Nú þegar ég á aðeins eftir tvo daga í skólanum þetta fyrsta misseri er ástæða til að velta fyrir sér hvað það er sem skiptir mig mestu máli við Trinity. Í umræðum við ágætan prófessor við skólann fyrir nokkrum dögum, fórum við að ræða um hvers vegna Trinity. Mér flugu í hug nokkrar ástæður, sem skipta mig og fjölskyldu mína máli.
- Almenningsskólarnir í Bexley eru með þeim allra bestu í Ohio og á top 5% í landinu öllu. Þetta skiptir verulegu máli fyrir barnafólk enda eru almenningsskólar mjög misgóðir í BNA. Stúdentaíbúðir Trinity eru í Bexley skólahverfinu.
- Stúdentaíbúðirnar í Trinity eru ágætar, samfélagið í garðinum og fjöldi barna skiptir miklu máli fyrir okkur. Húsaleigan er hófleg og stærð íbúðarinnar ásættanleg (3 svefnherbergi/2 baðherbergi/Ágæt stofa og nýtanlegur kjallari undir allri íbúðinni).
- Við erum mjög nálægt einum af stærstu háskólum Bandaríkjanna, OSU (Ohio State University). OSU hefur nýlega skrifað undir stóran samstarfssamning við rannsóknarsetur á Íslandi.
- Rólegt samfélag í Bexley, þar sem hægt er að nálgast mest allt gangandi eða á hjóli. Um leið er Bexley staðsett í milljón-manna borg, þannig að öll þjónusta er til staðar.
- Skólinn er lítill, þannig að samfélag nemenda og kennara er persónulegt og þægilegt. Mikið er lagt upp úr helgihaldi í skólanum.
- Prófessorarnir eru margir tengdir praktískum verkefnum á sviði guðfræði.
- Formaður vinnuhópsins á sviði kynferðismála sem vann skýrslu ELCA um stöðu samkynhneigðra og tillögur um viðbrögð er hér.
- Trúfræðikennarinn er einn af fulltrúum ELCA í samtali við katólikka í kjölfar JDDJ-samþykktarinnar.
- Hér er formaður þeirrar deildar The Society of Biblical Literature, sem glímir við leitina að sögulega Jesú.
- Skólinn er núverandi heimili safnaðaruppbygingarverkefnis sem heitir Heilbrigðir söfnuðir.
- Samstarf við aðra skóla er mikilvægur þáttur fyrir Trinity Lutheran Seminary. Fyrst er að nefna Bexley Hall, sem er guðfræðideild ensku biskupakirkjunnar, staðsett í Trinity. Það þýðir að biskupakirkjunemar eru í flestum tímum og víkka verulega út alla umræðu.
- Annað samstarf felst í tengslum við Katólskt seminary, það eina í BNA sem er í eigu Vatíkansins og við seminary á vegum Methódista, en hægt er að taka námskeið að vild í báðum skólum.
- Tengsl við OSU og Capital U. eru líka til staðar og hægt að taka sértæk námskeið við þá skóla. Þannig er á hverju ári boðið upp á námskeið um tengsl sérfræðistétta í tengslum við læknadeild, lögfræði- og fleiri deildir í OSU.
- Gifurleg fjölbreytni í kennsluaðferðum.
Þetta eru fyrstu pælingar. Skólinn býður upp á 1 árs meistarapróf fyrir fólk með M.Div. (Cand. Theol.).
Ekki er boðið upp á Ph.D. gráðu, sem gæti verið neikvætt fyrir einhverja.