Pápískur forseti?

Það hefur gerst þrisvar í sögu Bandarísku þjóðarinnar að kaþólikki hafi verið útnefndur sem forsetaframbjóðandi stóru flokkanna tveggja. Fyrstur var Al Smith 1928 sem laut í gras fyrir Herbert Hoover, sem er sagður hafa nýtt sér til fullnustu andúð margra mótmælenda á pápísku. Enda sterk hefð fyrir því í BNA að líta svo á að margir af fyrstu landnemunum hafi flutt til Nýja heimsins undan kúgun rómversku kirkjunnar. Annar kaþólikkinn til að reyna við stólinn var John F. Kennedy. Frambjóðandi repúblikana Richard Nixon náði ágætum árangri á Biblíubeltinu, þar sem hræðslan við pápískuna var mest, en það dugði ekki til. Sjarmi ásamt hæfileikum hans og ráðgjafa til kynna JFK sem kaþólikka þar sem það átti við og sem mann sem mat BNA meira trú sinni þegar það átti við, komu honum í stól forseta. James Gannon orðar það svo í USA Today:

The fact that Kennedy virtually had to promise to keep his religious beliefs in a lockbox for four years, to overcome fears that the pope would be calling the shots, was a concession we could understand and forgive.

Þriðji kaþólikkinn til að berjast um sætið er síðan John Kerry. Þrátt fyrir fyrirmæli páfagarðs er John Kerry ekki tilbúin til að hafna fóstureyðingum og hjónaböndum samkynhneigðra. Að vísu telur hann að þetta samræmist ekki persónulegum skoðunum sínum, en hann geti ekki tekið ákvarðanir um líf og frelsi annarra.

Afleiðingin er sú að markalínan milli mótmælenda og kaþólikka er óskýr. Joseph Bottum orðar það á þessa leið í grein á vefnum:

If you’re a serious-enough Catholic to be tempted to vote in sectarian solidarity, then you’re also a serious-enough Catholic to dislike the pro-abortion Kerry. And if you’re a zealot who votes against anything with the least odor of Catholicism, then you probably don’t have much choice except Kerry, the Catholic. For where anti-Catholic bigotry in 1960 came mainly from the Evangelical right, it comes overwhelmingly in 2004 from the pro-abortion left–who certainly aren’t going to vote for Bush.

Á sama tíma hefur reyndar Páfagarður tekið harða afstöðu gegn ákvörðunum G.W. Bush um stríð í Írak. Það málefni virðist hins vegar léttvægara þar sem um einstaka afstöðu til liðins atburðar er að ræða, en ekki lífsviðhorf líkt og í málefnum samkynhneigðra.

Landsleg trúmála í BNA hefur breyst mikið á þeim 44 árum sem liðin eru frá sigri JFK. Afstæðishyggjan ræður ríkjum í lífi felstra og fleiri tónar á gráskalanum en fyrr. Kannanir sína að afstaða íbúa í BNA til þátta eins og fóstureyðinga, samkynhneigðar og dauðarefsinga er ekki háð kirkjudeild á sama hátt og ef til vill áður. Ítök kirkjunnar hafa minnkað hjá meginþorra íbúanna og þannig er hlutfall kaþólikka sem vilja heimila fóstureyðingar og styðja réttindabaráttu samkynhneigðra því sem næst það sama og ef litið er til bandarísku þjóðarinnar í heild og það þrátt fyrir skýrar skoðanir kirkjunnar.

Sífellt færri sem telja sig tilheyra ákveðinni kirkjudeild fara reglulega til kirkju. Því hefur ofangreint rof orðið á milli kenninga kirkjudeildarinnar og meðlima hennar. Á sama tíma reyna einstaklingar í hópi þeirra sem taka virkan þátt í kirkjunni að aðgreina sig frá þeim óvirku. Þetta birtist t.d. í því að nú hefur hópur kaþólskra biskupa ákveðið að veita ekki altarissakramenti þeim sem beita sér opinberlega fyrir réttindum samkynhneigðra og lögleiðingu fóstureyðinga.

Það veldur því að John Kerry þriðji kaþólski forsetaframbjóðandinn hefur ekki stuðning kirkjunnar sinnar, ólíkt forverum hans tveimur. En það er ekki nóg með að stuðningurinn sé ekki til staðar. Hópar kaþólikka hafa ákveðið að berjast gegn Kerry í kosningunum. Finna má síður eins og CatholicsAgainstKerry og fjölda greina þar sem skoðunum hans er hafnað.

Markalínan milli kaþólikka og mótmælenda er óskýr í þessum kosningum eins og áður sagði. Markalínan um þessar mundir er e.t.v. þverkirkjuleg :-). Annars vegar þeir sem fara reglulega í kirkju og svo hinir sem gera það ekki. Með öðrum orðum, þeir sem telja sig til hinnar sönnu kirkju (hvaða kirkjudeild sem þeir svo tilheyra) og þeir sem tilheyra kirkju fjölskylduhefðarinnar. Þessi markalína hefur í einhverjum mæli verið til staðar í kosningum frá 1992 og hugsanlega fyrr. Þannig tók Bill Clinton sér skýra stöðu utan hinnar sönnu kirkju t.d. með því að koma fram sem stoltur sonur einstæðrar móður og í afstöðu sinni í garð James Dobson. Á sama hátt tók G.W.Bush Jr. harða afstöðu með hinni sönnu kirkju í baráttunni 2000, og gekk á stundum mjög langt í því efni, t.d. með heimsókn í Bob Jones University.

Hvort trúarlegar áherslur koma til með að ráða úrslitum í þessari kosningabaráttu í ár er óvíst. Þó virðist áhersla John Kerry á að kynna kaþólskan bakgrunn sinn í viðleitni við að nú til hinnar sönnu kirkju kaþólikka dæmd til að mistakast. Ljóst er að þriðji kaþólikinn í forsetaframboði verður seint kallaður pápíski forsetinn hafi hann erindi sem erfiði.

Þessi texti er stílæfing mér til skemmtunar. Enda virðist allt annað en það sem pressar á verða áhugavert, þegar reynt er að vinna undir tímapressu. Rétt er að taka fram að hugtakið “hin sanna kirkja” er ekki tilraun til að taka afstöðu til trúarlífs eins né neins. Heldur er með þessu verið að reyna að vísa til hugmynda Joachim Wach um “Ecclesiolae in ecclesia” eða sanna kirkju í kirkjunni.

2 thoughts on “Pápískur forseti?”

  1. Ítök kirkjunnar hafa minnkað hjá meginþorra íbúanna

    Ég skil þig þannig að trúrækni Bandaríkjamanna hafi minnkað síðustu árin en er ekki staðreyndin sú að öfgatrúmönnum hefur fjölgað mjög mikið, endurfæddum í hvítasunnusöfnuðum og svo framvegis? Eða ertu einungis að tala um ítök (völd) stóru safnaðanna.

  2. Með minnkandi kirkjusókn (og líklega trúrækni) hafa ítök kirkjunnar minnkað hjá stórum hópi fólks. Þessi þróun, fjölgun “nafnkristinna” hefur valdið því að…

    … einstaklingar í hópi þeirra sem taka virkan þátt í kirkjunni [leitast við] að aðgreina sig frá þeim óvirku.

    Þannig verða hugtökin frelsaður og endurfæddur áberandi og markalínan skýrist. Kirkjur sem leggja áherslu á mörkin milli sannkristinna og nafnkristinna styrkjast á kostnað þeirra kirkjudeilda sem gera það ekki. Þeim sem þú velur að kalla öfgatrúarmenn fjölgar og “hávaðinn” í þeim eykst sem viðbrögð við því að trúrækni meginþorrans minnkar. Eðli máls samkvæmt taka hinir sannkristnu virkan þátt í stjórnmálaumræðu og leitast við að koma í veg fyrir meinta hnignun samfélagsins og hafa þannig meiri áhrif en fjöldi þeirra gefur tilefni til, þar sem kosningaþátttaka er undir 50%.

Comments are closed.