Upplýsingar um laun einstaklinga

Á hverju ári eru birtir listar yfir skattgreiðslur manna. Og á hverju ári mótmæla frjálshyggjupostular þessari framlagningu, telja hana brot á friðhelgi einkalífs og hnýsni. Ég fullyrði hins vegar að hér sé um að ræða gríðarlega mikilvægan þátt í markaðsþjóðfélaginu og grundvallarforsendu þess að markaðurinn fái að ráða ríkjum. Ef ekki liggja fyrir upplýsingar um laun og launakjör einstaklinga í þjóðfélaginu, er mér ómögulegt að selja vinnuframlag mitt á sanngjörnu verði.

Til að ég geti verðlagt vinnuframlag mitt hef ég tvær leiðir. Annars get í gengið í stéttarfélag sem annast samninga fyrir mína hönd og sér til þess að endurgjald fyrir vinnuna mína sé í samræmi við það sem aðrir fá. Nú eða með því að semja sjálfur með hliðsjón af því hvaða laun tíðkast fyrir viðkomandi vinnu. Báðar þessar leiðir gera ráð fyrir því að upplýsingar um laun liggi fyrir. Í tilfelli stéttarfélagsins duga einhvers konar tölfræðilegar upplýsingar um meðaltal og jafnaðarlaun sem allir eiga að fá. En ef um er að ræða einkasamninga, þarf upplýsingar um hvað þeir einstaklingar sem ég samsama mig við fá í umslagið sitt.

Hér er rétt að benda á að launagreiðendur, kaupendur vinnunnar, hafa að öllu jöfnu mun meiri upplýsingar en launþegi. Það byggir á þeirri staðreynd að launagreiðendur hafa upplýsingar um laun annarra sambærilegra seljendur vinnu sem launþegi hefur ekki, nema upplýsingar liggi fyrir opinberlega. Með því að hætta þeirri upplýsingagjöf sem felst í birtingu áðurgreindra lista er verið að útbúa ójafnvægi á markaði. Launagreiðendur búa þar með yfir upplýsingum sem launþegar hafa ekki, slíkt skekkir markaðinn og leiðir til óhagkvæmni.

Utan við augljós hagfræðileg rök fyrir framlagningu lista yfir skattgreiðslur, má einnig líta til þess að skattgreiðslur eru ekki einkamál einstaklinga og þátttaka í samneyslunni er nákvæmlega það, þátttaka í samneyslunni. Ekkert er óeðlilegt við það að þeim duglegu einstaklingum sem leggja meira af mörkunum en við hin, sé hampað og þakkað fyrir framlag sitt.