Móðurmál

Columbus Dispatch fjallar á forsíðu Metro&State um móðurmál. Skv. blaðinu fjölgar börnum með annað móðurmál en ensku ógnarhratt í mið-Ohio.
Því er lýst að ekki sé nóg með að börnin tali ekki ensku, foreldrarnir geri það ekki heldur og það sem meira er, sum kunni ekki að opna hurðir og hafi aldrei séð rennandi vatn. Fjölgunin á síðustu árum er a.m.k. tíföld á flestum svæðum. Síðan kemur reyndar fram að í Bexley sé lítil fjölgun, börn með annað móðurmál en ensku séu enn færri en 10. Þeir tóku reyndar ekki fram að alla vega eitt af börnunum í Bexley hafi séð klósett.
Það er merkilegt að þessi frétt er birt sama dag og umfjöllun um nýtt frumvarp um ólöglega innflytendur er í hámarki, þar sem stjórnvöld velta fyrir sér að setja upp rafmagnsgirðingu og/eða vegg á landamærum Mexíkó og BNA.

(Áður birt á hrafnar.net)