Segja frá

Ýmsir vinstrimenn gagnrýndu Halldór Laxnes á sínum tíma harðlega fyrir að segja ekki frá hvernig ástandið raunverulega var í Sovétríkjunum. Hann sagði ekki frá röðunum í búðunum, frá skortinum og fátæktinni heldur talaði á jákvæðum nótum um landið þrátt fyrir allt sem hann sá.
Ég glími stundum við þetta hér í skólanum. Spurningin sem ég stend frammi fyrir er hvort ég eigi að hlusta og þegja, eða hvort ég eigi að tjá mig og benda á hvernig land samnemenda minna kemur mér fyrir sjónir. Eitt slíkt skipti var í dag. Umræðuefnið var hjónabandshvatning ríkisstjórnarinnar í þessu landi, en síðustu ár hefur slík hvatning verið ein af mest notuðu vopnunum gegn fátækt, sér í lagi til að takast á við fjölda einstæðra mæðra í fátækrahverfum stórborga, þar sem flestir íbúar eru af afríkönskum uppruna.
Hugmyndin er sú að ef allar einstæðu mæðurnar giftust og fengu fyrirvinnu yrði allt gott. Vandamálin við þessa hugmynd eru ótalmargar, fjölskylduofbeldi þeirra alvarlegast. En ekki síður að mælanlegur hluti svartra bandarískra karlmanna á giftingaraldri er í fangelsi. Í umræðunni var tæpt á erfiðleikum við að nálgast getnaðarvarnir, smokkar eru bara fríir á heilsugæslustöðvum einkaháskóla, svo hvítu krakkarnir þar þurfi ekki að fara vandræðalegir í apótekið. Allir aðrir þurfa að borga, enda er eina rétta leiðin skírlífi fyrir fátæka að mati stjórnvalda. Fóstureyðingar eru ekki alltaf aðgengilegar í fátækrahverfum, og kosta auk þess peninga og ekki alltaf auðvelt að fá niðurgreiðslu, enda lúxusathöfn. Svpna gæti ég lengi haldið áfram. En alla vega, lausn stjórnvalda felst í að einstæðu mæðurnar giftist, hverjum er ekki vitað og hvernig þau eiga að borga athöfnina er ekki svarað. En hvað um það. Eftir umræður um getuleysi allra til að takast á við vandann og umræður um hvernig upper-middle class hvítar lútherskar kirkjur gætu hjálpað í fátækrahverfunum, við eitthvað sem enginn veit nákvæmlega hvað er, þá gat ég ekki þagað lengur. Ég sagði svo sem ekki margt, en spurði hvort það væri ekki einfaldara að bjóða upp á ódýra barnagæslu/leikskóla fyrir börn einstæðra mæðra, sem gæfu þeim kost á að fara út á vinnumarkaðinn, en að reyna að neyða alla í hjónaband.
Hugmyndin þótti róttæk og óraunsæ, jafnvel róttækari en ríkisstjórnarinnar sem telur best að allir séu látnir giftast.

One thought on “Segja frá”

  1. ,,Hugmyndin þótti róttæk og óraunsæ, jafnvel róttækari en ríkisstjórnarinnar sem telur best að allir séu látnir giftast.”

    Ég hló upphátt við lestur lokasetningarinnar. Magnað hvernig sömu skoðanir eru róttækar í einu landi en sjálfsagðar í öðru. Skemmtileg lesning.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.