Guðmundur Andri Thorsson (Vísir – Hengiflugið eða vegurinn) útskýrir um hvað Icesave snýst á mjög einfaldan og skiljanlegan hátt. Ég tek reyndar ekki undir hræðslu hans um dómstólaleiðina, enda helvítishótanir alltaf leiðinlegar. Þá sleppir hann því að stjórnvöld sem við kusum höfðu yfir að skipa eftirlitsstofnun sem hafði það hlutverk að fylgjast með hegðun bankanna og gaf þeim grænt ljós á innrásina í Bretland og Holland. Ekki nefnir hann heldur ferðalög ráðherrana okkar um Evrópu vorið 2008, til að sannfæra stjórnvöld á meginlandinu um að allt væri í lagi. En hann bendir á þetta:
En málið snýst samt líka um ábyrgð þjóðarbúsins á því að hafa látið undir höfuð leggjast að koma á fót nægilega sterkum innistæðutryggingasjóði til að inna af hendi þá lágmarkstryggingargreiðslu sem bar að gera við fall banka samkvæmt samningum undirrituðum af fulltrúum okkar. Það snýst líka um það að standa við skuldbindingar sem viðurkenndar hafa verið af fulltrúum Íslendinga frá tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde. Það snýst líka um áreiðanleika í alþjóðlegum samskiptum. …
Þetta var óraunveruleiki og svo kom veruleikinn og þeir beint á hausinn. Þá kom á daginn að þeir höfðu tekið stórkostleg lán í nafni heimilisins og heimilið var í ábyrgð. Og það var enginn óraunveruleiki. Var þá allt okkur að kenna? Nei. Var allt á okkar ábyrgð og ekki annarra? Nei. Var þetta kannski ekkert okkar mál? Jú, því miður; þetta var ekki síst okkar mál.
Við þetta er að bæta að mörgum hefur orðið tíðrætt um hvert peningarnir fóru. Í sjálfu sér er ekki ósennilegt að eitthvað af þeim séu staðsettir á eyjum í Karabískahafinu, en okkur má líka vera ljóst að eitthvað fór í skattgreiðslur á Íslandi og voru notaðir af ríki og sveitarfélögum. Það má sjá afskrifaða peninga frá Landsbankanum í glerhýsinu á hafnarbakkanum (rétt um 10 milljarða hef ég heyrt). Yfirtaka Novators á Actavis skilaði krónum í vasa fjölmargra venjulegra Íslendinga (Deutsche Bank hefur tekið það tap á sig). Peningunum sem var dælt inn í landið í skjóli bankanna og erlendir kröfuhafar hafa þurft að afskrifa (minnst reyndar vegna Icesave) voru notaðir til að byggja ótal knattspyrnuhallir og golfvelli sem hafa risið eins og gorkúlur á höfuðborgarsvæðinu.
Ég endurtek að ég efast ekki um að miklu hafi verið stolið, eitthvað hafi gufað upp til peningahimna, en auðvitað er sameiginleg ábyrgð okkar til staðar á því sem gerðist. Að halda öðru fram er óþolandi sjálfhverfa og blinda á það forréttinda- og lúxuslíf sem langflestir Íslendingar hafa lifað síðastliðin ár.
Það segir e.t.v. eitthvað um bilunina að tveimur árum eftir hrunið skuli Velferðarráðuneytið gefa út neysluviðmiðunartölur þar sem gert er ráð fyrir að miðgildisfjölskyldan eyði ríflega 1.000.000 króna í tómstundir og afþreyingu á ári.