Fyrir flestum Bandaríkjamönnum er afstaðan til Krists mæld í afstöðinni til hjúskapar samkynhneigðra og fóstureyðinga, þrátt fyrir að þetta séu mál sem Kristur nefnir aldrei. Sama fólk og mælist þannig kristnast er í mörgum tilfellum skeytingarlaust um þann gífurlega þjóðfélagsvanda sem fátækt er. Það þrátt fyrir að fátækt og mikilvægi þess að vinna bug á henni sé nefnt til sögunnar um 2000 sinnum í Biblíunni.
Þegar svo kemur að skólakerfinu er öfugsnúið að þeir sem telja sig kristnasta virðast telja að mikilvægasta verkefnið í menntun bandarískra barna felist í að koma kenningunni um hugsaða hönnun inn í skólanna, en virðast líta fram hjá þeim gífurlega vanda sem blasir við í skólum í niðurníddum miðborgum. Meðan 30 þúsund börn deyja úr hungri á dag, er það kristnum mönnum til skammar að eyða orku sinni og tíma í deilur um hjúskap samkynhneigðra og fóstureyðingar.
Boðskapur Jim Wallis í St. John-íþróttahúsinu í Columbus var eitthvað á þessa leið í kvöld, þegar hann hafði lokið ræðu sinni og svarað fyrirspurnum, keyrðu hvítu millistéttaráhorfendurnir heim frá höllinni í Volvo XC70 Cross Country bílunum sínum og hugsuðu sem svo að það væri gott að hafa gefið sér tíma til að hlusta á það sem skiptir máli. Einhverjir stoppuðu sjálfsagt í Kroger á leiðinni heim og keyptu sér nammi eins og ég.
Skemmtileg sýn á bandarískt þjóðfélag. Minnir mig á félaga minn Tony Campolo! En svart á hvítu sýnir þetta fyrringuna sem er í gangi og jafnframt hvernig kristnum einstaklingum hættir til að loka sig af frá umheiminum!
Jim og Tony eru víst kunningjar, eru jafn uppteknir af sjálfum sér og hafa starfað saman að ýmsum verkefnum.