Frelsi fyrir aðra

Hugleiðing á æskulýðsdaginn 1999, flutt í Háteigskirkju. Lítillega lagfærð með tilliti til málfars og þroska.

Narcissus var eitt af goðum grísku goðafræðinnar og fallegasta vera sem nokkurn tímann hafði lifað. Goðið Echo varð ástfangið af Narcissusi og og gerði allt til að vinna ástir hans. Echo var hins vegar svo ólánsöm að á hana höfðu verið lögð álög. Það eina sem hún gat sagt var bergmál þess sem hún heyrði. Þegar Echo ætlaði að tjá Narcissusi ást sína, var það eina sem hún gat gert að endurtaka orð Narcissusar. Narcissus datt ekki í hug að eitthvað væri að hjá Echo, hélt að hún væri að gera att í sér með því að endurtaka allt sem hann sagði og gekk í burtu.

Þegar Narcissus kom að á nokkurri var hann þyrstur, svo hann beygði sig niður til að drekka. Þegar honum varð litið í ánna sá hann fallegasta andlit sem hann hafði nokkurn tíma séð speglast í vatninu. Hann varð svo hrifinn að hann gat með engu móti slitið sig frá spegilmynd sinni, heldur sat dag eftir dag og virti fyrir sér andlitið sem speglaðist í vatninu, allt þar til hann veslaðist upp og dó.

Fyrsti sunnudagurinn í mars er í íslensku þjóðkirkjunni tileinkaður ungu fólki. Á þessum degi er börnum og unglingum boðið sérstaklega til kirkju og jafnvel fengin til að taka þátt í guðsþjónustunni. En fyrstu dagar mars eru því miður tileinkaðir fleiru.

Á Íslandi hefur 1. mars verið gerður að degi frelsisins, þ.e. frelsisins til að eyðileggja eigið líf, frelsisins til að flýja raunveruleikann. Með því er ég ekki endilega að segja að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða þegar bjór var leyfður á Íslandi, en að útbúa sérstakan frelsisdag til að minnast ákvörðunarinnar er undarlegt atferli.

Bandaríkjamenn nýttu 1. mars á þessu ári til að minna á að þeir hefðu frelsi til að drepa og limlesta saklausa borgara, með því að hafna undirritun samkomulags um bann við jarðsprengjum, en á meðan við sitjum hér í guðsþjónustunni frá tvö til þrjú, munu að minnsta kosti 3 einstaklingar deyja vegna jarðsprengna, líklega einn hermaður, einn fullorðin óbreyttur borgari og næstum örugglega að minnsta kosti eitt barn.

Frelsið er mikið notað orð, við sjáum það í auglýsingum, þar sem auglýst er frelsi til að velja, kók eða Pepsi, slagorði eins og “Frjáls og fjörug” ef notuð er rétt tegund af dömubindi eða TAL-frelsi, ef við viljum tala í símann okkar þegar við viljum.

  • En hvað er frelsi?
  • Er það það að geta gert það sem manni langar til?
  • Eða kannski að geta gert það sem mann langar til svo lengi sem maður skaðar ekki aðra?
  • Eða ef til vill eitthvað allt annað?

Ég veit ekki hvernig þið skiljið frelsi, en þegar Biblían fjallar um frelsi, þá er það mjög ólíkt því frelsi sem ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna boða.

Frelsi Biblíunnar er nefnilega skilyrt frelsi, það er frelsi ábyrgðar. Það er frelsi einstaklingsins til að koma vel fram við náungann, frelsi einstaklingsins til að taka ábyrgð á eigin lífi. Frelsi til að takast á við lífið. Það frelsi er ekki skilyrðislaust, því það inniheldur ekki möguleikann að flýja af hólmi eða hafna því.

Á föstunni, sem nú er, síðustu fjörtíu daganna fyrir páska, minnumst við píslargöngu Jesú Krists. Við minnumst þess hvernig Jesú notaði frelsið sitt.

Jesú hafði mikil völd, enda sonur þess sem skapaði allt sem er. Jesús hefði getað gert hvað sem fýsti, en hann kaus að nota völd sín í þágu kærleikans, hann notaði völd sín til að sinna þeim sem minna mega sín, til að gefa þeim von sem ekkert áttu. Hann lét þar ekki staðar numið, hann gaf sjálfan sig fyrir alla menn.

Við minnumst á föstunni þess þegar Jesú gekk inn í Jerúsalem borg, tilbúinn að vera handtekinn, húðstrýktur, hæddur, tilbúinn til að vera krossfestur og deyja. Vegna þess að hann vissi að það væri skylda sín sem sonar Guðs. Sagan endar hins vegar ekki þar, því eins og við vitum reis Jesús upp frá dauðum á páskum.

Það er þetta frelsi, frelsi til að lifa fyrir aðra, frelsi til að vera öðrum mönnum eins og Jesús Kristur, það er þetta frelsi sem Biblían talar um. Frelsi Biblíunnar felst í getunni til að taka tillit til annarra.

  • Tvöfalda kærleiksboðorðið segir: Allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri þér. skalt þú og þeim gjöra.
  • Það segir ekki: Allt sem þú vilt EKKI að aðrir menn gjöri þér, skalt þú EKKI gjöra við aðra.

Munurinn á þessu tvennu er sá að kærleiksboðorð Krists segir okkur að við eigum að skipta okkur af náunga okkar, aðstoða hann í lífinu og við eigum að koma vel fram við hann. Við eigum sem sé ekki að láta hann vera. Við eigum ekki að leyfa honum að skemma líf sitt eða líf annarra. Við eigum EKKI að láta sem ekkert sé.

Páll postuli talar um kærleikann. Sá kærleikur er langlyndur, góðviljaður, án öfundar, talar varlega, er ekki montinn, hegðar sér vel, er ekki sjálfselskur, ekki reiður, ekki langrækinn, hann gleðst ekki yfir óréttlæti þó það komi honum vel, en samgleðst sannleikanum þó hann ef til vill komi sér illa. Kærleikurinn breiðir yfir það sem aðrir gera, trúir á aðra og treystir öðrum, hlustar á aðra af virðingu, vonar hið besta öllum til handa og umber allt og alla. Með öðrum orðum kærleikur kristins manns leitar ekki inn á við heldur beinist sífellt að öðru fólki.

Frelsið sem Biblían boðar er þess vegna ekki Tal-frelsi, ekki frelsi til að velja einn gosdrykk fremur en annan. Frelsi Bibliunnar veitir Bandaríkjamönnum EKKI rétt til að nota jarðsprengjur í Suð-Austur Asíu. Frelsið sem Biblían gefur er EKKI frelsi til að eyðileggja eigið líf. Frelsi Biblíunnar er skilyrt, það krefst þess að við komum vel fram við náungann, hvers kyns, litar og kynhneigðar sem hann er – og á hvaða aldri sem er.

Narcissus misnotaði eigið frelsi til að njóta fegurðar sjálfs sín. Hann skeyti ekki um aðra, heldur horfði á spegilmynd sjálfs sín, þar til hann veslaðist upp og dó. Engum til gagns.

Guð gefi að við minnumst þess að frelsi okkar er háð því að við notum það öðrum til blessunar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.