Hvað er synd?

Í umræðu um “siðferðisglæpi” eða syndir í huga sumra kristinna, kemur oft í huga mér þegar ég sat í Afbrotafræði I upp í Háskóla og Helgi Gunnlaugsson fjallaði um kenningar George Vold um “Group Conflict Theory of Crime”.

Þegar ég las færsluna á Múrnum í dag, ákvað ég að fletta upp skilgreiningum Vold mér til gleði og ánægju (það virðist nefnilega ALLT verða áhugavert, þegar maður er að falla á tíma :-0).

George Vold taldi að glæpir byggðust á tveimur þáttum. Annars vegar atferli, hins vegar á skilgreiningu annarra hvort atferlið væri ásættanlegt. Að mati Vold var það skilgreiningin sem væri ráðandi þáttur af þessum tveimur. Í tengslum við þetta kom hann fram með tilgátu 1958 um að “glæpir” væru atferli minnihlutans. Unglingaglæpir fælust svo dæmi væri tekið, í mismunandi gildismati kynslóða, þar sem fullorðnir væru ráðandi meirihluti sem annaðist skilgreiningarnar á því hvað teldist glæpur og hvað ekki. Þó Vold hefði síðar komið fram með efasemdir um eigin hugmyndir er ljóst að þær geta varpað skemmtilegu ljósi á skilgreiningar fjölmargra kristinna hópa á það hvað er synd og hvað ekki.

Þannig eru samkynhneigð, fóstureyðingar og kynlíf fyrir hjónaband ekki mótandi atferli í lífi hvítra giftra karlmanna á aldrinum 30-60 ára. Allt eru þetta þættir sem einkenna atferli minnihlutans, þeirra valdalausu og/eða ungu. Þannig er auðvelt að hamra á þeim sem meginsyndum. Á sama tíma er t.d. ábyrgðarleysi í fjármálum ekki á sama hátt talið synd, enda algengara atferli hjá ráðandi hópi. Eins skilgreinir þessi ráðandi hópur, sér í lagi í BNA, dauðarefsingar utan við 5. boðorðið enda er þar um að ræða atferli sem þeir sjálfir taka ákvarðanir um.

13 thoughts on “Hvað er synd?”

  1. Var að enda við að þýða tilvitnun sem mér finnst tengjast niðurlagi orða þinna:

    Eins og hún kemur mér fyrir sjónir þá er dauðarefsing í sjálfu sér synd, morð sem framið er af samfélaginu.

    Jacques Maritain, sem vitnað er til í The Dorothy Day Book

  2. Ég held að fyrir ýmsum kristnum mönnum sé um samsvarandi hlut að ræða, brot gegn yfirvöldum (hvort sem yfirvaldið er Guð eða stjórnvöld).

  3. Þessi “syndaflokkun” er áhugaverð maður hnýtur til dæmis um það að ofát er ekki síður synd en ofdrykkja þegar maður les Biblíuna. Merkilegt það syndir sem margir fremja verða samykktar meðal kristinna manna ef nógu margir fremja þær, alls ekki sniðugt. Kalla á vitundarvakningu

  4. Hugmyndir um að binda syndina við ákveðið atferli eins og lýst er í færslunni hér að ofan er gífurleg einföldun á syndahugtakinum, en er mjög algeng hjá kristnum mönnum. Syndin felst eins og orðið bendir til í aðskilnaði Guðs og manns. Sá aðskilnaður felst ekki í einstökum verkum eða ekki verkum.

  5. Skemmtileg pæling. Morð eru ekki aðeins réttlætt vegna dauðadóms heldur einnig í stríði. Held að flest sem telst sem synd sé undir vissum kringumstæðum talið norm.

  6. [K]ynlíf fyrir hjónaband [er] ekki mótandi atferli í lífi hvítra giftra karlmanna á aldrinum 30-60 ára.

    Það eru þeir sem móta syndaskilninginn. Hvað þeir aðhöfðust fyrir giftingu er ekki lengur “aktúelt”. Þeir sluppu lifandi 🙂 og sjá ekki fram á að lenda í þeim aðstæðum aftur.

  7. Það á vel við að skoða frétt mbl.is í dag af forboðnum, nánum samskiptum karls og konu, í ljósi viðmiðana kvæntra karla á aldrinum 30-60 ára. Merkilegar skýringar sem aðilar gefa á hegðun sinni. Annað þeirra “harmaði yfirsjón sína” en hitt fann sér blóraböggul, sjálfan kölska. Sá kippir í kynið er hann fer að dæmi forföður síns Adams.

  8. LOL. Sluppu lifandi. Habblaha. Ég held þú verðir að tala um hvíta gifta KRISTNA karlmenn, en hafðu þá Jimmy Swaggart fremstan í flokki. Hvítur sjónvarpsprediakari sem slapp ekki alveg…en lifandi þó og grét einhver heil ósköp í magnaðri sjónvarpsiðrun sinni yfir gleðikonunni sem hafði freistað hans….:-) Iðrun getur verið ansi hreint mikilvæg frammi fyrir þjóð sem heldur fólki ríku og dómurum sem ráða frelsi fólks…..;-)

  9. Skrítið hvað syndin breytist með tímanum, síðast þegar að ég vissu var morð jafn mikil synd og það að safna eldiviði á laugardegi og að koma í veg fyrir að hlutir dyttu. En nei það er komin ný skilgreining á orðinu synd “aðskilnaður frá guði”. Síðan hvenær þýðir synd þetta? Ég hélt að það þýddi “að hitta ekki” eða þá “hlutir sem að eru guði ekki þóknanlegir. ps. hvað er málið með sjúkdóma?

  10. En ef morð og eldiviðarsöfnun eru eitt og hið sama, er þá hinn svokallaði aðskilnaður frá guði í þversögn við það? Hugtakið synd er af sumum talið vera sprottið frá hugtakinu sundrung…og því er það komið til að menn tala um aðskilnað eða sundrung frá guði. Að hitta ekki, eru að ég held grísk áhrif telepatískrar hugsunar, þar sem það að ná ekki settu marki heyrir undir vöntun eða skort og því synd… þannig minnir mig að þetta sé hugsað en leiðrétti mig hver sem betur veit.

  11. Sjúkdómar held ég séu ekki hugsaðir sem synd hjá alvarlega hugsandi trúfólki nema dultrúarhyggjufólki sem sér þjáninguna sem hluta af sundrunginni umræddu og hugmyndunum um hinn fallna og ófullkomna heim eða hinnar þjökuðu veraldar. Sjúkdómsgreiningar almennt eru held ég aðferð til þess að skilgreina ákveðin atferli eða einkenni þannig að hægt sé að beita skipulagðri læknis eða líknarmeðferð á þau. Tengsl þeirra við syndahugtökin hafa oft verið óvarlegir valdatilburðir svokallaðs kristins fólks, oft karla, sem hræðast innileikann meir en nokkuð annað þrátt fyrir allt kærleikshjalið:-)

Comments are closed.