Að upplifa

Öðru hvoru koma upp umræður í bloggheiminum um tilgang eða tilgangsleysi trúarinnar. Rétt í þessu var ég að lesa fyrir 5 ára dóttur mína stórkostlegan texta sem mig langar að halda til haga hér á síðunni.

– Stjörnurnar eru ekki eins fyrir alla. Fyrir suma sem ferðast eru stjörnurnar leiðarljós. Fyrir aðra eru þær ekkert nema smáljós. Fyrir aðra sem eru lærðir eru þær viðfangsefni. Fyrir kaupsýslumanninn minn voru þær gull. En allar þessar stjörnur eru þöglar. Fyrir þig verða stjörnurnar öðruvísi en fyrir alla aðra…

– Hvað áttu við?

– Úr því að ég á heima á einni þeirra, og úr því að ég hlæ á einni þeirra, þá verður það fyrir þig eins og allar stjörnurnar hlæi þegar þú horfir á himininn á kvöldin. Þú átt þér stjörnur sem kunna að hlæja!

Og hann hló enn.

– Og þegar þú lætur huggast (maður lætur alltaf huggast) þykir þér vænt um að hafa kynnst mér. Þú verður alltaf vinur minn. Þig mun langa til að hlæja með mér. Og stundum opnarðu gluggann, svona til gamans … Og vinir þínir undrast að sjá þig hlæja er þú horfir á himininn. Þá segirðu við þá: “Já, stjörnurnar, þær koma mér alltaf til að hlæja!” Og þeir halda að þú sért ruglaður. …

(Litli Prinsinn, höf. Antoine De Saint-Exupéry, þýð. Þórarinn Björnsson)

2 thoughts on “Að upplifa”

  1. Já, Prinsinn er flott bók. Og vita máttu að við skeptíkerar kunnum alveg að falla í stafi yfir fegurð heimsins og góðum bókmenntatexta. Eru það ekki rök á vogarskálarnar um tilgangsleysi trúarinnar? Þarf trú til að skynja dýrð að þínu mati?

  2. Blessaður Birgir, það var þessi texti um mismunandi sýn á veruleikann sem kallaði í huga mínum á hugrenningartengsl við umræðurnar hér. Annars sýnist mér að Antoine De Saint-Exupéry hafi verið franskur húmanisti per excellence og textar hans rýma vel við guðleysið í frönskum stjórnmálum, hér er ég því engan veginn að gefa því undir fótinn að trú sé forsenda fegurðar.

Comments are closed.