Lýsingar Nahúms á auðmýkt og hruni Níneve eru óhugnanlegar.
og [Drottinn] mun bregða klæðafaldi þínum upp að framan
og sýna þjóðunum nekt þína
og konungsríkjunum blygðun þína.
Hrunið og auðmýktin, skömmin og skíturinn verður algjör. Nahúm minnir á að þetta hafi gerst fyrir fleiri borgir, t.d. Nó-Ammon í Egyptalandi, sem myndi útleggjast sem Borg Guðs, en Ammon var egypskur guð. Í sjötíumanna þýðingunni (Septuaginta) er Nó-Ammon kölluð Thebes eða Borg Zeus.
Engin bót verður ráðin á meinsemd þinni,
sár þitt er ólæknandi.
Allir sem fá tíðindin um þig
munu klappa saman lófum
því að hver hefur ekki mátt þola
linnulausa illsku þína?
Nahúm er þannig lýsing á maklegum málagjöldum. Sá sem hreykir sér hátt, misnotar og misbýður öðrum mun þurfa að svara fyrir það. Fall Níneve er dæmi um það. Við vitum svo sem ekki hvort skrif Nahúm eru lýsing á fallinu, eða varúðarorð um yfirvofandi hrun, en inntakið er að samfélög sem verða úr hófi sjálfhverf muni verða reiði Guðs að bráð.
Ef um er að ræða spádóm, huggunarorð til þeirra sem þola kúgun hér og nú, fær textinn á sig annan blæ en ef um er að ræða glaðhlakkalegar lýsingar á hruninu sem Níneve hefur þegar orðið fyrir.
Það má síðan spyrja hvort að lestur á spádómum Nahúm fái á sig enn nýjan blæ ef við lesum ritið í samhengi við lok Jónasar. Huggunin standi í raun íbúum Níneve til boða.