Strákakristindómur

Ég tilheyri kvennastétt, ég er djákni. Vígðir djáknar í þjóðkirkjunni eru 40, þar af eru 5 karlmenn, ég, einn þeirra.

Fyrir nokkrum misserum fór ég eins og stundum áður á félagsfund Djáknafélags Íslands og hitti vinkonur mínar í félaginu. Ein þeirra vatt sér upp að mér og hóf að segja mér frá starfinu í Vatnaskógi.

Maðurinn hennar hafði tekið dótturina með sér á feðginahelgi í Vatnaskógi og það var víst alveg greinilegt – sagði hún mér  – að það voru kallar sem höfðu skipulagt þá samveru. Skilningur þessara skógarmanna var augljóslega ekki mikill á þörfum og væntingum stúlkna. Flestar stelpurnar hefðu meitt sig eitthvað yfir helgina og þessi ágæti djákni sem er mikil vinkona mín, sagði mér að dóttir sín hefði sagt að næstum allar stelpurnar hefðu einhvern tímann grátið yfir helgina, pabbarnir hefðu gleymt sér í íþróttum og þær hefðu þurft að horfa á og svona hélt þetta áfram …

Flestar vinkonur mínar í djáknastétt sem heyrðu á tal okkar voru sammála þeirri sem átt hafði barnið í Vatnaskógi og tóku undir mikilvægi þess að konur kæmu að skipulagi feðginaflokka til að minnka hættuna á að einhver gréti.

Það er góð regla að þegja og samþykkja allt sem reyndari og vitrari manneskjur segja svo það gerði ég.

Daginn eftir mætti ég svo í vinnuna mína sem þá var í KFUM og KFUK húsinu við Holtaveg og sagði frá því að við þyrftum að endurskoða feðginaflokkana, stelpurnar hefðu sumar grátið og jafnvel dottið á kassabílunum.

Þar tók á móti mér önnur góð kona, þó ekki djákni, og afgreiddi þessar hugmyndir um konur í feðginaflokkum sem hreinasta bull. Nú var ég í vanda tvær gáfaðar konur með sína hvora skoðunina hvað átti ég að gera?

Ég leiddi hugann að starfinu í Vatnaskógi.

Starfið í Vatnaskógi hefur margar víddir. Þar fékk ég í fyrsta skipti tækifæri til að stunda frjálsar íþróttir. Hef reyndar ekki gert mikið af því síðan. Þar fékk ég tækifæri til að dvelja og skemmta mér með 90 öðrum strákum og takast á við þau vandamál sem því fylgdu.

Ég kynntist köllum sem fannst gaman að leika með strákunum, voru sniðugir og uppfinningasamir og gáfu sér tíma til að sinna okkur á sinn hátt. Tóku á því ef einhverjum var ekki skipt inn á í fótboltanum, þrifu sár ef einhver meiddi sig, gerðu jafnvel tilraun til að fá okkur til að skipta um föt. Í Vatnaskógi gafst tækifæri til að gera hluti sem erfitt var að fá að gera annars staðar og forsendurnar voru forsendur karla.

Þessar forsendur karla eru forsendur sem er ekki sjálfsagt að drengir fái að kynnast. Drengir fá ekki alltaf að vera þeir sjálfir. Vonandi er það að breytast, en leikskólakennarar eru næstum einvörðungu konur. Grunnskólakennarar eru að miklum meirihluta konur. Skólakerfið virðist byggt upp á þann veg að drengjum líði oft á tíðum illa. Þeim gengur verr en stúlkum í skólanum og fara því síður í langskólanám.

Af þeim sökum er staður eins og Vatnaskógur óendanlega mikilvægur, þar fá drengirnir að vera þeir sjálfir. En það er ekki allt.

Í Vatnaskógi er þungamiðjan boðskapurinn um Jesú Krist. Í dag taka sífellt færri drengir þátt í kirkjustarfi, enda er uppbygging þess hugsanlega alltof lík skólanum. Starf yngri deilda KFUM hefur dregist verulega saman ef litið er til síðustu 20 ára. Uppbygging æskulýðsstarfs kirkjunnar hefur að miklum hluta beinst að stelpum.

Vatnaskógur er einn fárra staða þar sem orð Guðs nær heyrum drengja. Það sem meira er, í Vatnaskógi nær orðið til þeirra á forsendum þeirra sjálfra í umhverfi þar sem þeim líður vel í. Góður prófastur sem átti leið um Vatnaskóg fyrir nokkrum árum kallaði staðinn höfuðvígi strákakristindómsins. Þrátt fyrir að í huga prófastsins hafi legið smá háð, held ég að Skógarmenn eigi að vera stoltir af titlinum. Við þurfum að strákakristindómi að halda, alveg á sama hátt og við þörfnumst kvennaguðfræði og helgisiðafræðinga.

Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður stendur í Matteusarguðspjalli 28. kafla.

Í samhljóðan við þessi orð eru Skógarmenn í Vatnaskógi ábyrgir fyrir einni allra mikilvægustu miðstöð kristinnar fræðslu á Íslandi.

Og svo sannarlega er starfið blessunarríkt og með mikla uppskeru. Uppskeran er kannski ekki öll núna, en við megum treysta því að Orð Guðs sem er lifandi og kröftugt eins og stendur í Hebreabréfinu og hefur áhrif á líf þeirra drengja sem dvelja í Vatnaskógi.

Prestar, djáknar og æskulýðsfulltrúar sem annast fermingarfræðslu hafa flestir sömu sögu að segja, hafi barnið verið í Vatnaskógi, eru forsendur hans til þátttöku aðrar í fermingarfræðslunni en annars væri. Í Vatnaskógi læra drengirnir að biðja, lesa Guðs orð og  takast á við fyrirgefninguna, bæði að fyrirgefa og vera fyrirgefið. Þeir heyra að Guð elski þá og láti sér annt um líf þeirra.

Vatnaskógur er frábær staður. Útvalin til að vera í þjónustu við Guð.

Aftur að djáknaspjallinu. Ef til vill er Vatnaskógur ekki einvörðungu staðurinn þar sem drengir fá að vera þeir sjálfir. Vatnaskógur gefur einnig fullorðnum mönnum tækifæri til að leika sér. Ef til vill er mikilvægt fyrir ungar konur, stúlkur að kynnast pabba sínum á hans eigin forsendum en ekki alltaf á forsendum mömmu. Kynnast pabba sínum í körfubolta með hinum pöbbunum, kynnast keppnisskapi hans á kassabílunum og finna að trúariðkun getur verið pabba jafneðlilegur hlutur og hvað annað.

Hlutverk Vatnaskógar er ótvírætt fyrir kristni á Íslandi, vettvangur fyrir lifandi trúariðkun á forsendum drengja og karla. Staður þar sem boðskapurinn um Jesú Krist og náðarverk hans nær eyrum á annað þúsund drengja á ári. Við sem komum að starfinu í Vatnaskógi og styðjum það megum vera stolt(ir) af því að Kristur getur og vill nota okkur í boðun fagnaðarerindisins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.