Fáeinar vangaveltur um skilyrði

Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um skilyrði og þegar þetta er ritað sitja Halldór og Davíð og reyna að finna sanngjörn skilyrði. En af hverju?

Þrátt fyrir að vera sannfærður um mikilvægi fjölmiðlafrumvarpsins eins og ég hef áður sagt, skil ég ekki þörf Sjálfstæðismanna til að setja skilyrði um kosningaþátttöku.

Vissulega var þörf á að fá lögfræðiálit á hverjir væru kosningabærir í kosningum um synjun laganna. Eru til dæmis Íslendingar búsettir erlendis kosningabærir. Nú er í stjórnarskránni talað um alla kosningabæra menn í landinu. Skv. því er eðlilegt að álykta að færri séu kosningabærir í þessum kosningum heldur en bæði í þing og forsetakosningum.

Auðvitað var þörf á faglegri ráðgjöf um hvernig orða á spurninguna á kjörseðlinum. Þannig er hugmynd Þjóðarhreyfingarinnar um hugtökin synjun og samþykkt mjög undarleg. Enda eru þessi hugtök ekki notuð í kosningum um lagasetningu á Alþingi, heldur einfaldlega og Nei.

En að þessu ræddu liggur spurningin í loftinu. Hvers vegna vilja Sjálfstæðismenn stefna öllu í uppnám með skilyrðum um kosningaþátttöku?

Tvær kenningar eru ofarlega í hópi samsæriskenninga. Önnur er að lög um að ákveðin fjölda þurfi til að samþykkja synjun gefa frjálshyggjupostulum flokksins tækifæri til að skila auðu í kosningunum. Þannig geti þeir komið sér hjá því að samþykkja lög sem dregur úr frelsi fjármagnsins án þess þó að fella lögin úr gildi og án þess að ganga fram hjá vilja flokksforystunnar.

Hin er einfaldlega sú að Davíð sé hættur við. Hann langi til að vera forsætisráðherra áfram og hann viti eins og er að Össur og þingflokksfélagar hans eru meira en reiðubúnir að ganga í eina sæng við Sjálfstæðisflokkinn, svo lengi sem Samfylkingin fær EKKI forsætisráðuneytið og þarf ekki að kalla til efnið sitt í það sæti. Með því móti gæti Össur styrkt stöðu sína í fylkingarbrjósti og stæði styrkur á næsta landsfundi fylkingarinnar, búin að koma fylkingunni í ríkisstjórn og þyrfti ekki að standa upp fyrir forsætisráðherraefninu frá síðustu kosningum [breytt].

Rétt er að taka fram að mér fannst skilyrðahugmyndin verð skoðunar. En slík skoðun hefði átt að útiloka möguleikann, enda eru röksemdirnar sem settar eru fram í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu ekki sterkar.

Það gangi þvert á þá lýðræðishefð, sem við búum við, og meginreglur stjórnskipunar okkar, að óverulegur minnihluti kosningarbærra manna geti fellt slík lög úr gildi.

Þessi rök eru ekki gild, því kosningarnar eru almennar og allur almenningar býr við þá lýðræðislegu skyldu að taka þátt í kosningum. Leti og sú borgaraleg óhlýðni sem felst í því að sniðganga almennar kosningar má ekki verðlauna á neinn hátt. Skilyrði um lágmarksþátttöku gera einmitt það.

…að sennilega sé heimilt að setja skilyrði af þessum toga í almenn lög. …ómótmæltar kenningar fræðimanna haft vægi við val á skýringarkostum og hljóti þá að skipta máli sá tími sem þær hafa staðið.

Rökin “Af því að einhver hefur sagt það og enginn mótmælt því” eru ekki efnisleg og því ekki þörf til frekari umræðu.

Svo sem greinir hér að framan hafi þetta ákvæði verið tekið inn í dönsku stjórnarskrána 1953 og sé þar gert ráð fyrir því að a.m.k. 30% kosningarbærra manna verði að synja lagafrumvarpi samþykkis til að því verði hafnað.

Rökin “Danir gera það svoleiðis” eru ekki efnisleg og því ekki þörf til frekari umræðu. Með fullri virðingu fyrir Dönum.

Ekki sé beinlínis lögfest í stjórnarskrá sú almenna regla að einfaldur meirihluti ráði, sé annað ekki ákveðið. Þó því sé ekki mótmælt að sú regla hafi auðvitað almennt gildi hér sem annars staðar þá sé það samt sem áður svo að hún gildi ekki fortakslaust við kosningaframkvæmd hér á landi. Sem dæmi um afbrigði þar að lútandi er bent á að meginkosningaregla stjórnarskrár okkar, sbr. reglur 31. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. stjskl. nr. 77/1999, um kjör til Alþingis, geri þvert á móti ráð fyrir mismunandi atkvæðavægi kjósenda í landinu eftir búsetu. Færa megi rök fyrir því að slík regla ætti þá jafnframt að gilda í þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðargildi laga settum af því sama Alþingi.

Þessi rök eru áhugaverð en skilyrðum um kosningaþáttöku óviðkomandi. Hér er velt upp spurningunni hvort atkvæðavægi eigi að vera jafnt fyrir allt landið. Áhugaverð og um leið örlítið tragíkómísk spurning.

Önnur rök skýrslunnar byggja allar á því að fyrst það er ekki bannað berum orðum, þá sé það hægt. Slík rök eru ekki efnisleg, heldur tæknileg að mínu viti og ættu ekki að vera gild í lýðræðislegri umræðu.

One thought on “Fáeinar vangaveltur um skilyrði”

  1. Ef rök hinna lögvísu manna eru „ógild“, veit ég ekki hvað segja skal um gagnrökin þín. Mér finnast öll rök skýrslunnar gild, einnig rökin gegn takmörkun. Ég held að mörkin sem starfshópurinn leggur til séu hófleg og skynsamleg niðurstaða. En lokaniðurstaða þín „ekki þörf frekari umræðu“ skilur ekki mikinn umræðugrundvöll eftir. 😉

Comments are closed.