Hefur þú tíma?

Þessir þankar voru skrifaðir fyrir KSS fund í desember 1998 og hafa verið lagfærðir með tilliti til málfars og aukins þroska og endurskrifaðir að hluta.

“Það sem mest er um vert í lífinu,” sagði maðurinn, “er að komast áfram, að verða eitthvað, að eiga eitthvað. Sá sem kemst vel áfram, sá sem verður eitthvað meira og eignast meira en aðrir fær allt annað eins og af sjálfu sér, vináttu, ást, heiður og svo framvegis. Þú álítur að þér þyki vænt um vini þína? Við skulum athuga það svolítið nánar.” Grámennið blés nokkrum núllum út í loftið. Mómó dró bera fótleggina inn undir pilsið sitt og reyndi af fremsta megni að skríða inn í stóra jakkann sinn.

“Í fyrsta lagi skulum við varpa fram spurningunni,” byrjaði grámennið enn á ný, “hvað hafa vinir þínir eiginlega upp úr því að eiga þig að? Hafa þeir einhver not af þér? Nei! Hjálpar það þeim að komast áfram, þéna meira, fá eitthvað út úr lífi sínu? Örugglega ekki! Styður þú vini þína í viðleitni þeirra til að spara tíma? Þvert á móti. Þú gerir tækifæri þeirra að engu. Þú hefur kannski aldrei gert þér grein fyrir því, Mómó, – en þú skaðar vini þína með því að skipta þér að þeim. Já, án þess að vilja það, ertu óvinur þeirra. Kallarðu þetta að láta sér þykja vænt um einhvern? (Úr Mómó eftir Michael Ende)

Ég fór í Bónus Holtagörðum í dag til að kaupa í matinn. Ég læddist fram hjá börnum og gamalmennum með vagninn minn, passaði mig að rekast ekki á neinn, yrða ekki á neinn, nema helst með orðunum: „Ertu til í að færa þig?“ Ég borgaði vöruna með plastkorti, og gekk út. Enginn sagði hæ, enginn sagði bæ.

Ég er svo sérvitur að ég kaupi ekki grænmeti í Bónus, því fór ég á leiðinni heim í Nýkaup á Eiðistorgi. Ég gekk inn í búðina, strax meira pláss, en það breyti nú svo sem engu. Ég gekk að grænmetisborðinu og rak augun í Bonsaitré. Tók það upp, kostaði 1499 krónur.

„Er þetta lifandi?“ Ég hrökk við, var einhver að tala við mig. Sneri mér við. Gömul kona stóð rétt fyrir aftan mig og spurði aftur:Er þetta lifandi.“ Ég leit á hana og brosti, „Já, en svolítið dýrt.“ Gamla konan tók tréð upp og skoðaði um stund, við spjölluðum um japanska trjárækt sem hvorugt okkar hafði samt neitt vit á, en sáum þó að tréð var fallegt.

Starfsmaður gekk hjá og gamla konan spurði hann: „Fyrirgefðu, lifir þetta eitthvað?“

Hann svaraði að bragði: „Já, þetta lifir í mörg, mörg ár, en það þarf að sinna því mikið.“

Konan brosti og sagði að bragði: „Þá fæ ég mér ekki svona, það er svo stutt þar til ég fer.“

Við þetta dró ég mig í hlé, keypti stóra tómata, hvítkálshaus mandarínur fyrir jólin, tók upp plastkortið og Fríkortið, borgaði og fór heim.

Hugleiðingar mínar hér í kvöld skiptast upp í nokkra parta, ég legg þá fram, einn og einn í senn. Þeir eru kannski ekki alltaf samstæðir í fyrstu en vonandi tekst okkur að fá mynd á hugsanir okkar hér í lokin.

Hvað er tími – fáeinir þankar í eðlisfræði

Til er mikill en þó hvunndagslegur leyndardómur. Allir eiga sinn þátt í þessum leyndardómi. Hver einasta manneskja þekkir hann. Flestir taka honum eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut og undrast ekki vitund. Þessi leyndardómur er tíminn.

Það eru til dagatöl og klukkur sem mæla tímann. En það segir ekki alla söguna. Allir þekkja að ein klukkustund getur virst vara heila eilífð og eins getur ein klukkustund liðið eins og örskot, allt eftir því hvað maður upplífir.

Því tími er líf. Og lífið býr í hjartanu. (Úr Mómó eftir Michael Ende)

ER tíminn háður einhverju, eða líður tíminn bara hjá. Í aflfræði Newton var ekki gerður greinarmunur á jákvæðum og neikvæðum tíma. Tíminn var bara ás, sem hinn þrívíði kassi raunveruleikans ferðaðist eftir, fram eða aftur – Aðallega reyndar fram 🙂 . Það var ekki fyrr en með sértæku afstæðiskenningunni, 1905, að því var formlega haldið fram að tíminn væri háður rúminu.

Annað lögmál Varmafræðinnar gerir ráð fyrir sífellt meiri óreiðu. Með lengri tíma eykst óreiðan. Tíminn á sér þannig aðeins eina stefnu, stefnu í átt til meiri óreiðu.

Því tíminn er líf. Og lífið býr í hjartanu.

Sálarörin er einnig til, við munum aðeins aftur fyrir okkur, ekki fram, tíminn stefnir á það sem við munum ekki eftir.

Hvað er tími – smá biblíufræði fyrir þá sem það vilja skilja.

Alls er talað 330 sinnum um tíma í Biblíunni. Gamla testamentið talar um tímann í sambandi við fortíð, nútíð og framtíð. Saga Ísraelsþjóðarinnar er lína í gegnum söguna, þetta gerðist, þá þetta o.s.frv.

Nýja testamentið talar um tímann á tvennan hátt. Tímann sem er eða yfirstandandi tíma og tímann sem mun koma. Fjórum sinnum talar Jesú í Jóhannesarguðspjalli um sinn tíma, tímann sem ekki var kominn. Tímann sem segir í Opinberunarbókinni 22. kafla og 10. versi að sé í nánd.

Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn. (Mk 13.33)

En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð. (Jes 66.18)

Hef ég tíma? – Tíma fyrir hvað? – verkefnavinna

„Hef ég tíma?“ er yfirskriftin. En tíma fyrir hvað? KSS-ingar eru mismunandi og því mismunandi hlutir sem þið gefið ykkur ekki tíma til. Við skulum ræða um tímann, hvernig við notum hann og hvort við höfum skyldur gagnvart einhverjum sem hafa áhrif á það hvernig við notum tímann.

Lesa og lifa.

Martin Luther, talar oftsinnis um andlega og veraldlega ríkið. Andlega ríkið þar sem náð Guðs ræður ríkjum. Þar erum við hvítari en snjór, syndlaus, frátekinn fyrir Guð, í andlega ríkinu er hver maður góður, góð sköðun Guðs, frelsuð fyrir blóð Krists. Svo ég noti frasa.

Veraldlega ríkið er ríkið sem við lifum í, þar erum við í sífelldu stríði við syndina og rangar hugsanir okkar, um það ríki talar Páll postuli í Rómverjabréfinu þegar hann segir: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“

Í veraldlega ríkinu erum við ekki frjáls að mati Martin Luther, heldur þrælar Krists. Okkur ber að koma fram við alla sem Kristur ætti í hlut. Það merkir að gefa honum tíma. Hlusta og virða fólkið í kringum okkur, vera náunga okkur Kristur. Það á við um alla sem við mætum. Til að okkur sé það mögulegt þurfum við að sjálfsögðu að gefa okkur tíma til að kynnast Kristi, sú kynning þarf einnig að vera í jafnvægi, við kynnumst Kristi þegar við mætum honum í náunga okkar og við kynnumst viðbrögðum Krists í Biblíunni.

Skyldur okkar sem kristnir menn eru því að koma fram sem Kristur við alla menn, og ekki síður koma fram við alla menn eins og þeir væru Kristur. Þetta gerum við með því að kynnast Kristi Biblíunnar og með því að láta okkur annað fólk varða, hlusta á það og gefa því tíma.

Höfum við tíma fyrir Krist?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.