Er allt falt?

Það hlýtur að vakna sú spurning hjá mörgum þessa mánuðina hvort allt sé falt. Við sjáum að www.andriki.is andmælir andmælum við afskiptum ríkisins af mörkuðum. Við lesum Ögmund Jónasson gagnrýna lagasetningu á einkarekna fjölmiðla, jafnaðarmenn taka höndum saman um að verja auðmenn og prestur talar um að sigur lýðræðisins felist í því að kosningaréttur sé tekinn af lýðnum. Presturinn skipti reyndar um skoðun nokkrum dögum síðar og vildi kjósa, en staðfestir það ekki að allt sé falt? Við skiptum um skoðun eftir hentugleika og beitum í því skini hvers kyns “brellum”.

Allt þetta fólk og fleiri til virðast hafa gefið eftir pólítíska sannfæringu sína, ef hægt er að tala um sannfæringu, í því skini að slá sig til riddara, hefna sín á gömlum (eða nýjum) andstæðingum, nú eða hljóta vinsældir af lýðnum.

Ég heyrði brandara um daginn sem var eitthvað á þessa leið:

Ungur uppi gekk að glæsilegri stúlku á bar og sagði við hana: “Ef ég biði þér 10 milljónir króna, myndir þú þá sofa hjá mér.” Stúlkan leit á uppann og svaraði að bragði: “Það má athuga það.”

Samskipti þeirra urðu ekki meiri á þessari stundu, en seinna um kvöldið gekk uppinn aftur að stúlkunni og spurði hvort hún vildi sofa hjá sér fyrir 10.000 kall.

Stúlkan leit á hann, reiddist harkalega og svaraði: “Heldur þú að ég sé einhver gleðikona?”

Uppinn svaraði að bragði: “Þeirri spurningu var svarað fyrr í kvöld, nú þurfum við bara að ná saman um verð.”

Það liggur beinast við að spyrja. Hvaða þurfti til að allt þetta fólk fórnaði pólítískum hugmyndum sínum, eða er ég að miskilja þetta allt saman?

4 thoughts on “Er allt falt?”

  1. Sæll, Halldór Elías. Þú virðist aldrei hafa lesið ALLA færsluna mína „Sigur lýðræðisins“. Lestu hana alveg í gegn og þá sérðu alla fyrirvarana sem ég setti á þessa aðgerð ríkisstjórnarinnar strax í upphafi. Lagasetninguna kalla ég aðgerð: Friðarspillir I. Svo kom brellan, Friðarspillir II. Og nú er verið að framleiða Friðarspilli III sem líklega verður frumsýnd eftir helgina. Og allt í sama Hollywoodstílnum! Sömu leikarar, sömu trixin. Gríðarlegt hugmyndaflug er þetta nú annars. Ríkisstjórnin er eins og leikarar í mögnuðum trilli á æðislegum flótta undan almenningi sem sér í gegnum þetta allt og er löngu búinn að skilja stjórnarskrána, enda ekki með flækjufætur eins þessir fálkar (sbr. fánann þeirra) sem nú fara fyrir framkvæmdavaldinu. Bestu kv. Örn B.

  2. Blessaður Örn, ég tek undir með þér að farsinn er fáránlegur, aðferðirnar ömurlegar og dómgreindarleysið ótrúlegt. Hins vegar er ekki til að bæta úr vinglháttur gagnrýnendanna. Ég hef lesið alla færslu þína og í upphafi hennar heldur þú fram að:

    Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga til baka fjölmiðlalögin og setja ný er sigur fyrir lýðræðið í landinu. Stjórnin virðist hafa séð að sér og snúið af rangri braut ofríkis og yfirgangs a.m.k. hvað þetta einstaka mál varðar. Forsætisráðherra sagði í fréttum Sjónvarpsins í kvöld, sunnudaginn 4. júlí, að ekki hefði verið hægt að halda áfram við þær aðstæður sem skapast höfðu í þjóðfélaginu.

    Ég fæ ekki skilið hvernig þetta getur þýtt annað en stendur þarna. Í ofangreindri færslu fagnar þú frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem sigri lýðræðisins. Það að þú hafir ekki verið búin að lesa frumvarpið eða ekki skilið það breytir engu um orð þín. Ég ítreka að vinglháttur gagnrýnendanna gerir málið ekki auðveldara.

  3. Fyrirvarinn um að þér hefði líkað betur að sjá frumvarpið fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu dregur ekki úr upphafi greinarinnar, enda bendir þú á að þessi ákvörðun feli í sér

    [að] það [hafi] minnsta tekist að fá þessa sömu aðila til að staldra við og endurskoða stefnu sína og aðgerðir.

    Glúmur Jón og frjálshyggjufélagar hans benda á vinglvandræði gagnrýnenda í grein á http://www.andriki.is. Það verður að segjast eins og er að meðan ekki er hægt að fá upp úr mótmælendum hvað þeir vilja, þá er enginn sátt möguleg.

  4. Sæll, Halldór Elías. Enn og aftur. Í setningunni að ofan segir að það að draga til baka lögin sé sigur. Það segir EKKERT um FRUMVARPIÐ í textanum sem þú vitnar í, AÐEINS LÖGIN sem samþykkt voru á Alþingi undir þrýstingi og síðan dregin til baka. Viðbótin, þ.e.a.s. nýja frumvarpið, brellan, er það sem ég efaðist strax um. Lestu þetta bara einu sinni enn og þá hlýtur þú að sjá að ég hef alls ekki breytt um skoðun. Það var sigur fyrir lýðræðið að lögin voru dregin til baka. Þannig blasti þetta við mér að kvöldi dags þegar ákvörðunin var tekin og kynnt að mig minnir í kvöldfréttum. Síðan hefur sú trú margra styrkst að alþingi hafi ekki umboð til að draga lögin til baka því þau séu hjá þjóðinni. Það sá ég ekki þetta kvöld fremur en aðrir en sé það nú. Samt var það sigur að ríkisstjórnin varð að kannast við að hún var komin í ógöngur með málið. Hún spólaði sig síðan enn dýpra og er enn föst þegar þetta er skrifað – NB! þegar þetta er skrifað. Bestu kv. Örn B.

Comments are closed.