Að taka ranga ákvörðun

Farsinn um fjölmiðlafrumvarpið tók óvænta stefnu í kvöld. Að mínu viti hefur hver vitleysan rekið aðra og líklega náði það hámarki með ákvörðun Davíðs og Halldórs sem kynnt var í dag. Ég skrifaði hér á annálnum mínum 19. maí:

Hins vegar tel ég það koma fjölmiðlum mjög illa ef við látum hugsanlega lagasetningu hanga yfir í langan tíma. Af þeim sökum tel ég illa skrifað frumvarp betra en ekkert. …

…Skýrsla er komin fram sem segir að nauðsynlegt sé að setja lög um fjölmiðla, m.ö.o. raska jafnvægi í viðskiptaumhverfi. Fyrst ákvörðunin er komin er nauðsynlegt að bregðast við sem allra allra fyrst.

Um leið og ég taldi að nauðsynlegt væri að setja lög um fjölmiðla, þá leit ég svo á að þau lög þyrftu að liggja fyrir sem allra fyrst, til að markaðurinn gæti lagað sig að aðstæðum. Af þeim sökum studdi ég framlagt frumvarp í skrifum mínum hér.

Nú liggur fyrir að þessi hugmynd um skýrar reglur fyrir fjölmiðlamarkað skipta Davíð og Halldór engu máli. Ákvörðun þeirra um að viðhalda óvissuástandinu á markaðnum fram til ársins 2007 og leggja málið upp sem kosningamál í kosningum til Alþingis það sumar gerir starfsumhverfi fjölmiðla mikið verra en nokkur önnur aðgerð sem hægt var að grípa til.

Stundum er sagt að þegar mistök, kalli á fleiri mistök. Það á svo sannarlega við í þessu máli og ljóst að íslenskur fjölmiðlamarkaður verður í lamasessi a.m.k. næstu þrjú árin.