Að kaupa sér námsgráðu

Fyrir nokkru varð umræða um að stjórnmálamaður á Íslandi hefði sagt ósatt um námsgráðu við Háskóla Íslands. Hneykslunin varð nokkur og kostaði manninn hugsanlega borgarstjórastólinn, þrátt fyrir ágætar útskýringar á mistökunum sem áttu sér stað.

Það ætti því að vekja upp nokkra umræðu að nú er kominn á sjónarsviðið stjórnmálamaður með meistaragráðu og doktorsgráðu (Ph.D.) frá skóla sem fékk réttindi 1986 til að útskrifa nema með slíkar gráður í Kaliforníu en missti réttindin aftur 1997 eftir 11 ár, vegna vafasamra kennsluhátta og þeirrar staðreyndar að hafa ekki uppfyllt lagaskilyrði um rekstur slíkra skóla. Um var að ræða bréfaskóla sem veitti viðkomandi manni meistaragráðu 1988 og Ph.D.-gráðu 1990 fyrir 1-2 árs rannsókn sem var unnin með fullri vinnu (leiðrétt). Þrátt fyrir að skólinn, Columbia Pacific University hefði heimild til starfa í Kaliforníu hafði hann ekki viðurkenningu frá einum einustu samtökum til gráðuveitinga.
Á sama hátt hefur þessi nýsprotni stjórnmálamaður MBA-gráðu frá National University í San Diego en skv. vefsvæðinu MBA.com hefur sá skóli ekki viðurkenningu til að útskrifa með slíka gráðu.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að þessi ágæti maður sé óheiðarlegur og eflaust telur hann pappírana sína einhvers virði. Hins vegar skulum við vona að þessi virti skólamaður verði seint menntamálaráðherra. Nema þá ef við höfum áhuga á að spara enn frekar í rekstri HÍ.
Það að kaupa sér námsgráður á netinu hefur löngum þótt kómískt og erfitt að sannreyna slíka pappíra. En þegar slíkar fjárfestingar skila mönnum ráðherraembættum eða jafnvel bankastjórastólum, ætti ég e.t.v. að hætta þessu stressi í Ameríku og taka bara upp VISA-kortið.

Nánari upplýsingar um Columbia Pacific University
[meira]
e-mini MBA nám við National University
MBA nám við National University

2 thoughts on “Að kaupa sér námsgráðu”

  1. Að sjálfsögðu hefur ónefndur stjórnmálamaður verið í Nefnd um endurskoðun laga um háskólastigið. Það er þá maðurinn til þess.

  2. Ph.D.-gráðu 1990 fyrir 1-2 árs rannsókn sem var unnin með fullu námi

    Væntanlega ætti að standa hér “með fullri vinnu”. En nógu slæmt er það ef hitt er satt, því að maður stundar litlar fræðirannsóknir á 1 – 2 árum með fullu námslegu prógrammi, nema það nám sé sniðið að doktorsritgerðinni (láttu þig dreyma). Mér þætti gaman að sjá doktorsverkefni viðkomandi, hvaða umfjöllun það hefur fengið. Vera má að þetta sé bara hið besta mál, ég hef ekki mikla trú á því að óreyndu.

Comments are closed.