Annall.is

Þetta leyfi ég mér að skrifa því ég lít á annálinn sem opinberan umræðuvettvang, ekki persónulegt einkablogg þess sem hér á bloggsíðu.

Þessi fullyrðing Torfa Hjaltalín um annall.is vakti nokkra athygli mína þegar ég las yfir valin ummæli í dag. Torfa til upplýsingar og annarra sem hafa persónulegar hugmyndir um stöðu og eðli annáls þá er annállinn minn, elli.annall.is, ekki opinber umræðuvettvangur heldur þvert á móti persónulegt einkablogg mitt. Þær skoðanir sem ég set fram hér eru að öllu jöfnu mínar eigin og alsendis óháðar vinnuveitendum mínum í fortíð og framtíð.
Annall.is-lénið er í eigu einstaklings sem auk þess forritaði umhverfið, og gefur mér kost á viðkomandi léni og hugbúnaði til að viðhalda því. Síðan er vistuð í Svíþjóð og ekki í neinum tengslum við opinbera aðila, þó ég viti til þess að sami hugbúnaður sé notaður hjá félagasamtökum og stofnunum, m.a. kirkjunnar. En það að ég noti Mont Blanc-penna gerir skrif mín ekki að opinberum upplýsingum frá KB-banka. Þó Hreiðar Már eigi e.t.v. líka þannig penna.

8 thoughts on “Annall.is”

  1. Skondin samlíking annall.is við Mont Blanc penna. Auðvitað eigum við, annálungar okkar eigið blogg sjálfir og fráleitt er það annað en einkablogg þar sem gestir fá að gera aths. óáreittir, meðan þeir virða mörk gestrisni okkar sem hér skrifum.

  2. Að sjálfsögðu eru þínar skoðanir og skrif þín eigin, Árni Svanur. Það er hins vegar stór munur á annálnum og á einkabloggsíðum eins og sjá má á því formi sem hér er skrifað á. Skrifin á annall.is birtist á sameiginlegri síðu og upphaf greinanna til hliðar þannig að lesendur geta fylgst með nýjustu skrifum. Hér er stór munur á annálnum annars vegar og einkabloggsíðum hins vegar. Formið sem er á annálnum kallar á opnar umræður og fjáls skoðanaskipti sem einkabloggsíðurnar gera síður. Við höfum dæmi um svipað fyrirkomulag á vantru.is Þeir sem skrifa hér fast á annálnum eru tengdir kirkjunni á einn eða annan hátt. T.d. eru hér iðulega prédikanir klerkmennaðra manna, eða vísað til slíkra fyrirbæra. Þá er tíðum sagt frá því sem er að gerast í kirkjulegum samhengi og á síðum kirkjunnar (kirkjan.is og tru.is). Auk þess hafa bloggarar síðunnar staðið í stríðu í trúvörn svo oft hefur ært óstöðuga. Tilraun þín, Árni Svanur, til að neita þessum tengslum er því sérkennileg svo ekki sé meira s

  3. Fyrirgefðu Elli, mér sýndist Árni Svanur hafa skrifað þetta! En by the way. Hvað ertu þú að blanda þér í þessa umræðu?

  4. Það vill svo til að Elli heldur úti bloggi á annál svo auðvitað kemur þetta honum við. Eða hvers vegna ætti þetta að koma honum minna við en Árna Svani? Hvað fullyrðingu þína varðar um tengsl annáls við kirkjuna varðar þá vil ég benda á að ég er ekki meðlimur hennar og Eva, sem skrifaði á annál um tíma er yfirlýstur trúleysingi. Svo mikið fyrir þær staðhæfingar. Og það er langt frá því að vera einsdæmi að nýjustu bloggfærslur birtist á yfirlitssíðum. Slíkt tíðkast á flestum stöðum þar sem hægt er að opna bloggsíðu.

  5. Sæll Pétur, það sem ég var að benda á var að elli.annall.is er einkablogg mitt, opinbert og aðgengilegt öllum heiminum en samt á mína persónulegu ábyrgð, og því mitt einkablogg. Það er hins vegar ekki opinber umræðuvettvangur sem er öllum opin. Þessa færslu þarf að skoða í samhengi við færslu á annál Þorkels og þá umræðu sem skapaðist þar.

  6. Blessaður Elli. Fyrirgefðu hvað ég var stuttorður. Ég var miklu frekar að furða mig á Torfa því hann fullyrðir að annall.is sé opinber vettvangur og spyr svo hvað þú (Elli) sért að blanda þér í málið, þ.e. einkamál hans og Árna Svans? Torfi. Ég er ekki að fatta hvert þú ert að fara. Halldór. Tek undir það að þetta er þitt einkablogg hér rétt eins og minn annáll er mitt einkablogg. Það er ef til er eitthvað sem heitir einkablogg.

  7. Ég þarf sýnilega að skýra mál mitt betur. Með “opinber” meina ég opin en ekki á vegum einhverrar stofnunar. Munurinn á annall.is og á “einkabloggsíðum” finnst mér augljóst enda ber nafnið það með sér. Það eru nokkrir einstaklingar sem birta skrif sín á sameiginlegum vettvangi á annálnum. Allir þeir sem vista bloggið sitt hér eru guðfræðingar eða með einhvers konar guðfræðigráðu (Þorkell með BA í guðfræði ef ég skil það rétt). Það sem ég furða mig á er hvað allir þessi “guðfræðingar” eru afskiptalausir um þjóðfélagsmál, t.d. árásarstríð Ísraela í Líbanon. Ég spyr mig hvort það sé vegna þess að innst inni styðja þeir hina Guðs útvöldu þjóð, því þögn er sama og samþykki. Eða líta menn svo á að guðfræði og þjóðfélagsmál eigi ekki samleið?

Comments are closed.