvitað auðveldast að benda á 2012 í því samhengi. Kannski Nói hefði átt að íhuga að selja “ríkisborgararétt” í örkinni til hæstbjóðanda til að fjármagna framtakið.

Hér sjáum við líka hvers vegna prestarnir þurftu að senda sjö dýr í örkina með Nóa. Þegar Nói stígur út úr örkinni er það fyrsta verk hans að reisa altari og fórna hluta af dýrunum sem hann hafði umfram tvö. Hvað er nefnilega mikilvægara fyrir prestastéttina en að minna á mikilvægi sitt.

Vilyrði Guðs eftir fórn Nóa er áhugavert. Guð lofar að vernda okkur frá gereyðingu, vilyrðið er án skilyrða og virðist einvörðungu tengt ánægju Guðs með fórnina.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.