Ekki á morgun heldur hinn

Það er margt hægt að segja um mynd Roland Emmerich “Ekki á morgun heldur hinn” (e. The Day After Tomorrow). Þannig má fjalla um hana sem tveggja tíma auglýsingu fyrir John Kerry í komandi kosningum í BNA. Lárus Páll vinur minn myndi líklega hlæja sig máttlausan af enn einni spennumyndinni með veðurfræðingum (hvað er þetta með veðurfræðinga?). Mig langar hins vegar að velta fyrir mér þeim guðvana heimi sem Roland Emmerich skapar.

Í mynd Roland kynnumst við mekanískum heimi. Heimi þar sem hringrás náttúrunnar fer sínu fram í einu og öllu. Engum hefðbundnum trúarlegum táknum bregður fyrir í “Hinum deginum”, ólíkt ID4 eftir sama höfund. Í ID4 er lögð áhersla á tilgangsleysi trúariðkunar með því að sína fulltrúa helstu trúarbragða heims reyna að afstýra hinu óumflýjanlega með bænakvaki. En slíkt dugar skammt þar er það tæknin sem bjargar okkur.

En aftur að “Hinum deginum”. Þrátt fyrir að hefðbundin trúartákn birtist ekki í myndinni er ekki þar með sagt að myndin sé trúlaus, því fer fjarri.

Phillip E. Hammond skilgreinir “borgaralega trú” (e. Civil Religion) sem safn “átrúnaðar og atferlis sem tengist fortíðar, nútíð og framtíð þjóðar á einhvern yfirfærðan hátt”. Borgaraleg trú er táknmynd fyrir samkennd þjóðar. Hún gengur þvert á hefðbundna skiptingu þjóðfélagsins eftir kyni, uppruna eða trúarhefð að öðru leiti.

Slík borgaraleg trú er mjög sterkt einkenni í áðurnefndum tveimur myndum Roland og reyndar líka í The Stargate og The Patriot. Hann vísar í borgaralega trú Bandaríkjamanna, sem er ögn kómískt í ljósi þessa að Roland er Þjóðverji.

Borgaraleg trú í BNA skiptist í tvo þætti prestlegan og spámannlegan að mati Matin Marty. Hér verður sá prestlegi að mestu til umfjöllunar en sá spámannlegi látinn bíða betri tíma. Enda á slík umfjöllun fremur erindi í flokkinn Stjórnmál hér á síðunni.

En hvar sjáum við þessa prestlegu borgaralegu trú í “Hinum deginum”?

Fyrst ber að telja fánann, táknmynd þjóðarinnar, sem kemur tíðum fyrir í myndinni. Frelsisstyttan er önnur þjóðargersemi. Sporöskjulaga herbergið er það þriðja. Þegar forsetinn hverfur á braut þaðan er fokið í flest skjól (í orðsins fyllstu merkingu). Í bók Meredith B. McGuire, Religion, The Social Context, er Biblían einnig nefnd, ekki vegna innihaldsins heldur þess sem hún stendur fyrir. Sú hugmynd um Biblíuna kemur skýrt fram hjá karlkyns bókaverðinum í myndinni.

Við heyrum einnig vísanir í þessa borgaralegu trú. Þegar allt er brostið fyrir íbúa norðurríkjanna þá geta þau lagst á bæn. Þegar Jack Hall heldur til N.Y. er hann hvaddur með orðunum “Guð veri með þér”. Þarna er í engum skilningi verið að vísa til hefðbundina hugmynda um guð og bænir. Hér er vísað til þess að vonin ein sé eftir en í raun sé hún gagnslaus, dauðinn sé handan við hornið. Borgaraleg trú hefur nefnilega litla von til handa einstaklingnum.

Guðleysi bókavarðarins og virðing hans fyrir Nietsche er eina hefðbundna trúarafstaðan sem nær í gegn. En þrátt fyrir guðleysið gerir hann sitt til að varðveita borgaralega trú þjóðar sinnar.

Það er mikilvægt að greina á milli borgaralegrar trúar og þjóðerniskenndar. Borgaraleg trú er sumra mati víðara hugtak, sem leitast við að yfirvinna mun á hvítum og svörtum, konum og körlum. Þannig sjáum við bæði í þessari mynd og ID4 að samsetning aðalsögupersóna er lýtur mjög skýrum lögmálum um hlutfall karla og kvenna, ríkra og fátækra, svartra, gyðinga, hvítra og einstaklinga af spænskum uppruna. En það samræmist hugmyndum t.d. P.E. Hammond.

Af þessu má sjá að mynd Roland er helgihald í einhverjum skilningi [Breytt 30. maí kl. 13:46]. Henni er ætlað að styrkja borgaralega trú Bandaríkjamanna. Trú sem er án Guðs, en á einkennilega mótsagnakenndan hátt kristallast í orðunum á dollaraseðlinum “In God We Trust”.

Skrifað sem æfing í guðfræðilegum pælingum, en lítill tími gefst til slíks í vinnunni. Túlkanir eru alfarið mínar, en til stuðnings var notast við Religion – The Social Context eftir Meredith B. McGuire.

One thought on “Ekki á morgun heldur hinn”

Comments are closed.