Guð sem stjórnmálaafl

Fyrir flestum Bandaríkjamönnum er afstaðan til Krists mæld í afstöðinni til hjúskapar samkynhneigðra og fóstureyðinga, þrátt fyrir að þetta séu mál sem Kristur nefnir aldrei. Sama fólk og mælist þannig kristnast er í mörgum tilfellum skeytingarlaust um þann gífurlega þjóðfélagsvanda sem fátækt er. Það þrátt fyrir að fátækt og mikilvægi þess að vinna bug á henni sé nefnt til sögunnar um 2000 sinnum í Biblíunni.

Þegar svo kemur að skólakerfinu er öfugsnúið að þeir sem telja sig kristnasta virðast telja að mikilvægasta verkefnið í menntun bandarískra barna felist í að koma kenningunni um hugsaða hönnun inn í skólanna, en virðast líta fram hjá þeim gífurlega vanda sem blasir við í skólum í niðurníddum miðborgum. Meðan 30 þúsund börn deyja úr hungri á dag, er það kristnum mönnum til skammar að eyða orku sinni og tíma í deilur um hjúskap samkynhneigðra og fóstureyðingar.

Boðskapur Jim Wallis í St. John-íþróttahúsinu í Columbus var eitthvað á þessa leið í kvöld, þegar hann hafði lokið ræðu sinni og svarað fyrirspurnum, keyrðu hvítu millistéttaráhorfendurnir heim frá höllinni í Volvo XC70 Cross Country bílunum sínum og hugsuðu sem svo að það væri gott að hafa gefið sér tíma til að hlusta á það sem skiptir máli. Einhverjir stoppuðu sjálfsagt í Kroger á leiðinni heim og keyptu sér nammi eins og ég.

2 thoughts on “Guð sem stjórnmálaafl”

  1. Skemmtileg sýn á bandarískt þjóðfélag. Minnir mig á félaga minn Tony Campolo! En svart á hvítu sýnir þetta fyrringuna sem er í gangi og jafnframt hvernig kristnum einstaklingum hættir til að loka sig af frá umheiminum!

Comments are closed.